sólstafir á leið í evróputúr í júní

Fyrir nokkru síðan tóku Sólstafir upp sína fyrstu plötu án Guðmundar Óla Pálmasonar, en eins og flestir ættu nú að þekkja var hann rekinn úr hljómsveitinni í ársbyrjun tvöþúsund og fimmtán.

Fyrir viku síðan gaf hljómsveitin út sinn fyrsta síngul, „Ísafold“, af væntanlegri breiðskífu, Berdreyminn, sem kemur út tuttugasta og sjötta maí næstkomandi á vegum Season of Mist. Á meðan fólk hefur rifist um það hvort hljómsveitin sé betri eða verri án Gumma þá klýfur myndbandið áhorfsfjallið og nú er svo komið að, þegar þetta er ritað, myndbandinu hefur verið streymt fimmtíuogsexþúsund sinnum. Ekki slæmt það.

Hljómsveitin ætlar að skella sér á Evróputúr í júní og sjá frekari upplýsingar um þann túr á auglýsingunni hér fyrir neðan.

neurosis á eistnaflug

Flugið varpaði sannkallaðri sprengju í gær þegar það tilkynnti goðsögnina Neurosis til leiks. Hljómsveitin fagnar á þessu ári þrjátíu og eins árs afmæli en hún var stofnuð 1985 og á rætur að rekja til pönksenunar í Oakland, Kaliforníu.

Auk þess bætti Eistnaflug þokkalega við því ásamt Neurosis kynnti hátíðin Auðn, Dimmu, Hubris, Kæluna miklu, Misþyrmingu, Oni, Skálmöld og Sólstafi til leiks.

saint vitus – war is our destiny

Hvað er dómsdagsmálmur? Er það ofurhægt rokk sem er þyngra en Dauðastjarnan eða bara tónlist í anda Black Sabbath? Ef það er það fyrra getur Saint Vitus þá talist dómsdagsmálmur? Jú, hljómsveitin er stundum álíka þung og dauðastjarnan en hún er ekki alltaf hæg. Stundum er hún meiraðsegja dálítið hröð.

Hvað um það, tuttugasta og þriðja september næstkomandi kemur Live Vol. 2 út á vegum Season of Mist, franska plötufyrirtækisins sem elskar íslenskann metal alltaf meira og meira. Útgáfan hefur gefið út breiðskífur með Sólstöfum og Zhrine og það má búast við skífu frá Kontinuum í gegnum hana (vonandi) fljótlega.

En, njóttu nú lagsins sem Andfarinn frumsýnir í dag með Saint Vitus.

wildlights – part of the sea

Fólk hefur stundum komið upp að mér og spurt mig af hverju það sé ekki meira af þungu rokki í Andfara eins og Dimmu, Skálmöld, Sólstöfum og Kontinuum. Ég svara því fólki venjulega með því svari að það sé nóg af þungarokki í Andfara en oftast sé það nú í þyngri kanntinum.

En nú geta þeir sem gaman hafa af þungu rokki tekið gleði sína því nú frumsýni ég glænýtt lag með bandarísku hljómsveitinni Wildlights. Sveitin er skipuð þeim Jason Shi úr ASG og Johnny Collins úr Thunderlip! en það var sameiginlegur áhugi þeirra á því að blanda saman skraufþurru eyðimerkurrokki og níðþungu suðurríkjarokki sem leiddi þá saman og varð til þess að Wildlights varð til.

Tuttugusta og fyrsta ágúst næstkomandi kemur út samnend skífa sveitarinnar á vegum Season of Mist en það er algjör óþarfi að bíða þangað til þá til þess að kynnast sveitinni. Frekar er það fínt að nota góða veðrið sem nú liggur yfir Íslandi til þess að kynnast þungu eyðimerkurrokki kappanna.

það bætist við í flóruna á fluginu

Nú eru átján dagar í að Eistnaflug á Neskaupstað byrji og dagskráin að komast á hreint. Reyndar voru uppröðun og tímasetningar komnar upp fyrir mörgum vikum en það er að komast meiri mynd á það sem er auk þess að gerast núna. Þó ég hafi ekki séð neina dagskrá þegar að Úlfsmessunni og því sem er að gerast í Egilsbúð þá skilst mér að það sé allt að komast í samt lag, og svo er þegar komin upp dagskrá fyrir off-venue Hins myrka mans á Blúskjallaranum og er hægt að sjá hana hérna.

