aska

aska

Við höfum kynnst Kristófer Páli Viðarssyni aðallega í gegnum svartrokkið hingað til. Hann var forsprakki Pestuus og Vansköpunar en eftir báðar hljómsveitir liggja segulsbandsútgáfur hjá erlendum útgáfufyrirtækjum. Nýlega hefur hann látið heyra í sér í drungapoppssveitinni ösku og fyrr í þessari viku setti sveitin nýtt lag á netið. Ákvað ég því að hafa samband við hann og komast að því hvað væri í gangi, af hverju hann væri að þessu, hverjir áhrifavaldarnir væru og hvað náin framtíð bæri í skauti sér. Við gefum Kristófer orðið…

Ég hef í einhvern tíma fengist við kveðskap. Ég hef skrifað nokkur ljóð sem virka sem textar og texta sem virka sem ljóð og langaði að klæða kveðskapinn tónlist. Þannig varð aska til. aska er eins manns minimal verkefni í anda ný- og kuldabylgjupopps níunda áratugarins.

Ég byrjaði verkefnið snemma 2013 til þess að semja eitthvað í tómlætinu þar sem mig vantar trommara fyrir Vansköpun og hafði fengið mikinn innblástur frá verkefnum á borð við Lust For Youth, Nagamatzu, The KVB, gamla Depeche Mode og öðrum sambærilega tónlistarmönnum. Tónlistin er hingað til eingöngu framkvæmd á hljóðgervla og trommuheila. Áhrifavaldar eru ýmsir þættir í umhverfinu í kringum mig, vanlíðan og útrás fyrir neikvæðni. Ég hef fylgst mikið með útgáfufyrirtækjum á borð við t.d. Dark Entries, Minimal Wave, La Forme Lente, Electric Voice og Cititrax og fleirum sem sérhæfa sig í að lífga við gamalt kuldabylgjupopp og nýmóðins tónlistarmönnum sem tileinka sér einnig gamla hljóðgervilstónlist.

Ég kláraði plötuna ‘grátónar’ í fyrra og tók hana upp sjálfur í skammdeginu. Platan er að skríða úr hljóðblöndunarferli hjá Hreggviði Harðarsyni og ætti að vera tilbúin í næsta mánuði, en ég hef ekki ákveðið hvernig ég gef hana út. Ég fékk Jón Matthíasson til að hjálpa mér að flytja tónlistina á sviði og nýlega bættist Agnes Ársælsdóttir í hópinn til að syngja, við stefnum á að spila fyrir sunnan á næstu mánuðum.

dautt andrúmsloft þrjú auðn morð norn dynfari

audn

Það var kyrrlátt kvöld við fjörðinn en afskaplega kalt úti þegar ég rambaði inn á Amsterdam í miðju setti Auðnar. Líkmálning. Öfugur kross á míkrófónstatífinu. Norskíslenskur svartmálmur. Strigaskór. Sitthvað hefur breyst frá ungdómi mínum. Engir hermannaklossar. Engar hermannabuxur. Engin gaddakylfa. Ekkert blóð. Bara Converse Pentagrammið. Ekki ætla ég að gera lítið úr því og ef til vill er maður bara fallinn á tíma en þrátt fyrir smá af aukahlutum þá var sett Auðnar afskaplega litlaust. Norskíslenskur svartmálmur þeirra, sem virðist rækilega fastur í miðjum tíunda áratug síðustu aldar, hljómaði ekki illa en það vantaði alla orku hjá þeim.

mord

Á eftir Auðn stigu Morð á svið með einhverslags blöndu af djöflarokki og harðkjarna. Líkmálning. Gaddar. Gervileður. Ágætis skemmtun sem Morð skilaði af sér og mikil reiði í gangi. Söngvarinn arkandi um á meðal áhorfenda öskrandi á þá og áhorfendurnir öskrandi á hann til baka. Það vantaði samt allt bit í þetta og mér leið á stundum eins og ég væri staddur á harðkjarna-tónleikum í TÞM og beið eiginlega eftir því að söngvarinn myndi láta vita af síma sem hefði fundist á gólfinu á milli einhverra laganna.

norn

Þriðja sveit á svið var svo svartpönksveitin Norn. Maður býst einhvern veginn við einhverju afskaplega hráu og kraftlausu þegar að svartpönki kemur. Augljóslega eru þetta fordómar af minni hálfu, en Norn er á góðri leið með að jarða þá. Norn var sterkasta bandið þetta kvöldið þó svo að Morð hafi nartað aðeins í hæla þess.

dynfari

Dynfari lokaði svo kvöldinu en því miður náði ég nú bara byrjuninni hjá þeim áður en ég þurfti að hverfa á brott. Það sem heyrðist var þó mikil framför frá því sem áður hefur heyrst frá þeim, hvort sem er á skífu eða á sviði. Ég held að þeir séu loksins að verða það sem ég vonaðist til að þeir yrðu þegar ég heyrði fyrst í þeim.

