það er nóg að gerast, það er bara lítil hvíld

 

Kommentakerfin eru full af fólki sem virðist vita af hverju hlutirnir ganga svona illa. Það er út af því að unga fólkið er svo latt. En, miðað við hvað það er mikið af tónleikum þessa helgi þá virðist nú vera eitthvað af fólki sem nennir að gera hluti.

Á fimmtudaginn verða Auðn og Zhrine á Hard Rock. Báðar hljómsveitir munu spila blöndu af útgefnu og óútgefnu efni. Frekari upplýsingar um tónleikana má finna hér.

Á föstudaginn er Krossfesting III, þriðja upphitunarkvöldið fyrir Norðanpaunk. Þar koma fram Kuldaboli, World Narcosis, Andavald og Vofa. Frekari upplýsingar um tónleikana má finna hér.

Laugardagurinn þungi verður svo haldinn hátíðlegur á Gauknum en þar munu Qualia, Morpholith, Slor og CXVIII koma fram, en þess má til gamans geta að þetta eru fyrstu tónleikar draugabandsins CXVIII. Frekari upplýsingar um tónleikana má finna hér.

Zhrine

Mynd: Verði ljós

Inferno Metal Festival fer fram í höfuðborg Noregs tólfta til fimmtánda apríl næstkomandi. Þar mun Zhrine koma fram ásamt Svartadauða, Auðn og Kontinuum á sérstöku kvöldi tileinkuðu íslensku djöflarokki.

Já, ég veit ekki. Kontinuum er góð hljómsveit en djöflarokk er hún ekki. En já, við skulum ekki missa okkur í blaðri um stefnur og merkimiða. Frekar skulum við vinda okkur í þetta stutta viðtal sem ég tók við Nökkva, gítarleikara Zhrine, í tilefni þess að hljómsveitin kemur fram á Inferno.

Fyrir nokkrum árum hét Zhrine Gone Postal og spilaði frekar lítið. Tveimur nöfnum síðar skilar hljómsveitin af sér einni af betri dauðarokksplötum síðasta árs og túrar Bandaríkin og Kanada. Hvað gerðist eiginlega?

Einmitt af því að við spiluðum lítið á tónleikum gátum við eytt meiri tíma í að draga fram það besta í okkar sköpunarfærni. Það skilaði tilætluðu markmiði.

Hvernig kom það annars til að þið fóruð til Season of Mist og hvernig hefur samstarfið verið hingað til? Hvernig lýst þér á að SoM sé að breytast í smá Íslendinganýlendu?

Eftir að upptökuferli plötunnar Unortheta lauk áframsendum við hana á fólk sem við héldum að hefði áhuga. Hún virðist hafa ratað í réttar hendur. Samstarfið hefur gengið vel og hnökralaust hingað til.

Mér finnst þetta allt saman jákvætt.

Við hverju mega áhorfendur ykkar á Inferno búast og við hverju býst þú við af Inferno?

Áhorfendur mega búast við því að sjá Zhrine flytja útgefið efni í spariklæðum. Ég býst við skemmtilegri helgi ef svo fer að við dveljum auka daga í Osló. Það verður áhugavert að sjá Slagmaur flytja topplögin af Shelter. Vona að við verðum hýstir á Hotel Royal Christiania aftur. Mikil fagmennska þar.

Hér fyrir neðan má svo finna lista yfir allar þær hljómsveitir sem nú hafa verið tilkynntar á Inferno, eins og sést eru íslensku hljómsveitirnar ekki í slæmum hópi.

ABBATH
Gorgoroth
Carcass
Possessed
Samael
Venom Inc
Borknagar
Primordial
Red Harvest Official
Anaal Nathrakh
Crowbar
Svartidauði
Helheim
Insidious Disease
SLAGMAUR
Furze
Azarath
Deus Mortem
Whoredom Rife
Infernal War
SARKOM
Slegest
Kontinuum
ZHRINE
Pillorian
Tangorodrim
Hail Spirit Noir
Panzerfaust
Sulphur
Auðn
Slidhr
Darvaza
Whip
Nachash
Diabolus Incarnate
Age of Woe
Befouled
Heavydeath
Netherbird

infernoiceland

ný breiðskífa væntanleg frá ulver

Sjöunda apríl næstkomandi kemur þrettánda breiðskífa norsku framúrstefnurokkarana í Ulver út. Platan nefnist The Assassination of Julius Caesar og mun House of Mythology sjá um útgáfu hennar.

Upptökuferlið var að mestu í höndum hljómsveitarinnar sjálfrar en þegar að hljóðblöndun kom þá fékk hún Martin “Youth” Glover og Michael Rendall í lið með sér.

Eins og áður býst ég við að það megi búast við hverju sem er frá hljómsveitinni, langt er síðan hún yfirgaf sýnar afskaplega fallegu djöflarokksrætur og hélt út í einskismannslandið til þess að skapa sinn eigin stíl.