Ég hafði mjög gaman af pallborðsumræðunum sem voru í fyrra og því sem bransafólkið hafði að segja um það sem á og á ekki að gera þegar að kynningu á tónlist kemur. Því er ég mjög ánægður að heyra að það verður eitthvað slíkt í boði þetta árið því stjörnublaðamaðurinn þýski, Gunnar Sauermann, sem skrifar fyrir hið þýska Metal Hammer, mun ásamt Aðalbirni Tryggvasyni úr Sólstöfum, Sakis Tolis úr Rotting Christ og Ivar Björnson úr Enslaved ræða það hvernig þú ræktar hljómsveitina þína. Það verður athyglisvert að sjá þetta svo endilega mættu með mér á þetta, ég verð án efa mættur fyrir utan Hildebrand eldsnemma þann tíunda til þess að missa ekki af þessu!

hate eternal – pathogenic apathy

Eric Rutan er fyrir löngu orðinn að stofnun innan dauðarokksins. Þessi gaur, sem eitt sinn var í Ripping Corpse og Morbid Angel, er úberdauðarokkari. Án efa er hann það mikill dauðarokkari að allir krókódílarnir í Flórída eru dauðhræddir við hann.

Eftir að Rutan hætti í Morbid Angel stofnaði hann Hate Eternal og nú, átján árum síðar, kemur sjötta skífa hljómsveitarinnar út. Í þetta sinn er hljómsveitin hjá frönsku útgáfunni Season of Mist, en þó nokkrar hljómsveitir sem eiga heimili þar munu koma fram á Eistnaflugi nú í júlí.

Svo kíkið endilega á hinn ofurþunga dauða Hate Eternal og njótið vel!

hark – palendromeda (frumsýning)

Upp úr ösku velska rokkbandsins Taint reis HARK. Á sextán ára ferli sínum gaf Taint út fimm plötur, þar á meðal tvær í gegnum hina virtu Rise Above útgáfu, sem fengu mikið lof hjá aðdáendum hipparokks.

En það er því miður frekar algengt að góðir hlutir endi, stundum jafnvel of snemma. Eins og við vitum þó er oft ný byrjun á eftir endir og í þessu tilfelli er það Crystalline, fyrsta breiðskífa HARK.

Breiðskífan sú kom út fjórtánda mars síðastliðinn á vegum Season of Mist, sem er heimili strákanna okkar í Sólstöfum og jafnframt heimili Inquisition og Rotting Christ, en þær hljómsveitir munu heimsækja okkur í sumar og koma fram á Eistnaflugi.

Crystalline var hljóðblönduð af Kurt Ballou, sem margir þekkja úr harðkjarnasveitinni Converge, sem hefur án efa bætt þó nokkrum þunga við nýtískulegt hipparokk velsku rokkaranna.

Ef fólk er á leiðinni til meginlandsins á næstu dögum og hefur áhuga á að sjá smá þungt rokk þá eru HARK-liðar á leið á ferðalag með amerísku rokksveitinni Prong í næstu viku. Upplýsingar um þann túr má sjá hér fyrir neðan myndbandið.


Hark_admat_Prong_EU_2015_small

sólstafir fara vínlandsleið

Ég er farinn að hallast að því að Sólstafir sé orðin of stór fyrir Ísland, því það er ekkert nema útlönd á dagskrá hjá sveitinni þessa dagana.

Eins og alþjóð veit þá stóðu Sólstafir í ströngum landvinningum um gjörvalla Evrópu núna síðustu mánuðina og svo virðist sem að hljómsveitin stefni á frekari landvinninga í næsta mánuði en þá verður Vínland numið enn einu sinni. Ég bíð spenntur eftir Leifi Eiríkssyni framan á Sóltafa bol.

Í þetta sinn verður hljómsveitin Ancient VVisdom Sólstöfum til halds og trausts og mun ferðalagið byrja í New York 22. apríl og enda í Virginíufylki 20. maí og leiða félaga í gegnum Bandaríkin og Kanada endilöng. Nákvæmari dagskrá má sjá hér að neðan. Verður Hecla heimsótt? Vonandi? Fáum við mynd af Sólstöfum þar? Vonandi.

solstafir