af mercy buckets, icarus, skuggsjá, auðn og dynfara

Það var mikið að gerast á laugardaginn, tónleikar út um allt, en ég nennti þó ekki út úr húsi fyrr en klukkan skreið skuggalega nálægt kvöldmatarleytinu.

Ég byrjaði á því að kíkja á Mercy Buckets og Icarus en síðarnefnda sveitin var að gefa út plötu og því var haldið upp á það. Það er ekki oft sem ég lendi næstum því í moshpitti þegar ég kíki í plötubúð og hljómsveitirnar voru helvíti góðar svo maður fór nokkuð sáttur út þegar hasarinn var á enda. Á mjög erfitt með að gera upp á milli hljómsveitanna, hvor hafi verið betri, því báðar skiluðu sínu virkilega vel af sér. Ingvar í Lucky Records fær svo plús í kladdann fyrir Insol úrvalið.

Einni mjög langri heimildamynd um sögu þungarokks síðar var förinni heitið út í Hafnafjörð til þess að kíkja á Skuggsjá, Auðn og Dynfara spila á Íslenska Rokkbarnum. Ég var mættur á staðinn rétt upp úr ellefu og Death og Nocturnus tóku á móti mér í græjunum og þetta leit ágætlega út.

Um miðnæturbil steig Skuggsjá á svið og djöflarokkið reið yfir allt og alla. Því miður var hljómsveitin einhverra hluta vegna afskaplega stíf og hljóðið ekkert til þess að hrópa húrra fyrir. Það var því ekki mikið hægt að greina á milli laganna og var ég orðinn frekar leiður á því þegar aðeins var liðið á tímann hjá sveitinni. Nenniði svo, kæru Skuggar, að leggja smá metnað í líkmálninguna hjá ykkur. Þetta leit vel út hjá söngvaranum en hinir meðlimirnir, og þá sérstaklega gítarleikarinn með handarfarið framan í sér, þurfa aðeins að pæla í sínu. Kveðja, tískulöggan.

Ég ákvað að beila á Dynfara svo Auðn var síðasta hljómsveitin sem ég sá þetta kvöldið. Ég hlakka þó til að sjá útgáfutónleika hljómsveitarinnar seinna í mánuðinum þar sem Vegferð tímans verður spiluð í heild sinni.

Auðn byrjuðu mjög vel og voru mun sterkari en þegar ég sá þá síðast, á Wacken Metal Battle í Hörpunni. Hljómsveitin var jafn afslöppuð og sjálfsörugg og Skuggsjá var stíf. Hljóðið var mun betra þarna en fyrr um kvöldið og lögin runnu því ekki saman í eitt. Stund Skuggsjár mun án efa koma en held ég þó að það sé nokkuð í það.

Magný Rós Sigurðardóttir á miklar þakkir skilið fyrir að leyfa mér að nota myndina sem hún tók af Skuggsjá með þessari umfjöllun.

king parrot – home is where the gutter is (frumsýning)

Það styttist óðum í aðra breiðskífu áströlsku ofsarokkaranna í King Parrot. Síðan Bite Your Head Off kom út 2012 hefur hljómsveitin gengið fram af fólki með öfgafullri tónlistinni og grófum húmornum.

Platan, sem ber heitið Dead Set, kemur út á vegum Agonia Records í Evrópu en Housecore Records sjá um útgáfu plötunnar í Ameríku. Kíkið nú á myndband sveitarinnar við “Home is Where the Gutter Is” og ekki gleyma að klára allt myndbandið því endirinn er svo sannarlega algjört gull.

weedeater – bully (frumsýning)

Átjánda maí kemur fimmta plata drullurokkaranna í Weedeater út hjá Season of Mist útgáfunni. Á breiðskífunni, sem ber titilinn Goliathan, verða tíu lög af níðþungum metal þar sem andi Suðurríkjanna liggur yfir öllu. Svo kíkið á “Bully” og njótið vel. Hægt er að panta plötuna með því að smella á þennan hlekk.

shape of despair – monotony fields (frumsýning)

Ef það er eitthvað sem okkur vantar nú þegar sumarið er á næsta leyti þá er það finnskt þunglyndisrokk Shape of Despair.

í tvo áratugi hefur þessi finnska hljómsveit gert sitt besta til þess að kæfa þá litlu vonarglætu sem skín inn í sálartetur aðdáenda hennar. Líkt og rigningin fylgir sumrinu í Reykjavík hefur depurðin og þunglyndið fylgt hinum þungu jarðarfararsálmum Shape of Despair allt frá því að fyrsta breiðskífa sveitarinnar kom út um aldamótin.

Fjórða plata sveitarinnar, Monotony Fields, kemur út um miðjan júní hjá Season of Mist, og það er vel við hæfi, með hækkandi hitastigi, að kíkja á eins og eitt lag af plötunni.

kontinuum á diskinn minn

Kyrr, önnur breiðskífa Reykvísku rokksveitarinnar Kontinuum kom út í dag. Líkt og Earth Blood Magic var platan gefin út á vegum ensku útgáfunnar Candlelight Records.

Gagnrýnendur virðast ánægðir með skífuna og fékk Kyrr meðal annars 9 af 10 á vefsíðunum Metal.de og á Avenoctum.com.

Platan er þegar komin til landsins og er hægt að nálgast hana í Smekkleysu, Lucky Records og Geisladiskabúð Valda. Einnig er hægt að panta hana beint frá hljómsveitinni.

drudkh – a furrow cut short (frumsýning)

Það gleður Andfarann mjög að fá að frumsýna tíundu plötu úkraínsku djöflarokkasveitarinnar Drudkh fyrir íslenskum þungarokksaðdáendum.

Líkt og á fyrri plötum er allt fullt af atmói og tilfinningaþrungnu djöflarokki. Án efa hafa margir rölt í gegnum Heiðmörkina með fyrri plötur Drudkh í eyrunum og telur undirritaður að þessi plata eigi eftir að vera nýtt til hins sama í náinni framtíð.

Platan kemur út tuttugasta apríl á vegum Season of Mist og hægt er að panta hana héðan.