sumarið

Það er gott sumar framundan, sama hvernig veðrið verður. Íslendingar eru nú það duglegir hvort eð er að kvarta yfir veðrinu að það skiptir ekki máli hvort það er sól eða rigning úti, ef það er sól þá er rigningin á næsta leyti og ef það er rigning þá er sólin aldrei á lofti.

Hvað er það þá sem gerir sumarið svona gott?

ATP!
Eistnaflug!
Norðanpaunk!

Ég veit ekki hvort ég kíki á allar hátíðirnar en það er nóg af spennandi hljómsveitum í boði. Á ATP verða meðal annars GY!BE, Swans, Chelsea Wolfe, Deafheaven, Public Enemy og haugur af öðrum athyglisverðum listamönnum. Á Eistnaflugi verða Behemoth, Vallenfyre, Inquisition, Vampire, Rotting Christ og fleiri. Ég er sérstaklega spenntur fyrir Abominor og Gröfum í Egilsbúð. Á Norðanpaunki… Norðanpaunkararnir sögðust bara ætla að hafa 36 hljómsveitir en svo hættu þeir við það og sögðu 40, gæti verið að talan eigi eftir að hækka? Hverju er ég spenntastur fyrir þar? Mannvirki, Úrhraki, Skelk í bringu, Mannveiru, Börnum og Gröfum, Pink Street Boys og Urðun. Þetta verður allt rosalegt!

Þá er um að gera að nýta tækifærið núna og kaupa miða á Flugið því júlí kemur fyrr en varir.

moonreich – believe behead

Ég var alvarlega að spá í að sleppa því að kíkja á þessa hljómsveit út af nafni hennar.

Moonreich.

Fordómarnir, maður, þeir eru tík. En, ég lét þó verða af því og þessi franska sveit kom mér á óvart. Frekar þetta en enn eina goatfago hljómsveitina, eins skemmtilegar og þær nú eru.

“Believe Behead” er tekið af væntanlegri breiðskífu Moonreich sem kemur út hjá frönsku framúrstefnuútgáfunni Les Acteurs Del Ombre von bráðar.

Ljónin, ég elska ljónin.

https://soundcloud.com/blandine_ladlo/moonreich-believe-behead/s-c5m6Z

shining – vilja og drom

Það skal tekið fram að þetta myndband inniheldur efni sem getur valdið óhug hjá fólki!

Ég bjóst aldrei við því að þurfa að vara lesendur Andfarans við efni sem hér birtist en það er komið að því nú. Þetta myndband sænsku öfgarokkssveitarinnar Shining inniheldur ofbeldi og dauða og færir grimmd mannsskepnunnar nær þér. Kvarforth er duglegur við að ganga fram af fólki og ef til vill tekst honum nú að fá einhverja til þess að æla.

Það væri þá kominn tími til, held ég, ef þú ert búinn að gefa út níu breiðskífur og engin ælulykt í loftinu þá er eitthvað að. Er það ekki?

IX: Everyone, Everything, Everywhere, Ends er fáanleg frá Season of Mist.

shape of despair – the distant dream of life (frumsýning)

Þegar þessi orð eru skrifuð er viðbjóðslega heitt úti, en án efa er einhver lífsglaður niðrí bæ með öl að fagna því að loksins er hægt að fá sér sæti á grasinu á Austurvelli án þess að blottna á rassinum.

Kannski verður veðrið hundleiðinlegt þegar þetta innslag birtist á vefnum. Kannski verður rigning og smá vindur og jafnvel að maður fái að heyra einhverjum bölva því hversu stutt sumarið stoppaði. Það væri meiriháttar!

En það skiptir máski engu máli hvort það sé gott eða slæmt veður þegar að tónlist finnsku dómsdagsmálmhausanna í Shape of Despair kemur. Sama hvernig veðrið er, án efa ná þau að kæfa hverja sólarglætu.

“The Distant Dream of Life” er þriðja lagið sem Andfarinn frumsýnir af væntanlegri breiðskífu sveitarinnar. Skífan sú ber heitið Monotony Fields og kemur út fimmtánda júní á vegum Season of Mist.

reykjavíkin full af tónleikum í dag og á morgun

Það er uppstigningardagur á morgun og því frí hjá mörgum. Það er því um að gera að nýta tækifærið og kíkja á tónleika í kvöld og á morgun, nóg er í boði.

Langi Seli og Skuggarnir eru nú í gangi á Quest – Hair, Beer & Whisky Saloon. Ég hef aldrei komið þangað, enda óklipptur villimaður sem kann varla á sköfu. Áhugasamir þurfa samt að drífa sig því þetta byrjaði hálf átta.

World Narcosis, Mannvirki og Grit Teeth eru að spila á Dillon rétt á eftir. 500 kall inn og málið er dautt. Á meðan ég skrifa þetta er maður að lýsa fegurðaraðgerðum á sér í sjónvarpinu, það er skuggalegt að hlusta á.

Á morgun eru World Narcosis með aðra tónleika, í þetta sinn í Lucky Records. Herlegheitin byrja klukkan fjögur og Antimony og Qualia spila þarna líka.

Um kvöldið munu Klikk, ITCOM, Conflictions og Brött Brekka koma fram á Húrra og á Gauknum verður The Vintage Caravan með kveðjutónleika en hljómsveitin heldur til útlanda bráðlega en þar sem nýjasta plata strákanna í Vintage, Arrival, kemur út eftir nokkra daga, eiga þeir eflaust eftir að spila mikið á næstunni til þess að koma plötunni til sem flestra.

hypothermia – svartkonst (frumsýning)

Svartkonst er fimmta breiðskífa sænsku þunglyndisdjöflarokksveitarinnar Hypothermia. Það hefur lítið farið fyrir hljómsveitinni en meðlimir sveitarinnar voru frekar uppteknir á síðustu árum, meðal annars í hinni alræmdu Lifelover.

En, nú er hljómsveitin komin á skrið og tónleikar víðsvegar um heiminn á næsta leyti. Það er því um að gera að nýta góða veðrið til þess að hanga inni og hlusta á niðurdrepandi heimsendarokk!

Svartkonst kemur út næsta föstudag á vegum Agonia Records og hægt er að forpanta hana hér.