ný tónlist: dynfari – sorgarefni segi ég þér

Það er góður dagur í dag, allavega útgáfulega séð. Slatti af fínum plötum að koma út í dag. Þar á meðal fjórða breiðskífa Dynfara sem kom út á vegum Aural Music.

Dynfari er, enn sem komið er, eina almennilega eftirsvertusveitin í þorpinu hér á Íslandi, og hún bætir sig með hverri útgáfu, en þannig á það einmitt að vera.

dynfari – vegferð tímans

Dynfari er eftirsvertusveit héðan af höfuðborgarsvæðinu sem var stofnuð af Jóhanni og Jóni Emil, en áður spiluðu þeir saman í hljómsveitinni Sacrilege.

Ég man ekki til þess að hafa heyrt eitthvað efni með þeirri hljómsveit en ég man eftir þeim sáru vonbrigðum sem ég varð fyrir þegar ég hlustaði á fyrstu breiðskífu Dynfara, sem var samnefnd hljómsveitinni og kom út árið 2011. Góðar hugmyndir í gangi en dæmið gekk því miður ekki upp.

Á Sem skugginn, sem kom út ári seinna höfðu nokkrar framfarir átt sér stað og hljómsveitin var næstum komin þangað sem hún virtist leita, en herslumuninn vantaði.

Vegferð tímans er þar sem Dynfari hefðu átt að byrja, tel ég. Loksins er hljómsveitin að verða samkeppnishæf við sveitir eins og Alcest og Agalloch sem hún sækir án efa mikinn innblástur til. Hún er nú kannski ekki alveg komin á þeirra stig þó, en það er ekkert svo langt í það.

Dynfari · Code666 · 16. mars 2015

dynfari safnar fyrir vínil


Það styttist óðum í þriðju breiðskífu Dynfara, en síðustu fjögur árin eða svo hefur hljómsveitin breitt boðskap eftirsvertunnar til landans. Platan ber heitir Vegferð tímans og mun koma út í gegnum code666 rétt eins og Sem skugginn, sem kom út 2012.

Fyrstu tvær skífurnar komu eingöngu út á geisladisk en nú virðist breyting vera á hlutum og það gæti farið svo að Vegferð tímans komi bæði út á geisladisk og a vínil. Útgáfa á vínilnum er þó háð því að söfnun, sem útgáfufyrirtækið hefur hrundið af stað, gangi sem skyldi og inn komi nógu mikill peningur til þess að senda gripinn í pressun.

Þetta fyrirkomulag er sífellt að verða algengara og er það frekar skiljanlegt að fyrirtæki vilji lágmarka fjárhagslega áhættu sína. Undirrituðum langaði þó að forvitnast um það af hverju þessi leið hefði verið farin. Hefði ekki verið auðveldara að finna bara aðra útgáfu til þess að sjá um vínilinn? Ég sendi línu á Jóhann Örn, annan meðlim Dynfara, og spurði hann af hverju þessi leið hefði verið farin.

Við skrifuðum undir samning árið 2014 sem nær yfir allar upptökur til ársins 2016.

Aural Music á sem sagt réttinn á tónlistinni þangað til. Við íhuguðum mikið að leita okkur að stærra labeli en ákváðum á endanum frekar að reyna að ná betri samning við Code666, sem okkur tókst. Því miður var vínylútgáfa ekki hluti af samningnum. Svo Emiliano, eigandi labelsins, ákvað að fara þessa leið til þess að sjá hvort það sé eftirspurn eftir 300 vínyleintökum, því annars væri öll fjárhagsáhættan á honum. Okkur finnst þetta sanngjörn leið, og í raun sú eina í stöðunni fyrir okkur akkurat núna til að vínylútgáfa geti orðið að veruleika.

Athyglisvert, vistarböndin virðast því hafa gert út um þann möguleika. Engu að síður kemur geisladiskurinn út í næsta mánuði og hér beint fyrir ofan er einmitt hægt að hlusta á lag af honum! Ef fólk hefur áhuga á vínilnum er um að gera að smella hér á og fjárfesta í eintaki!