Það virðist eitthvað vera að gerast í djöflarokkinu þessi misseri og verður gaman að sjá hvernig tónleikar Sinmara, Gone Postal og Svartadauða verða næsta föstudag á Cafe Amsterdam.

carpe noctem vs. when comes the vinyl version?

mynd: rakel erna skarphéðinsdóttir, fengin af fésbókarsíðu sveitarinnar texti: eyvindur gauti
mynd: rakel erna skarphéðinsdóttir, fengin af fésbókarsíðu sveitarinnar
texti: eyvindur gauti

Nærri því tveir mánuðir eru nú liðnir frá útgáfu In Terra Profugus, fyrstu skífu svartmálmssveitarinnar Carpe Noctem í fullri lengd. Skífa sú var útgefin af ítalska plötufyrirtækinu Code666 og hefur verið að hlaða niður góðum dómum í erlendum vefritum á borð við Heathen Altar, Dead Rhetoric og Cvlt Nation. Það vill oft gerast að fyrstu viðbrögð við útgáfu geisladisks að spyrja hvenær vínillinn lendi í kjölfarið.

when comes the vinyl version?

Fyrir nokkrum dögum kom svo svarið við þeirri spurningu. Pólska útgáfan Hellthrasher Productions mun annast vínilútgáfuna sem væntanleg er á fyrri helmingi næsta árs. Vínilþyrstir Íslendingar geta því tekið gleði sína og ef þeir hafa ekki útvegað sér Flesh Cathedral vínil Svartadauða nú þegar ættu þeir kannski að drífa sig í því.

Að lokum má nefna að hljómsveitinni hefur í þokkabót hlotnast einhver sá mesti heiður sem hljómsveitum getur á annað borð hlotnast en það tók sig einhver til um daginn og skellti allri plötunni á Þúvarpið. Án efa eru fáar viðurkenningar eins mikils virði.

hvað á maður að hlusta á í slydduroki?

breytarinn
mynd: heldriver, fengin af fésbókarsíðu breytarans
texti: eyvindur gauti

Það er smá rok úti og fólk lætur óánægju sína í ljós á samfélagsmiðlum. Hvað er því annað hægt að gera en að skella einni plötu með Immortal á fóninn? Andfari spurði því Kristján (aka Breytarann), trommara Kontinuum, hvaða Immortal plötu hann mælti með. Hlutirnir fóru ekki alveg eins og þeir áttu að fara…

Kristján: Ég hef reyndar aldrei verið mikill Immortal maður, en Sons of Northern Darkness þykir mér alveg frábær, og fólk ætti að hlusta sem oftast á hana. Hins vegar er mun meira við hæfi að hlusta á Vetur þegar svona viðrar.

heimsfrægð blasir við vintage caravan

vintage

Já, svo virðist vera sem heimsfrægðin bíði síkadelíurokkarana í Vintage Caravan í ofvæni. Það er ekki nóg fyrir þá að þeir séu bókaðir á eina kvltuðustu tónlistarhátíð meginlandsins, Roadburn, og að Nuclear Blast, ein stærsta þungarokksútgáfa í heimi, hafi boðið þeim samning. Nei, heimsyfirráð eru þeirra plan og þú nærð því ekkert fram ef þú birtist ekki í erlendum fjölmiðlum.

Stutt viðtal við hljómsveitina er einmitt að finna í breska tónlistartímaritinu Iron Fist þar sem hún lýsir áætlunum sínum og, eins og sjá má hér að ofan, eru þetta menn með skýr markmið. Þeir eru reiðubúnir að spila fyrir fólkið, halda á sínum eigin hljóðfærum og passa upp á að engum verði kalt. Gull af mönnum greinilega. Aðalspurningin hlýtur þó auðvitað að vera: eru Vintage Caravan að segja okkur að rokkstjörnur geta ekki fengið á broddinn án þess að borga fyrir það?

Þar til það kemur allt í ljós getiði iljað ykkur við áhorf á þessu myndbandi sem hljómsveitin gerði fyrir lagið Expand Your Mind.

black oath

blackoath
myndir: fengnar af fésbókarsíðu sveitarinnar
texti: eyvindur gauti

Það hafa kannski ekki margir hér á landi heyrt af ítölsku dómsdagsrokkurnum í Black Oath en þó hafa plötur þeirra rekið á fjörur okkar öðru hverju. Valdi í Geisladiskabúð Valda hefur verið duglegur að flytja inn efni sem er aðeins út á jaðrinum og oftar en ekki rekst maður á titla hjá honum sem maður bjóst alls ekki við að sjá hérna á skerinu.
Þannig byrjuðu kynni mín af hljómsveitinni næstum því, ég hafði heyrt ábreiðu þeirra af Ave Satanas með Acheron á netinu og alltaf ætlað að tékka á sveitinni en svo gleymdist það auðvitað eins og vill gerast í netflóðinu. Það var því ekki fyrr en ég rakst á The Third Aeon hjá Valda að ég kom mér í að klára það sem ég hafði lengi ætlað að byrja á, ég keypti skífuna og í kjölfarið sendi ég örfáar spurningar á hljómsveitina og auðvitað byrjaði ég á því að spyrja út í Acheron ábreiðuna, hvernig það hefði komið til að þeir ákváðu að taka þetta lag með þessum alræmdu amerísku satanistum og gera sína eigin útgáfu.

