ný tónlist: nexion – nexion

Það er nóg að gera í dag, Dynfari og Nexion með nýjar útgáfur og svo verður Krossfest útá Granda í kvöld.

Ég missti af Nexion á Oration í febrúar en næ þeim eflaust á Reykjavík Deathfest í næsta mánuði. Þangað til verður þetta í gangi.

viðtal: katla

Nýverið tilkynnti hljómsveitin Katla það að hún væri nú komin á mála hjá plötufyrirtæki. Það hefur ekkert verið gefið upp um hvaða plötufyrirtæki sveitin er komin hjá en þó sagði Guðmundur Óli Pálmason það, þegar ég spurði hann að því, að það væri ekkert svo langt í að það yrði gert opinbert. En hvernig kom það til að hljómsveitin ákvað að stíga stóra skrefið og skella sér á samning og hvers vegna?

Við áttum í samræðum við þrjú fyrirtæki og þetta bauð besta dílinn, ásamt því að vera fyrirtækið sem við höfðum hvað mest á ratarnum og og þekkjum vel í gegnum vinahljómsveitir. Það ásamt því að báðir aðilar eru á sömu blaðsíðu hvað varðar hugmyndafræði, konsept og texta er ekki síður mikilvægt en tónlistin sjálf. Hvers vegna? Vegna þess að það kostar ýkt mega mikinn pening að taka upp plötu ef vel á að vera og við eigum ekki þann pening í rassvasanum.

bætist í hópinn á reykjavík deathfest

Reykjavík Deathfest verður haldinn á Gauknum í maí á næsta ári og hópurinn sem kemur þar fram stækkar ört þessa dagana. Fyrir var búið að tilkynna Cryptopsy, Hubris, Ophidian I og Syndemic, og í dag bættust tvær hljómsveitir við, Nexion og Virvum.

Nexion er íslensk dauðarokkssveit sem var stofnuð í byrjun ársins, en hefur komið sterk inn. Það kemur kannski ekki á óvart þar sem hljómsveitin er skipuð reynsluboltum úr böndum á borð við Diabolus og Blood Feud.

Virvum er svissnesk dauðarokkshljómsveit sem spilar progresíft dauðarokk. Hún ætti því að passa vel í þá veislu tæknidauða sem hátíðin stefnir í að verða. Sveitin hefur starfað síðan 2007 en gaf sjálf út sína fyrstu skífu, Illuminance, fyrr í þessum mánuði.

narthraal – chainsaw killing spree (dómur)

Narthraal elskar hið klassíska sænska dauðarokkssánd, það er eitt sem víst er.

Hið guðdómalega hljóð sem hljómsveitir eins og Entombed og Dismember gerðu frægt eru gerð góð skil hér, enda stærir hin íslenska dauðarokksmaskína sig af því að vera eina hljómsveitin hér á landi sem notar alveg eins distorjon petala og gömlu meistararnir.

Chainsaw Killing Spree er óður til gullára sænsks dauðarokks og sem slík fínn gripur. En, það sem Narthraal vantar, sem margar þeirra fjölmörgu hljómsveita sem sækja í þennan brunn hafa, er eitthvað sem grípur.

Þessi smáskífa er varla tíu mínútur, en þegar ég hlusta á hana finnst mér hún of löng. Hvernig er það hægt? Kannski vegna þess að ég skil ekki síðustu nítíu sekúndurnar eða svo í „Million Graves to Fill“. Hvert er allt þetta sóló að fara?

Þessi stafræna útgáfa á vegum finnsku útgáfunnar Inverse Records er undanfari breiðskífu sveitarinnar sem mun koma út á næsta ári. Áður en það gerist, strákar mínir, er komið að smá naflaskoðun. Þið eruð á réttri leið, en það þarf að skera smá fitu af spikinu.

Narthraal
Inverse Records
7 október 2016

óreiða, nýtt íslenskt djöflarokk

Ég veit ekkert um þessa hljómsveit. Ég sá póst um hana í dag á spjallborði sem ég fer frekar sjaldan inná þessa dagana. Hljómar nokkuð vel. Minnir mig á hráa ameríska djöflarokkið sem var í gangi rétt eftir aldamótin; Bone Awl, Xasthur og það sem var því tengt.

shrine æla drunga í nýju myndbandi

Það hefur færst í aukana að hljómsveitir sendi frá sér myndbönd sem tekin eru upp í hljóðverum til þess að láta áhugasama vita hvernig upptökurnar ganga. Hljómsveitin Shrine, sem hét eitt sinn Gone Postal og í afskaplega stuttan tíma Unortheta, tók þetta skrefinu lengra og birti fyrir helgina myndband við lagið „Spewing Gloom“ sem er eingöngu sett saman úr klippum sem teknar voru upp á meðan sveitin tók upp skífuna Unortheta.

