ný tónlist: svartsyn – seven headed snake (og næstum nýtt með ofermod)

Það er gaman að sjá eldri hljómsveitir snúa aftur með góð lög, því þá leyfir maður sér að vona að komandi breiðskífur verði eitthvað meira en skugginn af því sem áður var.

Svartsyn sleppti í dag nýju lagi í loftið, tekið af In Death, sem væntanleg er í byrjun júní. “Seven Headed Snake” Lagi sem hljómar eins og það sé ekki samið af einstaklingi sem er í sífellu að reyna að skapa aftur það sem áður var.

Það mætti segja það sama um Sol Nox, þriðju breiðskífu Ofermod, þó þar sé svo sannarlega dansað á línunni.

frumsýning: vanhelga – utan mening

Ég velti því fyrir mér í morgun, þegar ég vaknaði og leit út um gluggann, hvernig það væri hægt að gera þennan dag betri. Það væri nú hægt með því að enda hann á tónleikum á Gauknum, en hvað með daginn sjálfann?

Nú, það er hægt að eyða honum með nýja Vanhelga myndbandið á rípít. “Utan Mening” er tekið af Ode & Elegy sem kom út á vegum Talheim Records í byrjun nóvember.

Eins og áður er vonleysið ofar öllu hjá hljómsveitinni. Almennt volæði er í hávegum haft og þunglyndið tekið og faðmað! Njótið vel!

evergrey klára íslandstrílógíu sína

Í sumar kíkti Tom Englund, söngvari sænsku hljómsveitarinnar Evergrey, til landsins og skoðaði sig um. Með honum í för var kvikmyndagerðamaðurinn Patric Ullaeus, og tóku þeir félagar upp efni víðsvegar um landið fyrir þrjú lög af nýjustu plötu hljómsveitarinnar, The Storm Within. Sú plata kom út í byrjun þessa mánaðar hjá AFM Records.

Á síðustu vikum hefur hljómsveitin birt myndböndin á YouTube og í dag birti hún síðasta myndbandið, við lagið “The Impossible”. Eins og sjá má í myndböndum sveitarinnar hér fyrir neðan, eru það ekki bara Justin Bieber og félagar sem hafa gaman að því að labba um landið.

hlustaðu á fyrstu plötu eufori á andfara

Það er hætt að það þekki ekki margir sænsku eftirsvertusveitina Eufori. Hljómsveitin er frekar ung, var í raun bara stofnuð fyrr á þessu ári, og hefur bara gefið út eina smáskífu.

En, þó hljómsveitin sé ung vinnur hún hratt og næsta föstudag, sama dag og fjórða plata Skálmaldar kemur út, mun fyrsta breiðskífa Eufori líta dagsins ljós. 

Platan nefnist Humörsvängningar og kemur út hjá Black Lion Records. Áhugasamir geta verslað gripinn hér.

year of the goat skellir nýju lagi á netið

Það styttist óðum í The Unspeakable, aðra breiðskífu sænsku dómsdagsrokksveitarinnar Year of the Goat, en platan kemur út fljótlega á vegum Napalm Records. Eins og venjan er þá hefur lagi verið sleppt lausu á netið til þess að gefa fólki smá hugmynd um hvað verður í boði á plötunni svo endilega kíkt “The Emma”.

shining – vilja og drom

Það skal tekið fram að þetta myndband inniheldur efni sem getur valdið óhug hjá fólki!

Ég bjóst aldrei við því að þurfa að vara lesendur Andfarans við efni sem hér birtist en það er komið að því nú. Þetta myndband sænsku öfgarokkssveitarinnar Shining inniheldur ofbeldi og dauða og færir grimmd mannsskepnunnar nær þér. Kvarforth er duglegur við að ganga fram af fólki og ef til vill tekst honum nú að fá einhverja til þess að æla.

Það væri þá kominn tími til, held ég, ef þú ert búinn að gefa út níu breiðskífur og engin ælulykt í loftinu þá er eitthvað að. Er það ekki?

IX: Everyone, Everything, Everywhere, Ends er fáanleg frá Season of Mist.