frumsýning: replacire – do not deviate

Í dag frumsýnir Andfarinn heila plötu með amerísku tæknidauðarokkssveitinni Replacire en nýjasta breiðskífa hennar, Foreword, kemur út hjá Season of Mist næsta föstudag.

Eric Alper, gítarleikari sveitarinnar, stofnaði Replacire 2010 og tveimur árum seinna kom frumburður hennar út. Síðan þá hefur hljómsveitin farið í gegnum hinar ýmsu breytingar á meðlimaskipan og nú eru Zach Baskin og Evan Berry í Replacire ásamt fyrrnefndum Eric. Að auki eru Poh Hock og Kendal Divoll með þegar sveitin stígur á svið.

Eins og áður sagði er hér um tæknidauða að ræða og ætti þetta því að höfða vel til fylgjenda seinna tímabils Death, þess sem Cynic gerði á Focus, jafnvel að fólk sem fílar Hate Eternal og Artificial Brain finni þarna eitthvað við sitt hæfi. Kannski.

frumsýning: benighted – necrobreed

Í dag frumsýnir Andfarinn heila plötu með frönsku svartdauðarokksveitinni Benighted en nýjasta breiðskífa hennar, Necrobreed, kemur út hjá Season of Mist á morgun.

Hljómsveitin var stofnuð 1998 af meðlimum dauða- og djöflarokksveitanna Dishumanized, Darkness Fire og Osgiliath. Markmið þeirra var að nútímavæða öfgarokkið og þegar fyrsta breiðskífa sveitarinnar kom út um aldamótin fékk hún mjög góðar viðtökur. Fólk var reiðubúið undir þróunina sem Benighted bauð uppá og síðan þá hefur hljómsveitin aukið við sig með hverri útgáfu. Í raun svo að nú ætti hún að vera þónokkrum skrefum á undan okkur.

Ef fólk er svo þyrst í meiri fráviksdauða þá er hér myndband með japönsku dauðarokkssveitinni Defiled sem kemur fram á næsta upphitunarkvöldi Reykjavík Deathfest.

defiled – towards inevitable ruin (frumsýning)

Seinni frumsýningin sem kemur frá Season of Mist í dag er ekki eitt lag heldur heil plata! Alveg rosalega breið skífa!

Það sem er í boði hérna er fimmta breiðskífa japönsku dauðarokkarana í Defiled og kemur sú plata út áttunda júlí! Hvenær? Jú, þegar Eistnaflug er hálfnað! Marduk, Belphegor og Immolation verða nýbúnar að spila og Amorphis, Meshuggah og Opeth alveg að fara á svið!

defiled – force and obidience

Það er sumardagurinn fyrsti og það er auðvitað ekki hægt að byrja sumarið öðruvísi en á ísköldu japönsku dauðarokki!

Síðan japanska dauðarokksmaskínan Defiled hóf för sína 1992 hefur hún gefið út fjórar breiðskífur, eina smáskífu og tvö demó. Auk þess hefur hún komið fram með dauðarokksrisum á borð við Monstrosity og Angelcorpse.

Towards Inevitable Ruin, sem kemur út áttunda júlí hjá Season of Mist, verður því fimmta breiðskífa sveitarinnar og lagið sem Andfarinn frumsýnir í dag er það fyrsta sem dettur í spilun af henni.

Eins og Yusuke Sumita, gítarleikari sveitarinnar, segir þá þarf að hlusta á þetta lag oftar en einu sinni til þess að ná því. Kannski oftar en tvisvar. Oftar en þrisvar gæti þó verið hættulegt.