drudkh – cursed sons ii (frumsýning)

Það styttist óðum í A Furrow Cut Short, tíundu breiðskífu úkraínsku djöflarokkssveitarinnar Drudkh, sem kemur út á vegum Season of Mist 20. apríl næstkomandi. Roman Saenko og félagar halda ferð sinni um lendur hins dökka og leyndardómsfulla djöflarokksáfram og sýnist Andfaranum sem svo að ferðin gangi vel.

það verður wacken metal battl í hörpu næsta laugardag

Eins og fólk hefur eflaust tekið eftir þá fer Wacken Metal Battle Íslands fram í Hörpu næsta laugardag. Rétt í þessu var tímaplan sett á fjasbókarsíðu keppninnar svo endilega kíkið á það hér fyrir neðan og smellið svo hér og verslið ykkur miða ef ykkur langar að upplifa fullt af hljómsveitum í rosalegum þægindum.

Eftirréttur
23:20 Sigurvegari
22:20 The Vintage Caravan
22:00 Sigurvegarinn tilkynntur
21:30 Ophidian I

Aðalréttur
20:50 Auðn
20:20 Churchhouse Creepers
19:50 Oni
19:20 In the Company of Men
18:50 Narthraal
18:20 Röskun

Forréttur
18:00 Aeterna

nergal í behemoth æstur í íslenska svartmálminn

Það er laugardagskvöld, maður er kominn með smá bjór í sig og er þá ekki málið að taka smá Séð & Heyrt móment hérna bara að því að það er svo rosalega mikið sprell…

I also learned that Island has some of the finest Black Metal bands nowadays (Svarti Dausi and Mysperming)!

…sagði Nergal, söngvari og gítarleikari pólsku djöflarokkssveitarinnar Behemoth, eftir að hann kom heim frá Inferno hátíðinni sem er að klárast nú þegar þessi orð eru rituð. Svartidauði, Sinmara, Misþyrming og Momentum komu fram á hátíðinni og virðist þessi væntanlegi Íslandsvinur hafa náð að sjá allavega tvær þeirra. Við fyrirgefum honum auðvitað það að fara vitlaust með nöfn hljómsveitanna og vonum bara að stemningin á Fluginu verði álík þeirri sem þessi mynd, sem Stefan Raduta tók á Inferno, sýnir.

behemoth

útvarps-fenriz fer á kostum

Ég hlusta ekki mikið á hlaðvörp en þessu gat ég ekki sleppt. Fenriz er nokkuð skemmtilegur hérna og tónlistin harðari en nokkuð sem þú finnur á X-inu. Fólk með blæti fyrir grísku næturrokki ætti að kíkja á Nocternity því “Harps of the Ancient Temples” er virkilega gott. Norski kokkurinn segir þetta vera dómsdagsrokk fyrir djöflarokkshunda og held ég að hann sé bara nokkuð nærri lagi þar.

forgotten tomb – bad dreams come true (frumsýning)

Einhverra hluta vegna finnst mér það vel við hæfi að frumsýna nýjasta síngul ítölsku þunglyndisrokksveitarinnar Forgotten Tomb á sama tíma og Eistnaflugsdúóið lætur ljós sitt skýna í Popppunkti á Rás 2.

Hurt Yourself and the Ones You Love heitir væntanleg breiðskífa sveitarinnar og mun hún líta dagsins ljós 17. apríl næstkomandi. Líkt og tvær síðustu breiðskífur sveitarinnar kemur þessi út hjá pólsku útgáfunni Agonia Records.

septicflesh – prometheus (frumsýning)

Grísku ofsarokkssveitina Septicflesh ættu nú flestir lesendur Andfarans að þekkja. Þegar ég heyrði “Return to Carthage” fyrst hljóma varð ég strax heillaður af níþungu dauðarokki hljómsveitarinnar. Temple of the Lost Race og Mystic Places of Dawn eru meistaraverk að mínu mati.

Samband okkar hefur þó gengið brösuglega síðustu árin en með The Great Mass og Titan hefur hljómsveitin unnið mig aftur á sitt band. Það er því mjög gaman að fá að frumsýna nýjasta myndband sveitarinnar, en það er við lagið “Prometheus” af síðust plötu sveitarinnar, Titan, sem kom út á síðasta ári á vegum Season of Mist.

gost – behemoth

Nýjasta æðið í dag er að semja tónlist sem ætti best heima í hryllingsmyndum og b-klassa myndum sem átti sína bestu daga fyrir rúmum þrjátíu árum. Þáþráin er sterk þessa dagana og fólk leitar grimmt í gömlu góðu tímana þar sem hvít jakkaföt yfir bleika stuttermaboli voru það heitasta og karlmennskan var mæld í hnittnum einlínungum. Þetta voru svo sannarlega góðir tímar.

Líkt og rauð sundskýla Hasselhoffs átti þetta allt sinn tíma og virtist sem flestir hefðu gleymt þessu, helst voru það menn eins og tvíeykið í Zombi sem minntu öðru hverju á þetta merkilega tímabil sem stóð of stutt yfir. Nú á seinni dögum hefur flætt yfir okkur bylgja af nýjum listamönnum sem leita í þennan brunn eftir visku og getu og er undirritaður afskaplega ánægður með áhuga fólks á þessu.

Finnska plötuútgáfan Blood Music hefur verið nokkuð dugleg upp á síðkastið að færa okkur athyglisverðar plötur með Perturbator og Dan Terminus og ekki má gleyma löndum þeirra hjá Svart Records sem kynntu Andfarann fyrir Nightsatan hér um árið. Það er einmitt Blood Music sem stendur að útgáfu breiðskífunnar Behemoth með bandaríska tvíeykinu í GosT.

Þarna er sótt í smiðju John Carpenter, Goblin og álíkra listamanna. GosT blandar hryllingi níunda áratugarins saman við diskósturlun vöðvabúntsmynda og úr verður ágætis afþreyingartónlist sem virkar jafnvel í einbeittar lærdómsbúðirnar eða partíhartið sem á eftir koma.

gost • blood music · 28. apríl 2015