viðtal: katla

Nýverið tilkynnti hljómsveitin Katla það að hún væri nú komin á mála hjá plötufyrirtæki. Það hefur ekkert verið gefið upp um hvaða plötufyrirtæki sveitin er komin hjá en þó sagði Guðmundur Óli Pálmason það, þegar ég spurði hann að því, að það væri ekkert svo langt í að það yrði gert opinbert. En hvernig kom það til að hljómsveitin ákvað að stíga stóra skrefið og skella sér á samning og hvers vegna?

Við áttum í samræðum við þrjú fyrirtæki og þetta bauð besta dílinn, ásamt því að vera fyrirtækið sem við höfðum hvað mest á ratarnum og og þekkjum vel í gegnum vinahljómsveitir. Það ásamt því að báðir aðilar eru á sömu blaðsíðu hvað varðar hugmyndafræði, konsept og texta er ekki síður mikilvægt en tónlistin sjálf. Hvers vegna? Vegna þess að það kostar ýkt mega mikinn pening að taka upp plötu ef vel á að vera og við eigum ekki þann pening í rassvasanum.

bætist í hópinn á reykjavík deathfest

Reykjavík Deathfest verður haldinn á Gauknum í maí á næsta ári og hópurinn sem kemur þar fram stækkar ört þessa dagana. Fyrir var búið að tilkynna Cryptopsy, Hubris, Ophidian I og Syndemic, og í dag bættust tvær hljómsveitir við, Nexion og Virvum.

Nexion er íslensk dauðarokkssveit sem var stofnuð í byrjun ársins, en hefur komið sterk inn. Það kemur kannski ekki á óvart þar sem hljómsveitin er skipuð reynsluboltum úr böndum á borð við Diabolus og Blood Feud.

Virvum er svissnesk dauðarokkshljómsveit sem spilar progresíft dauðarokk. Hún ætti því að passa vel í þá veislu tæknidauða sem hátíðin stefnir í að verða. Sveitin hefur starfað síðan 2007 en gaf sjálf út sína fyrstu skífu, Illuminance, fyrr í þessum mánuði.

narthraal – chainsaw killing spree (dómur)

Narthraal elskar hið klassíska sænska dauðarokkssánd, það er eitt sem víst er.

Hið guðdómalega hljóð sem hljómsveitir eins og Entombed og Dismember gerðu frægt eru gerð góð skil hér, enda stærir hin íslenska dauðarokksmaskína sig af því að vera eina hljómsveitin hér á landi sem notar alveg eins distorjon petala og gömlu meistararnir.

Chainsaw Killing Spree er óður til gullára sænsks dauðarokks og sem slík fínn gripur. En, það sem Narthraal vantar, sem margar þeirra fjölmörgu hljómsveita sem sækja í þennan brunn hafa, er eitthvað sem grípur.

Þessi smáskífa er varla tíu mínútur, en þegar ég hlusta á hana finnst mér hún of löng. Hvernig er það hægt? Kannski vegna þess að ég skil ekki síðustu nítíu sekúndurnar eða svo í “Million Graves to Fill”. Hvert er allt þetta sóló að fara?

Þessi stafræna útgáfa á vegum finnsku útgáfunnar Inverse Records er undanfari breiðskífu sveitarinnar sem mun koma út á næsta ári. Áður en það gerist, strákar mínir, er komið að smá naflaskoðun. Þið eruð á réttri leið, en það þarf að skera smá fitu af spikinu.

Narthraal
Inverse Records
7 október 2016

shrine æla drunga í nýju myndbandi

Það hefur færst í aukana að hljómsveitir sendi frá sér myndbönd sem tekin eru upp í hljóðverum til þess að láta áhugasama vita hvernig upptökurnar ganga. Hljómsveitin Shrine, sem hét eitt sinn Gone Postal og í afskaplega stuttan tíma Unortheta, tók þetta skrefinu lengra og birti fyrir helgina myndband við lagið “Spewing Gloom” sem er eingöngu sett saman úr klippum sem teknar voru upp á meðan sveitin tók upp skífuna Unortheta.

Eftir því sem ég best veit er hljómsveitin ekki komin með samning um útgáfu á plötunni en miðað við þetta lag ætti það ekki að vera mikið mál fyrir Shrine að finna áhugasama aðila.