enn bætist við flugið

Það styttist óðum í Eistnaflug! Reyndar er alveg fokklangt í það en samt sem áður getur maður nú alveg látið sér hlakka ágætlega til þegar íslenskir þungarokkarar fá jafnstórann pakka frá þeim og þessi jól. Og jólin eru ekki einu sinni komin!

Listi hinna staðfestu banda stækkar óðum og þótt maður vilji meina að Flugið hafi toppað sig í ár þá tel ég næsta ár eiga möguleika í að verða stærra, miðað við hvaða hljómsveitir eru þegar komnar.

Agent Fresco [ICE] | Belphegor [AUT] | Beneath [ICE] | Celestine [ICE] | Defeated Sanity [GER] | Dimma [ICE] | Dr. Spock [ICE] | Dulvitund [ICE] | Endless Dark [ICE] | Ensími [ICE] | Grafir [ICE] | HAM [ICE] | In The Company Of Men [ICE] | Kolrassa Krókríðandi [ICE] | Kælan Mikla [ICE] | Mannveira [ICE] | Melechesh [ISR] | Meshuggah [SWE] | Misþyrming [ICE] | Ophidian I [ICE] | Páll Óskar & DJ. Töfri [ICE] | Pink Street Boys [ICE] | Severed [ICE] | Sólstafir [ICE] | Úlfur Úlfur [ICE] | World Narcosis [ICE] | Zhrine [ICE]

Ham verður á svæðinu. Dr. Spock verður á svæðinu. Verður Rass þá líka á svæðinu?

það styttist í breiðskífu nöðru

Þetta ár hefur verið gott fyrir íslenskt djöflarokk og það stefnir í að það næsta verði ekki síðra. Þó nokkrar íslenskar hljómsveitir munu koma fram á hollensku tónlistarhátíðinni Roadburn og án efa eigum við eftir að sjá einhverjar útgáfur í tengslum við það.

Tuttugasta og annan janúar kemur fyrsta breiðskífa Nöðru út í gegnum Signal Rex. Platan mun heita Allir vegir til glötunar og innihalda fimm lög af hráum og viðbjóðslegum svartmálmi. Andfaranum hlakkar mikið til.

grga – overblown

Sumir segja að maðurinn sem heldur fyrir andlit sitt hér fyrir ofan sé einn af stofnmeðlimum Ghost. Aðrir segja að hann hafi spilað á bassa í Repugnant og kallað sig Carlos Sathanas. Það eins sem ég veit er að hann kallast Grga og að þessi tvö myndbönd hér fyrir neðan eru andskoti fín.

elskaðu metalnördismann

Ef þú ert Metalnörd er það ekkert sem þú þarft að skammast þín fyrir. Það er ekkert óeðlilegt við það að vilja hólfa hluti niður, jafnvel þó einhver mannvitsbrekkan haldu því fram. Að taka mark á slíku kjaftæði er óþarfi.

Sem áhugamaður um Metalnördisma hefur undirritaður mjög gaman að því þegar fólk ræðir um ýmsar tónlistarstefnur, uppruna þeirra og hvaða hljómsveitir passa þar inn í.
Síðustu tvo föstudaga hef ég rifist við tölvuna í góðan hálftíma eða svo á meðan ég hef horft á Lock Horns, en þar tekur Sam Dunn, maðurinn sem færði okkur meðal annars Global Metal og Metal: A Headbanger’s Journey, fyrir ýmsar tónlistarstefnur og reynir að njörva þær niður.

Er það gott eða slæmt? Ætti slíkt að vera látið vera? Auðvitað ekki! Að rífast um slíkt er, oftast nær, góð skemmtun. Á meðan allir eru sammála um að Scream Bloody Gore hafi verið fyrsta alvöru dauðarokksplatan þá er ekkert vandamál.

Núna eru þrír þættir af Lock Horns komnir á netið og þar taka Sam og vinafólk hans fyrir Metalcore, Doom Metal og Industrial Metal. Hefur þetta fólk rétt fyrir sér? Er það alveg úti að aka? Kíktu á þættina hér fyrir neðan og búðu svo til þinn eigin lista ef þú ert ósammála!

the casualties – running through the night

Síðan 1990 hafa Jorge Herrera og félagar í The Casualties haft það meginmarkmið að halda anda pönksins lifandi, hvað sem tautar og raular. Tuttugu og fimm árum síðar, og níu breiðskífum ríkari, er hljómsveitin ekkert á því að slaka á og í janúar á næsta ári kemur tíunda platan út. Platan sú ber titilinn Chaos Sounds og mun Season of Mist sjá um útgáfu hennar.

Það er um að gera að undirbúa sig og til þess frumsýnir Andfarinn nú fyrsta singúlinn af skífunni.

severed, ibex angel order, grafvitnir, father murphy

Íslenskt dauðarokk virðist vera í smá uppsveiflu núna, Urðun gaf út kassettu fyrir stuttu hjá Signal Rex, Zhrine komst á samning hjá Season of Mist og Severed virðast vera nokkuð aktívir núna eftir langt hlé. Nýtt lag með hljómsveitinni var frumsýnt fyrr í dag á vefsíðu hins þýska Metal Hammer. Hægt er að hlusta á lagið með því að smella á þennan hlekk. Hljómar ágætlega við fyrstu hlustun svo ég á eflaust eftir að kíkja á væntanlega smáskífu sveitarinnar.

Ef þú þekkir til Svartadauða og Wormlust er möguleiki að þekkir til Daemon Worship Productions, en það fyrirtæki hefur gefið út plötur með hljómsveitunum. Næst á dagskrá eru útgáfur með djöflarokkssveitunum Ibex Angel Order og Grafvitnir og áhugasamir geta kíkt á lögin hér og hér. Ibex Angel Order hljómar ágætlega en enn sem komið er hefur Grafvitnir ekki unnið mig á sitt band.

Guð, sársauki, dauðinn og það að fyrirgefa eru umfjöllunarefni sem eru Father Murphy mjög svo hugleikin og það má greina í angistinni sem þetta hérna lag fyrir neðan hefur að geyma. Jafnvel að þú upplifir sársauka við hlustunina. Lagið sem um ræðir er tekið af smáskífunni Lamentations sem kemur út næsta föstudag á Backwards.