af ævintýrum max og iggors í ameríku…

Eins og alþjóð veit munu bræðurnir Max og Iggor Cavalera koma fram á Eistnaflugi og flytja þar lög af frægustu skífu Sepultura, sem bræðurnir stofnuðu fyrir þrjátíu og þrem árum, þá rétt skriðnir yfir fermingaraldurinn.

YouTube rásin Digital Tour Bus stundar það grimmt að heimsækja tónlistarmenn á ferðalögum um Bandaríkin og um daginn var kíkt í heimsókn til bræðranna þar sem þeir voru á túr með Íslandsvinunum í Immolation og Full of Hell.

Myndbandið hér fyrir neðan er frá því innliti. Það hefur kannski ekkert í glamúrinn sem einkennir Falleg heimili en hefur þó eitt umfram, Gatecreeper peysuna sem Max er í. Það er enginn minibíósalur í Njarðvík að fara að keppa við slíkt!

katharsis – vvorldvvithoutend, tíu ár af algjöru helvíti

katharsiis

Þegar ég fletti í gegnum Facebook fídið mitt sé ég oftar en ekki einhvern minnast á aldur ýmissa platna. Mér finnst, til dæmis, ótrúlegt að það séu tuttugu og fimm ár síðan Arise með Sepultura kom út, þó ég viti ósköp vel að hún kom út nítjánhundruðnítíuogeitt. Ég veit að það er heillangt síðan en mér finnst það vera svo stutt síðan ég rölti niðrí Skífu (minnir mig) og keypti plötuna.

Eftir Arise hafa ófár eðalskífur komið inná mitt heimili og þar á meðal skífan sem ég ætla að minnast smá á núna. Það eru ekki alveg komin tíu ár síðan hún kom út, því hún á nú ekki afmæli fyrr en í enda mánaðarins, en við skulum láta það liggja milli hluta.

Þegar þessi þriðja breiðskífa þýsku djöflarokkssveitarinnar Katharsis kom út var ég ekkert afskaplega hrifinn af henni. Ætli það megi ekki frekar segja að ég hafi ekki haft tíma fyrir hana þá og því látið það liggja milli hluta að kynna mér hana almennilega. Því hvernig gæti ég hafa misst af “Ascent from Ghoulgotha” ef ég hefði bara gefið þessu smá tíma? Aðeins meiri tíma. Ef ég hefði ekki verið pikkfastur í “The Last Wound” og ekki komist lengra. Tja, eða í hversdagslegri hlutum…

PS. The Adversary með Ihsahn, Christ Illusion með Slayer og The Stench of Redemption með Deicide eiga einnig bara nokkra daga í tíu ára afmælisdaginn.

arise og gothic tuttugofemm ára

Núna um helgina áttu tvær merkar hljómplötur aldarfjórðungsafmæli, Arise Sepultura og Gothic Paradise Lost. Þegar maður var fjórtán ára á fjallahjólinu að hjóla niðrí Mjódd til þess að kaupa sér nýjasta dauðarokkið, efast ég um að það hafi flogið í gegnum hausinn að tuttugu og fimm árum seinna ætti maður ennþá eftir að vera að hlusta á þetta. Átti maður ekki að vera kominn í eitthvað “þroskað” þá eins og Primus, Vangelis og Blur?

Hvað um það, til hammó með ammó báðar tvær!

considered dead á samning hjá fda rekotz

considered dead - mynd: jéssica domingos, tekin af fésbókarsíðu sveitarinnar.
considered dead – mynd: jéssica domingos, tekin af fésbókarsíðu sveitarinnar.

Þessa dagana hafa ófáar hljómsveitir leitað í brunna gömlu dauðarokksrisana. Mikið hefur verið um að hljómsveitir hafi litið til Svíþjóðar og Brasilíu þegar að “alvöru gömlu dauðarokki” kemur. Minna hefur verið um að fólk hafi litið til Morrisound og senunar í kringum það stúdíó þó slíkt hafi auðvitað verið í gangi. Annað væri óeðlilegt miðað við hversu margar áhrifamiklar hljómsveitir tóku upp þar á gullaldarárum dauðarokksins.

Brasilíumennirnir í Considered Dead sækja mjög í brunn Morrisound hljóðsins. Nafn hljómsveitarinnar er jafnframt nafn frumburðar hinnar goðsagnakenndu kanadísku sveitar Gorguts, sem mun sækja okkur heim í næsta mánuði. Sú skífa var einmitt tekin upp í Morrisound og hefur átt ágætis vinsældum að fagna á seinni árum þó svo að hún hafi ekki fengið þá athygli sem hún átti skilið þegar hún kom út. Allavega ekki nægilega mikla til þess að Gorguts héldi samningnum við Roadrunner Records eftir að dauðarokksbólan sprakk.

Gorguts eru á blússandi flugi núna og það sama má segja um Considered Dead sem voru rétt í þessu að skrifa undir samning hjá FDA Rekotz en sú plötuútgáfa hefur verið mjög dugleg við að gefa út dauðarokk af gamla skólanum núna síðustu misserin. FDA mun sjá um fyrstu útgáfu Considered Dead en smáskífan sú ber heitið Mentally Tortured og kemur út á geisladisk og kassettu fljótlega.