Eftir því sem ég best veit er hljómsveitin ekki komin með samning um útgáfu á plötunni en miðað við þetta lag ætti það ekki að vera mikið mál fyrir Shrine að finna áhugasama aðila.

svartidauði

Á morgun hefst ferðalag íslensku djöflarokkssveitarinnar Svartadauða um meginland Evrópu. Hljómsveitin er þó ekki ein á ferð því kanadíska hljómsveitin Antediluvian og hin belgíska Emptiness verður með henni á ferð. Andfarinn hafði samband við Sturlu Viðar, söngvara Svartadauða og spurði hann smá út í ferðalagið. Myndirnar sem fylgja þessu viðtali tók Henrik Hulander og er hægt að sjá fleiri myndir hans hérna.

Hvernig gengur undirbúningurinn fyrir ferðalagið með Antediluvian og Emptiness?

Eins og í sögu. Við vorum nú þegar í góðu formi eftir hafa spilað á Inferno og Roadburn í Apríl og við notuðum þessar þrjár vikur sem við áttum á milli túra í að kýla í gegn nýtt efni sem við höfum hug á að prufukeyra á vegum úti.

svartidaudihenrikhulander

Hvernig kom þetta til? Þekkið þið meðlimi hinna hljómsveitanna?

A Thousand Lost Civilizations, sem sér um Nidrosian Black Mass og hélt utan um túrinn okkar í fyrra með Mgla og One Tail, One Head, gerði okkur tilboð sem við gátum ekki hafnað.
Phorgath, meðlimur Emptiness og Enthroned, var hljóðmaður á túrnum okkar í fyrra, sömuleiðis hefur Mars Sekhmet, trommari Antediluvian, eflaust mætt á fleiri tónleika hjá okkur en flestir. En fyrst og fremst eru bæði böndin bara ógeðslega góð og það er það sem skiptir okkur mestu máli.

Eru frekari landvinningar planaðir?

Eftir þennan túr ætlum við mest megnis að vera heima hjá okkur og klára nýja plötu sem við vonum að komi út snemma á næsta ári. Við munum þó spila á allavegana tvennum tónleikum áður en árið er liðið, annars vegar Brutal Assault sem fer fram í 200 ára gömlu fallbyssuvirki í Tékklandi og hinsvegar Nidrosian Black Mass í Brussels.

kontinuum – kyrr

Kontinuum. Fimm ára gömul hljómsveit skipuð reynsluboltum úr Potentiam, Momentum, I Adapt, Thule og svo framvegis. Þessir menn hafa komið víða við, svo vægt sé til orða tekið.

Fyrir þremur árum gaf hljómsveitin út sína fyrstu skífu, Earth Blood Magic, sem var jafn góð og hún var sundurleit. Í stað þess að vera byrjun á nýju ferli var frekar sem verið væri verið að loka á eldra og þar var að finna lög sem hefði mátt búast við á útgáfu frá Potentiam.

Á Kyrr er nýtt ferli í gangi og í raun ný hljómsveit, einungis Birgir er eftir af þeim sem komu nálægt fyrstu plötunni og við hafa bæst fjórir meðlimir, þar af tveir úr Potentiam. Útkoman er heildsteypt skífa full af gotaskotnu rokki.

Rokk, ekki þungarokk. Það þarf að taka það fram. Af hverju? Vegna þess að fólk virðist vera afskaplega duglegt við að skella hljómsveitinni í þann flokk og gleyma henni svo. Kontinuum á ef til vill sínar rætur í þungarokkinu en hefur fjarlægst þær mjög svo á Kyrr.

Til dæmis er „Í Huldusal“ ekki útvarpsvænasta lagið á skífunni, ef sú hugsun skaut upp kollinum hjá þér, það er ekki „Fjara“ þeirra Kontinuum liða. Öll platan er mun léttari en sú fyrri en að sama skapi er hún heilsteyptari og þar af leiðandi betri. Allavega að mínu mati.

En lögin, eru þau öll jafn góð? Titillagið er í sérstöku uppáhaldi hjá undirrituðum sem og Rauði straumurinn en ég átti erfitt með að velja úr. Platan fengi eflaust fullt hús stiga hjá mér ef ekki væri fyrir klisjukennt opnunarlagið. Það hefði alveg mátt missa sín.

Kontinuum • Candlelight • 20. apríl 2015