BO: Við vildum finna eitthvað sem var ólíkt okkar stíl, við hlustum allir á allskonar tónlist, og töldum tónlist Acheron mjög frumlega og eitthvað sem gæti verið gaman að gera eitthvað með. Svo virðist sem margir séu sammála okkur, lagið kom mjög vel út og við eru mjög stoltir af því.

A: Þið virðist nú vera óhræddir við að útsetja lög annara á ykkar eigin máta en hvað kemur til að þær ábreiður sem þið hafið gert hingað til hafa eingöngu endað á vínilútgáfum ykkar?
BO: Trúðu mér, það er algjör tilviljun. Kannski það gleðji þig að heyra að við höfum nú þegar tekið upp enn eina ábreiðuna og hún verður á geisladisk sem gefinn verður út á næsta ári. Við getum nú ekki sagt meira um málið að svo stöddu annað en að lagavalið mun koma fólki mjög á óvart.

blacko

A: Nú eruði samningsbundnir tveimur fyrirtækjum, sænska útgáfan I Hate Records sér um útgáfu á geisladiskum og svo sér danska útgáfan Horror Records um vínilútgáfur. Hvað kom til að sá háttur var hafður á?
BO: Það var nú bara svo að við vorum að vinna í samningum við annað fyrirtæki þegar að Horror sendi á okkur fyrirspurn og bauð okkur að sjá um vínilútgáfur okkar. En þar sem við áttum í vandræðum með hitt útgáfufyrirtækið sendum við prómó til I Hate og þeir buðu okkur samning í kjölfarið. Okkur finnst þetta mjög þægilegt fyrirkomulag og bæði plötufyrirtækin leggja hart að sér í að koma okkur á framfæri.

A: Þið eruð ein af þeim fáu hljómsveitum sem ég veit um sem gefa ennþá út efni sitt á kassettum. Hvers vegna?
BO: Hvers vegna ekki? Við ólumst upp við að hlusta á kassettur, svo fórum við í vínilinn og geisladiskana. Okkur þykja allir miðlar (fyrir utan rafrænt niðurhal) áhugaverðir á sinn hátt og svo skipta umgjarðirnar miklu máli. Mér finnst ennþá skemmtilegt að skoða kápurnar á kassettunum, það er bara eitthvað við þær. Kannski maður sé bara svona gamall í hettunni…

A: Að lokum er kannski við hæfi að spyrja ykkur eitthvað aðeins út í áhrifavalda ykkar. Hvaðan fáiði helstu áhrif ykkar? Djöfullinn virðist ráða ríkjum hjá ykkur svo þá er nauðsynlegt að spyrja um það hversu mikið hann á við nú til dags. Er ekki hálf tilgangslaust að tilbiðja djöfullinn 2013?
BO: Áhrif okkar koma víðsvegar frá, úr tónlist, kvikmyndum, málverkum, hjátrú sem og úr öðru.
Þegar að Djöflinum kemur get ég sagt þér að þarna erum við komin inn á afskaplega skemmtilegt en einnig víðfemt umræðuefni. Djöfullinn er allstaðar, við þurfum bara að uppgvötva hans mörgu andlit.
Þegar að þessu kemur er ég þó afskaplega mótfallinn bjórmetal hljómsveitum sem syngja um Satan og blanda honum saman við bjór, partý og bræðralag Metalhausa. Það er ekkert fyndið við Djöfulinn. Njótið myrkursins og tilbiðjið mikilfengleika þess.

Svona fyrir áhugasama þá sá ég glitta í eintak af nýjustu skífu Black Oath hjá Valda síðast þegar ég lagði leið mína þangað. Það er því aldrei að vita nema það bíði þarna ennþá eftir þér.

Heimasíða hljómsveitarinnar

sögufræg smáskífa mare endurútgefin

mare

Smáskífa norsku svartrokkssveitarinnar Mare, Spheres Like Death, sem upprunalega kom út í lok árs 2010, hefur nú verið endurútgefin af norsku útgáfunni Terratur Possessions á vínil. Þessu útgáfa er auk þess með Throne of the Thirteenth Witch en sú smáskífa, sem kom út 2007, seldist upp fljótlega eftir útgáfu og var afskaplega erfitt að nálgast hana þar til fyrr á þessu ári þegar hún var endurútgefin á geisladisk af sama fyrirtæki. Hljóðdæmi má nálgast hér.

Annað hljóð, önnur uppsetning, þar er býst ég við ekki hægt að ætlast til þess að allt sé eins og áður var. Í stað þess er um að gera að láta eftir vínilblæti sínu þarna og ef til vill ögn meira því svo virðist sem Terratur hafi einnig endurútgefið fjórða demo norsku hljómsveitarinnar Knokkelklang á vínil, en kassettan kom út fyrr á þessu ári. Hljóðdæmi má nálgast hér.