rotting christ – rituals

Nú efast ég ekki um að margir kætist, því grísku djöflarokkshundarnir í Rotting Christ eiga marga vini hér á landi. Það ætti nú ekki að koma á óvart því hljómsveitin hefur nú sótt okkur Íslendinga heim oftar en einu sinni.

Í dag fáum við að njóta nýjustu skífu sveitarinnar, Rituals, í öllu sínu veldi. Að vísu kemur hún ekki út fyrr en tólfta hjá Season of Mist, þannig að það er ennþá smá tími í að þið getið getið rölt til hans Kidda í Smekkleysu eftir eintaki, en þangað til getiði notið hennar hér.

kontinuum á diskinn minn

Kyrr, önnur breiðskífa Reykvísku rokksveitarinnar Kontinuum kom út í dag. Líkt og Earth Blood Magic var platan gefin út á vegum ensku útgáfunnar Candlelight Records.

Gagnrýnendur virðast ánægðir með skífuna og fékk Kyrr meðal annars 9 af 10 á vefsíðunum Metal.de og á Avenoctum.com.

Platan er þegar komin til landsins og er hægt að nálgast hana í Smekkleysu, Lucky Records og Geisladiskabúð Valda. Einnig er hægt að panta hana beint frá hljómsveitinni.

snælduvitlausir sólstafir

mynd: guðný lára thorarensen
mynd: guðný lára thorarensen

Það styttist óðum í Óttu, fimmtu breiðskífu síðrokkaranna í Sólstöfum, en á föstudaginn, útgáfudag skífunnar, ætti fólk að geta kíkt niður í Smekkleysu og fjárfest í eintaki af gripnum á vínil eða geisladisk. Líkt og Svartir Sandar kemur Ótta út á vegum frönsku útgáfunnar Season of Mist.

Ef fólk þyrstir hins vegar í að eignast Óttu á kassettu þá gæti það þurft að fara aðeins lengra. Litháenska útgáfan Inferna Profundus hefur útbúið 200 skjannahvít eintök og þarf fólk að bregðast við fljótt vilji það ná sér í eintak því óvíst er hvort einhver rati í almenna sölu hér á landi.

Enn er hægt að hlusta á plötuna í heild sinni á heimasíðu RÚV svo það er um að gera að nýta sér það á meðan talið er niður í opnun á föstudaginn. Stóra spurningin hlýtur þó að vera hvort Sólstafirnir verði þar á svæðinu og áriti plötuna.