ný tónlist: dynfari – sorgarefni segi ég þér

Það er góður dagur í dag, allavega útgáfulega séð. Slatti af fínum plötum að koma út í dag. Þar á meðal fjórða breiðskífa Dynfara sem kom út á vegum Aural Music.

Dynfari er, enn sem komið er, eina almennilega eftirsvertusveitin í þorpinu hér á Íslandi, og hún bætir sig með hverri útgáfu, en þannig á það einmitt að vera.

af mercy buckets, icarus, skuggsjá, auðn og dynfara

Það var mikið að gerast á laugardaginn, tónleikar út um allt, en ég nennti þó ekki út úr húsi fyrr en klukkan skreið skuggalega nálægt kvöldmatarleytinu.

Ég byrjaði á því að kíkja á Mercy Buckets og Icarus en síðarnefnda sveitin var að gefa út plötu og því var haldið upp á það. Það er ekki oft sem ég lendi næstum því í moshpitti þegar ég kíki í plötubúð og hljómsveitirnar voru helvíti góðar svo maður fór nokkuð sáttur út þegar hasarinn var á enda. Á mjög erfitt með að gera upp á milli hljómsveitanna, hvor hafi verið betri, því báðar skiluðu sínu virkilega vel af sér. Ingvar í Lucky Records fær svo plús í kladdann fyrir Insol úrvalið.

Einni mjög langri heimildamynd um sögu þungarokks síðar var förinni heitið út í Hafnafjörð til þess að kíkja á Skuggsjá, Auðn og Dynfara spila á Íslenska Rokkbarnum. Ég var mættur á staðinn rétt upp úr ellefu og Death og Nocturnus tóku á móti mér í græjunum og þetta leit ágætlega út.

Um miðnæturbil steig Skuggsjá á svið og djöflarokkið reið yfir allt og alla. Því miður var hljómsveitin einhverra hluta vegna afskaplega stíf og hljóðið ekkert til þess að hrópa húrra fyrir. Það var því ekki mikið hægt að greina á milli laganna og var ég orðinn frekar leiður á því þegar aðeins var liðið á tímann hjá sveitinni. Nenniði svo, kæru Skuggar, að leggja smá metnað í líkmálninguna hjá ykkur. Þetta leit vel út hjá söngvaranum en hinir meðlimirnir, og þá sérstaklega gítarleikarinn með handarfarið framan í sér, þurfa aðeins að pæla í sínu. Kveðja, tískulöggan.

Ég ákvað að beila á Dynfara svo Auðn var síðasta hljómsveitin sem ég sá þetta kvöldið. Ég hlakka þó til að sjá útgáfutónleika hljómsveitarinnar seinna í mánuðinum þar sem Vegferð tímans verður spiluð í heild sinni.

Auðn byrjuðu mjög vel og voru mun sterkari en þegar ég sá þá síðast, á Wacken Metal Battle í Hörpunni. Hljómsveitin var jafn afslöppuð og sjálfsörugg og Skuggsjá var stíf. Hljóðið var mun betra þarna en fyrr um kvöldið og lögin runnu því ekki saman í eitt. Stund Skuggsjár mun án efa koma en held ég þó að það sé nokkuð í það.

Magný Rós Sigurðardóttir á miklar þakkir skilið fyrir að leyfa mér að nota myndina sem hún tók af Skuggsjá með þessari umfjöllun.

dynfari – vegferð tímans

Dynfari er eftirsvertusveit héðan af höfuðborgarsvæðinu sem var stofnuð af Jóhanni og Jóni Emil, en áður spiluðu þeir saman í hljómsveitinni Sacrilege.

Ég man ekki til þess að hafa heyrt eitthvað efni með þeirri hljómsveit en ég man eftir þeim sáru vonbrigðum sem ég varð fyrir þegar ég hlustaði á fyrstu breiðskífu Dynfara, sem var samnefnd hljómsveitinni og kom út árið 2011. Góðar hugmyndir í gangi en dæmið gekk því miður ekki upp.

Á Sem skugginn, sem kom út ári seinna höfðu nokkrar framfarir átt sér stað og hljómsveitin var næstum komin þangað sem hún virtist leita, en herslumuninn vantaði.

Vegferð tímans er þar sem Dynfari hefðu átt að byrja, tel ég. Loksins er hljómsveitin að verða samkeppnishæf við sveitir eins og Alcest og Agalloch sem hún sækir án efa mikinn innblástur til. Hún er nú kannski ekki alveg komin á þeirra stig þó, en það er ekkert svo langt í það.

Dynfari · Code666 · 16. mars 2015

dynfari túra með negura bunget, tónleikar hérlendis fyrirhugaðir

Andfaranum barst það til eyrna að eftirsverturokkararnir í Dynfara stefndu á ferð um Bandaríkin seinna á árinu með Negura Bunget, en sú sveit hefur skapað sér gott orð síðan Zîrnindu-să kom út 1996. Hvernig kom þessi túr til?

Negura Bunget er eitt af böndunum sem var “uppgötvað” af Code666, labelinu sem við erum hjá. Þeir voru á mála hjá þeim fyrir tvær breiðskífur og EP fyrir nokkrum árum síðan. Þeir voru að leitast eftir að fá band af því kalíberi sem þetta label stendur fyrir og var okkur því boðið að kanna möguleikann ef áhugi væri fyrir hendi, líkt og öðrum hljómsveitum hjá Code. Við stukkum á þetta og munum því spila um 40 tónleika í Bandaríkjunum og Kanada næsta haust með þeim og rúmenska bandinu Grimegod.

