code frumsýnir nýtt lag

code3_3

Nú styttist óðum í útgáfudag „Augur Nox“, þriðju hljómplötu Code. Til þess að halda lýðnum rólegum birtir sveitin eitt lag af plötunni á vefsíðu Metal Hammer tímaritsins ásamt smá viðtali þar sem, meðal annars, er rætt smá um nýjan söngvara sveitarinnar en Kvost, sem söng bæði á „Nouveau Gloaming“ og „Resplendent Grotesque“, og gert hefur garðinn frægan með hljómsveitum eins og DHG, Hexvessel og Beastmilk hætti í sveitinni fyrir tveimur árum.

Hlekk á viðtalið er að finna hér en ef fólk treystir sér ekki lengra er fyrsta lagið sem þeir Code-liðar gerðu opinbert af nýju plötunni að finna hérna fyrir neðan. „Augur Nox“ kemur svo út á vegum Agonia útgáfunnar nítjánda nóvember.

hindurvættir

mynd: daníel starrason texti: eyvindur gauti
mynd: daníel starrason, fengin af fésbókarsíðu sveitarinnar
texti: eyvindur gauti

Ein af þeim hljómsveitum sem báru af á síðasta Eistnaflugi, að mínu mati, var Hindurvættir, frekar ung hljómsveit frá höfuðborg Norðurlands, Akureyri. Lítið hafði ég þó heyrt af þeim frá því þá, þótt þeir hafi spilað fyrir norðan síðan, og sendi ég þeim því tvær spurningar til forvitnast um hagi þeirra.

Núna hefur hljómsveitin verið frekar þögul síðustu mánuðina. Slíkt er kannski ekki mikið í augum meðlima sveitarinnar en í augum sumra áheyrenda eru þetta aldir, hvað er að gerast í búðum Hindurvætta þessa dagana?
Við erum að byrja upptökur á okkar fyrstu breiðskífu sem hefur verið í smíði seinasta árið. Það er mikil vinna búin að fara í hana en við frumfluttum nokkur lög á Eistnaflugi í sumar við ágætis undirtektir. Einnig þá er planið að hafa útgáfuna með frekar óhefðbundnu sniði og við erum mjög spenntir að sjá hvað kemur út úr því.
Hljóðsviðið er töluvert stærra en fyrra efni og við bættum við okkur auka meðlim (Bjarni Jóhannes/Gítar-söngur) til að gera live flutning á því mögulegan. Við erum að draga meiri áhrif frá klassísku (progressífu) rokki, það gleymist oft að það er ennþá nóg að sækja í áttunda áratuginn þó að margt gott sé í gangi í dag.

Hvaðan kemur þessi mikli áhugi á Post (Black) Metal? Hvaða hljómsveitir eru það sem hafa haft mest áhrif á ykkur? Þið sjálfir líktuð ykkur við hljómsveitir eins og Alcest, Agalloch og Urfaust þannig að svarið liggur hálfveginn þar en bilið er ágætlega breytt samt sem áður bara á milli þessara þriggja sveita. Í framhaldi af þessu, hver finnst þér vera helsti munurinn á Black Metali og því sem margir vilja að meina að sé óskilgetið afkvæmi þessi: Post Black Metal?
Það að kalla stefnuna Post (Black) Metal var kannski frekar tilraun á sínum tíma til að finna farveg fyrir hvert bandið vildi stefna. Við vorum (og erum) með ákveðnar hugmyndir bakvið tónlistina, hvaðan áhrifin eru að koma og hvað hægt væri að kalla það. Okkur langaði að spila tónlist sem endurspeglar náttúruna á Íslandi, árstíðirnar, fólkið og daglegt líf. Skammdegisþunglyndi, manían sem fylgir sólbjörtum sumarnóttum og allt þar á milli. Í upphafi þótti okkur við hæfi að kalla þetta þessu nafni þar sem andrúmsloftið sem Black Metal skapar er einmitt í þessa átt. Hinsvegar eftir því sem bandið hefur þróast þá finnst okkur þetta hreinlega ekki lýsa því sem við erum að reyna tjá.
Í rauninni myndi ég ekki flokka Hindurvætti í stefnu sem tengist Black Metal, það eru ákveðin áhrif sem við drögum frá þeirri stefnu, en þau eru meira tengd andrúmsloftinu sem tónlistin skapar heldur en tónlistinni sjálfri og þeim “reglum” sem eru innan stefnunar.
Andrúmsloftið er líklega einn mikilvægasti partur Black Metal, það geta held ég flestir verið sammála um. Hindurvættir reyna að skapa andrúmsloft sem er ef til vill líkt, en frá allt öðrum stað og í allt annari meiningu.
Black Metal hefur verið ágætlega skilgreint með þróun senunar seinust tvo áratugi en í dag eru til óendanlega margar hliðarstefnu sem erfitt er að setja í flokka. Post Black Metal er í mínum huga ekkert voða gott nafn á hliðarstefnu en þangað til einhver kemur með betra nafn þá verður það að duga. Það má deila um það hver eiginlegi munurinn er á “true” Black metal og öðrum hliðarstefnum er en sameiginlegt eiga þær að andrúmsloftið skiptir meginmáli.
Okkar helstu áhrifavaldar í augnablikinu eins ég minntist á í upphafi eru bönd frá gullöldinni í klassísku rokki. Það er ennþá nóg að læra af böndum eins og Pink Floyd, Wishbone Ash, Black Sabbath og Rush. Auðvitað eru líka áhrif frá svartmálmi þá helst Wolves in the Throne Room og fleiri böndum úr þeirri stefnu. Þá má líka nefna goðin í Neurosis og önnur Post Metal bönd. Við erum allir með frekar ólíkan bakgrunn tónlistarlega og komum allir með okkar í lagasmíðarnar sem virðist virka nokkuð vel. Við getum ekki beðið eftir að leyfa fólki að heyra nýja efnið!  

 Heimasíða hljómsveitarinnar