sólstafir á leið í evróputúr í júní

Fyrir nokkru síðan tóku Sólstafir upp sína fyrstu plötu án Guðmundar Óla Pálmasonar, en eins og flestir ættu nú að þekkja var hann rekinn úr hljómsveitinni í ársbyrjun tvöþúsund og fimmtán.

Fyrir viku síðan gaf hljómsveitin út sinn fyrsta síngul, „Ísafold“, af væntanlegri breiðskífu, Berdreyminn, sem kemur út tuttugasta og sjötta maí næstkomandi á vegum Season of Mist. Á meðan fólk hefur rifist um það hvort hljómsveitin sé betri eða verri án Gumma þá klýfur myndbandið áhorfsfjallið og nú er svo komið að, þegar þetta er ritað, myndbandinu hefur verið streymt fimmtíuogsexþúsund sinnum. Ekki slæmt það.

Hljómsveitin ætlar að skella sér á Evróputúr í júní og sjá frekari upplýsingar um þann túr á auglýsingunni hér fyrir neðan.

frumsýning: foscor – ciutat tragica

Mynd: Raquel Garcia

Í dag frumsýnir Andfarinn lag með spænsku dimmproggsveitinni Foscor en nýjasta breiðskífa hennar, Les Irreals Visions, kemur út hjá Season of Mist níunda júní næstkomandi. Með hljómsveitinni í för í þessu lagi er Alan Averill, sem einhverjir ættu að þekkja sem söngvara írsku dómsdagsmálmssveitarinnar Primordial.

frumsýning: imperium dekadenz – schwarze wälder

Í dag frumsýnir Andfarinn myndband með þýsku djöflarokkssveitinni Imperium Dekadenz.

Myndbandið er við lagið „Schwarze Wälde“ af fyrstu breiðskífu hljómsveitarinnar, …und die Welt ward kalt und leer, sem kom út fyrir ellefu árum síðan.

Þetta er hrár vetrarmálmur og myndbandið eftir því. Ekkert nema snævi þakin náttúran og hálfnaktir karlmenn hlaupandi um sviðið á Summer Breeze tónlistarhátíðinni.

Þetta verður varla meira black metal.

Zhrine

Mynd: Verði ljós

Inferno Metal Festival fer fram í höfuðborg Noregs tólfta til fimmtánda apríl næstkomandi. Þar mun Zhrine koma fram ásamt Svartadauða, Auðn og Kontinuum á sérstöku kvöldi tileinkuðu íslensku djöflarokki.

Já, ég veit ekki. Kontinuum er góð hljómsveit en djöflarokk er hún ekki. En já, við skulum ekki missa okkur í blaðri um stefnur og merkimiða. Frekar skulum við vinda okkur í þetta stutta viðtal sem ég tók við Nökkva, gítarleikara Zhrine, í tilefni þess að hljómsveitin kemur fram á Inferno.

Fyrir nokkrum árum hét Zhrine Gone Postal og spilaði frekar lítið. Tveimur nöfnum síðar skilar hljómsveitin af sér einni af betri dauðarokksplötum síðasta árs og túrar Bandaríkin og Kanada. Hvað gerðist eiginlega?

Einmitt af því að við spiluðum lítið á tónleikum gátum við eytt meiri tíma í að draga fram það besta í okkar sköpunarfærni. Það skilaði tilætluðu markmiði.

Hvernig kom það annars til að þið fóruð til Season of Mist og hvernig hefur samstarfið verið hingað til? Hvernig lýst þér á að SoM sé að breytast í smá Íslendinganýlendu?

Eftir að upptökuferli plötunnar Unortheta lauk áframsendum við hana á fólk sem við héldum að hefði áhuga. Hún virðist hafa ratað í réttar hendur. Samstarfið hefur gengið vel og hnökralaust hingað til.

Mér finnst þetta allt saman jákvætt.

Við hverju mega áhorfendur ykkar á Inferno búast og við hverju býst þú við af Inferno?

Áhorfendur mega búast við því að sjá Zhrine flytja útgefið efni í spariklæðum. Ég býst við skemmtilegri helgi ef svo fer að við dveljum auka daga í Osló. Það verður áhugavert að sjá Slagmaur flytja topplögin af Shelter. Vona að við verðum hýstir á Hotel Royal Christiania aftur. Mikil fagmennska þar.

Hér fyrir neðan má svo finna lista yfir allar þær hljómsveitir sem nú hafa verið tilkynntar á Inferno, eins og sést eru íslensku hljómsveitirnar ekki í slæmum hópi.

ABBATH
Gorgoroth
Carcass
Possessed
Samael
Venom Inc
Borknagar
Primordial
Red Harvest Official
Anaal Nathrakh
Crowbar
Svartidauði
Helheim
Insidious Disease
SLAGMAUR
Furze
Azarath
Deus Mortem
Whoredom Rife
Infernal War
SARKOM
Slegest
Kontinuum
ZHRINE
Pillorian
Tangorodrim
Hail Spirit Noir
Panzerfaust
Sulphur
Auðn
Slidhr
Darvaza
Whip
Nachash
Diabolus Incarnate
Age of Woe
Befouled
Heavydeath
Netherbird

infernoiceland

frumsýning: disperse – foreword

Í dag frumsýnir Andfarinn heila plötu með pólsk-ensku öfgamálmssveitinni Disperse en nýjasta breiðskífa hennar, Foreword, kemur út á Season of Mist næsta föstudag.

Þetta er þriðja breiðskífa hljómsveitarinnar og eins og á hinum þá teygir hljómsveitin hugtakið sem þungarokkið er út í ystu æsar.

En hvað þýðir það? Tja, nú þegar ég hlusta á fyrsta lagið, „Stay“, þá heyrist mér það þýða að þungarokkinu sé vafið í bómul fulla af proggpoppi.

Þetta er Cynic fyrir tyggjókúlukynslóðina.

ný breiðskífa væntanleg frá ulver

Sjöunda apríl næstkomandi kemur þrettánda breiðskífa norsku framúrstefnurokkarana í Ulver út. Platan nefnist The Assassination of Julius Caesar og mun House of Mythology sjá um útgáfu hennar.

Upptökuferlið var að mestu í höndum hljómsveitarinnar sjálfrar en þegar að hljóðblöndun kom þá fékk hún Martin „Youth“ Glover og Michael Rendall í lið með sér.

Eins og áður býst ég við að það megi búast við hverju sem er frá hljómsveitinni, langt er síðan hún yfirgaf sýnar afskaplega fallegu djöflarokksrætur og hélt út í einskismannslandið til þess að skapa sinn eigin stíl.

Hljómsveitin mun koma fram á nokkrum tónleikum í tilefni útgáfunnar, þar á meðal á hinni víðfrægu Roadburn tónlistarhátíð, en strákarnir okkar í Auðn, Nöðru og Zhrine munu einnig koma þar fram.