Samkvæmt Jóhanni Erni, söngvara og gítarleikara Dynfara, eru tónleikar með Negura Bunget fyrirhugaðir hér á landi öðru hvoru megin við túrinn. Sveitin rúmenska, gaf nýlega út sýna sjöundu breiðskífu. Ber sú titilinn Tău og kom hún út á vegum Lupus Lounge. Myndbandið hér fyrir neðan er við síðasta lagið á plötunni.

dynfari safnar fyrir vínil


Það styttist óðum í þriðju breiðskífu Dynfara, en síðustu fjögur árin eða svo hefur hljómsveitin breitt boðskap eftirsvertunnar til landans. Platan ber heitir Vegferð tímans og mun koma út í gegnum code666 rétt eins og Sem skugginn, sem kom út 2012.

Fyrstu tvær skífurnar komu eingöngu út á geisladisk en nú virðist breyting vera á hlutum og það gæti farið svo að Vegferð tímans komi bæði út á geisladisk og a vínil. Útgáfa á vínilnum er þó háð því að söfnun, sem útgáfufyrirtækið hefur hrundið af stað, gangi sem skyldi og inn komi nógu mikill peningur til þess að senda gripinn í pressun.

Þetta fyrirkomulag er sífellt að verða algengara og er það frekar skiljanlegt að fyrirtæki vilji lágmarka fjárhagslega áhættu sína. Undirrituðum langaði þó að forvitnast um það af hverju þessi leið hefði verið farin. Hefði ekki verið auðveldara að finna bara aðra útgáfu til þess að sjá um vínilinn? Ég sendi línu á Jóhann Örn, annan meðlim Dynfara, og spurði hann af hverju þessi leið hefði verið farin.

Við skrifuðum undir samning árið 2014 sem nær yfir allar upptökur til ársins 2016.

Aural Music á sem sagt réttinn á tónlistinni þangað til. Við íhuguðum mikið að leita okkur að stærra labeli en ákváðum á endanum frekar að reyna að ná betri samning við Code666, sem okkur tókst. Því miður var vínylútgáfa ekki hluti af samningnum. Svo Emiliano, eigandi labelsins, ákvað að fara þessa leið til þess að sjá hvort það sé eftirspurn eftir 300 vínyleintökum, því annars væri öll fjárhagsáhættan á honum. Okkur finnst þetta sanngjörn leið, og í raun sú eina í stöðunni fyrir okkur akkurat núna til að vínylútgáfa geti orðið að veruleika.

Athyglisvert, vistarböndin virðast því hafa gert út um þann möguleika. Engu að síður kemur geisladiskurinn út í næsta mánuði og hér beint fyrir ofan er einmitt hægt að hlusta á lag af honum! Ef fólk hefur áhuga á vínilnum er um að gera að smella hér á og fjárfesta í eintaki!

dautt andrúmsloft þrjú auðn morð norn dynfari

audn

Það var kyrrlátt kvöld við fjörðinn en afskaplega kalt úti þegar ég rambaði inn á Amsterdam í miðju setti Auðnar. Líkmálning. Öfugur kross á míkrófónstatífinu. Norskíslenskur svartmálmur. Strigaskór. Sitthvað hefur breyst frá ungdómi mínum. Engir hermannaklossar. Engar hermannabuxur. Engin gaddakylfa. Ekkert blóð. Bara Converse Pentagrammið. Ekki ætla ég að gera lítið úr því og ef til vill er maður bara fallinn á tíma en þrátt fyrir smá af aukahlutum þá var sett Auðnar afskaplega litlaust. Norskíslenskur svartmálmur þeirra, sem virðist rækilega fastur í miðjum tíunda áratug síðustu aldar, hljómaði ekki illa en það vantaði alla orku hjá þeim.

mord

Á eftir Auðn stigu Morð á svið með einhverslags blöndu af djöflarokki og harðkjarna. Líkmálning. Gaddar. Gervileður. Ágætis skemmtun sem Morð skilaði af sér og mikil reiði í gangi. Söngvarinn arkandi um á meðal áhorfenda öskrandi á þá og áhorfendurnir öskrandi á hann til baka. Það vantaði samt allt bit í þetta og mér leið á stundum eins og ég væri staddur á harðkjarna-tónleikum í TÞM og beið eiginlega eftir því að söngvarinn myndi láta vita af síma sem hefði fundist á gólfinu á milli einhverra laganna.

norn

Þriðja sveit á svið var svo svartpönksveitin Norn. Maður býst einhvern veginn við einhverju afskaplega hráu og kraftlausu þegar að svartpönki kemur. Augljóslega eru þetta fordómar af minni hálfu, en Norn er á góðri leið með að jarða þá. Norn var sterkasta bandið þetta kvöldið þó svo að Morð hafi nartað aðeins í hæla þess.

dynfari

Dynfari lokaði svo kvöldinu en því miður náði ég nú bara byrjuninni hjá þeim áður en ég þurfti að hverfa á brott. Það sem heyrðist var þó mikil framför frá því sem áður hefur heyrst frá þeim, hvort sem er á skífu eða á sviði. Ég held að þeir séu loksins að verða það sem ég vonaðist til að þeir yrðu þegar ég heyrði fyrst í þeim.

Það virðist eitthvað vera að gerast í djöflarokkinu þessi misseri og verður gaman að sjá hvernig tónleikar Sinmara, Gone Postal og Svartadauða verða næsta föstudag á Cafe Amsterdam.