það er nóg að gerast, það er bara lítil hvíld

 

Kommentakerfin eru full af fólki sem virðist vita af hverju hlutirnir ganga svona illa. Það er út af því að unga fólkið er svo latt. En, miðað við hvað það er mikið af tónleikum þessa helgi þá virðist nú vera eitthvað af fólki sem nennir að gera hluti.

Á fimmtudaginn verða Auðn og Zhrine á Hard Rock. Báðar hljómsveitir munu spila blöndu af útgefnu og óútgefnu efni. Frekari upplýsingar um tónleikana má finna hér.

Á föstudaginn er Krossfesting III, þriðja upphitunarkvöldið fyrir Norðanpaunk. Þar koma fram Kuldaboli, World Narcosis, Andavald og Vofa. Frekari upplýsingar um tónleikana má finna hér.

Laugardagurinn þungi verður svo haldinn hátíðlegur á Gauknum en þar munu Qualia, Morpholith, Slor og CXVIII koma fram, en þess má til gamans geta að þetta eru fyrstu tónleikar draugabandsins CXVIII. Frekari upplýsingar um tónleikana má finna hér.

viðtal við bjarna úr churchhouse creepers varðandi spacefest

Næsta laugardag verður haldin tónlistarhátíð á Akureyri. Þar munu margar sveitir stíga á stokk og leika fjöruga, og dansvæna, tónlist fyrir áhugasama. Hvaða sveitir? Black Desert Sun. Churchhouse Creepers. KÁ-AKÁ. O’Bannion. Oni. Slor.

Mun ég mæta? Munt þú mæta? Þetta eru tvær mjög mikilvægar spurningar sem þarf að svara sem fyrst. Akureyri er bara bílferð í burtu fyrir okkur sem búum í Reykjavík og það er helvíti gott tjaldstæði rétt hjá tónleikastaðnum. En, áður en við pælum í slíku þá þurfum við að komast að því hvað Spacefest er, og því bið ég Bjarna nú um að tjá okkur allt um það.

Spacefest er tónlistarhátíð, sem haldin er í samstarfi við Akureyrastofu, með engin sérstök takmörk ætlað að færa færa smá líf í tónlistina hér á Akureyri. Þetta eru bara skemmtilegheit og fjör!

En af hverju Akureyri og hvað er annars að gerast á Akureyri í rokkinu?

Akkúrat af því að það er nákvæmlega ekkert að gerast í rokkinu á Akureyri. Það er alvarlegur skortur á rokkhátíðum hérna. Akureyri Rokkar var hérna í nokkur ár en komst aldrei á almennilegt skrið, aðallega vegna þess að þeir voru að skjóta of hátt og skakkt.

Ég fékk smá styrk frá Akureyrarstofu til þess að splæsa í bensín á böndin sem koma að sunnan og austan og við eru líka búnir að ráða myndavélamann og tökum bæði hljóð og mynd upp. Með Spacefest ætla ég að reyna að gera þetta að árlegum viðburði með því að vera með raunhæf markmið.

Verða þá engar erlendar hljómsveitir eða stór nöfn í framtíðinni? Verður eingöngu einblínt á grasrótina?

Grasrótin er í fyrirrúmi en það eru engin takmörk, hvorki með stærðir eða stefnur. Ég fékk til dæmis félaga minn KÁ AKÁ til þess að slútta kvöldinu en hann spilar swagy hip hop. Ef það er hægt að dansa við það þá á það erindi á Spacefest.

Þar sem Bjarni spilar í stónerrokksveitinni Churchhouse Creepers liggur þá bein við að spyrja hvort þetta verði nokkuð Fuzz Fest 2? Það verður ekki bara einblínt á stónerrokkið er það?

Þetta er engin glimmerhátíð, rokkið verður auðvitað í aðalhlutverki. En, að vill bara svo skemmtilega til að ég er auðvitað í langmestu sambandi við hin stónerböndin.

Ég hafði samband við hljómsveitir sem tilheyra ekki þessari stefnu en því miður komust þær ekki. Á næsta ári verður hátíðin bæði stærri og fjölbreyttari. Í ár verður hátíðin nefnilega haldin í nettasta venúi landsins, Kaktus, sem er listagallerý sem er rekið af ungu fólki og alltaf eitthvað ógeðslega nett í gangi þar. Sem tónleikastaður er þetta sveittur kjallari þar sem það þarf ekkert rosalega marga til þess að mynda góðan stemmara og ekki skemmir fyrir að þar er alltaf frítt inn og það má koma með sitt eigið áfengi.