Hljómsveitin mun koma fram á nokkrum tónleikum í tilefni útgáfunnar, þar á meðal á hinni víðfrægu Roadburn tónlistarhátíð, en strákarnir okkar í Auðn, Nöðru og Zhrine munu einnig koma þar fram.

íslenskt öfgarokk yfirtekur inferno

Norska öfgarokkshátíðin Inferno, sem fer fram 12-17 apríl í Osló, sendi rétt í þessu út tilkynningu um að það yrði sérstakt Íslandskvöld á John Dee barnum, þar sem hljómsveitirnar Auðn, Kontinuum, Svartidauði og Zhrine munu koma fram. Hér fyrir neðan má sjá listann yfir þær hljómsveitir sem nú þegar hafa verið tilkynntar en á næstu vikum og mánuðum mun hátíðin kynna fleiri hljómsveitir.

INFERNO METAL FESTIVAL 2017:
CARCASS – ABBATH – BORKNAGAR – RED HARVEST – SVARTIDAUÐI – HELHEIM – FURZE – INFERNAL WAR – KONTINUUM – ZHRINE – PILLORIAN – TANGORODRIM – AUÐN – WHIP – NACHASH

nýtt undir nálinni 181016

Það styttist óðum í Vetrnætur tónlistarhátíðina sem fram fer á Gauknum næsta föstudag og laugardag. Í fyrradag var dagskrá hátíðarinnar birt, en ef þú sást hana ekki þá getur þú séð hana hér núna.

21. október, föstudagur “SUMARLOK”:
Opnunaratriði: Seiðkonur hjartans kl. 19:00
Örmagna kl.19:40
AMFJ kl. 20:40
Abominor kl. 21:40
Lunar Mantra kl. 22:40
Misþyrming kl. 23:40
Lluvia kl. 00:40

22. október, laugardagur “FYRSTI VETRARDAGUR”:
HÖH kl 19:00
Nornahetta kl 20:00
Naðra kl 20:50
Our Survival Depends On Us kl. 21:50
NYIÞ kl. 23:00
Phurpa kl. 00:00

Auðn og Zhrine munu koma fram á Roadburn tónlistarhátíðinni á næsta ári. Hátíðin fer fram í Hollandi, nánar tiltekið í borginni Tilburg, í apríl, og munu þær koma fram ásamt hljómsveitum eins og Inter Arma, Emptiness, Wretch, Deafheaven og Mysticum.


Að lokum er svona hérna smá viðtal sem ég tók við Aðalstein Magnússon, einn af skipuleggjendum Reykjavík Deathfest. Eins og alþjóð veit þá verður hátíðin haldið á næsta ári á Gauknum og munu Cryptopsy, Severed, Ad Nauseam og Ophidian I koma þar fram ásamt fleiri hljómsveitum. Vindum okkur bara strax í viðtalið…

Er sami hópurinn á bakvið RVKDF2 og var á bakvið þá fyrstu?
Hópurinn er í kjarnan sá sami, Ég og Ingó við tókum aðeins til og fengum þriðja megin manninn í þetta með okkur sem er Unnar (Beneath/Severed). Við þrír erum Reykjavík Deathfest.

Þið hafið verið helvíti duglegir að tilkynna hljómsveitir síðustu dagana. Er meira í bígerð eða er allt komið?
Já það er búið að vera brjálað að gera í bókunum hjá okkur bæði á erlendum böndum og innlendum, við fengum endalausar beiðnir frá hljómsveitum og þær eru enn að berast, það mætti segja að við gætum allt eins látið hátíðina bóka sig sjálfa að ári. En þetta er ekki búið enn, við eigum eftir að tilkynna tvær staðfestar hljómsveitir en ég ætla ekki að fara lofa meira upp í ermarnar á mér varðandi hvort það bætast fleiri við.

Hver er stefnan þegar að RVKDF kemur? Einhver ákveðinn rammi sem þið farið ekki út fyrir, eða er “Deathfest” ekki bara dauðarokk, líkt og aðrar hátíðir sem bera þetta nafn?
Hvað þema hátíðarinnar varðar þá er þetta fyrst og fremst dauðarokkshátíð við vorum með Logn í fyrra sem mótvægi við Dauðann og við endurtökum leikinn í ár með því að bjóða uppá fjölbreytt úrval af extreme músík, það er í raun allt leyfilegt á Reykjavík deathfest. Það eru allir velkomnir að vera með svo lengi sem það er tenging við dauðarokk. Við viljum að allir upplifi sig velkomna hjá okkur, í þeim skilningi er ekkert dresscode.

neurosis á eistnaflug

Flugið varpaði sannkallaðri sprengju í gær þegar það tilkynnti goðsögnina Neurosis til leiks. Hljómsveitin fagnar á þessu ári þrjátíu og eins árs afmæli en hún var stofnuð 1985 og á rætur að rekja til pönksenunar í Oakland, Kaliforníu.

Auk þess bætti Eistnaflug þokkalega við því ásamt Neurosis kynnti hátíðin Auðn, Dimmu, Hubris, Kæluna miklu, Misþyrmingu, Oni, Skálmöld og Sólstafi til leiks.