beastmilk vs. metallica

mynd: guðný thorarensen, fengin af fésbókarsíðu sveitarinnar
mynd: guðný thorarensen, fengin af fésbókarsíðu sveitarinnar

Finnska síð-pönkssveitin Beastmilk, sem hefur fengið góða dóma fyrir Climax, sína fyrstu breiðskífu, mun koma fram á Sonisphere í Englandi ásamt m.a. Metallica, Alice in Chains og Mastodon. Bretar virðast taka vel í tóna Beastmilk því hljómsveitin er meðal þeirra sem enska þungarokkstímaritið Metal Hammer tilnefna sem eina af bestu minna þekktu hljómsveitum ársins. Erfiður flokkur er sá því hljómsveitin keppir við Alcest, Deafheaven, Scorpion’s Child og Wardruna. Viljir þú styðja Beastmilk eða einhverra hinna hljómsveitanna smelltu þá á þennan hlekk.

Stutt er í að Evrópureisa sveitarinnar með Doomriders og Herder hefjist en í fyrripart maí munu hljómsveitirnar ferðast um meginlandið og breiða út boðskap harðkjarna, heimsenda og rokk & róls. Nokkrar tónleikahátíðir verða einnig fyrir barðinu á Beastmilk í sumar en fyrir utan áðurnefnda Sonisphere þá mun hljómsveitin meðal annars koma fram á Wave Gotik Treffen og Hell’s Pleasure í Þýskalandi, Tuska í Finnlandi og svo Slottsfjell í Noregi.

Heimasíða Beastmilk
Heimasíða Svart

naðra

nadra

Eitthvað virðist vera í loftinu núna því svo virðist vera sem í hverjum mánuði berast fréttir af nýjum svartrokkshljómsveitum hér á landi. Áður fyrr var hægt að telja þær á fingrum annarrar handar en svo virðist vera sem að leikar séu að æsast, að mikil gróska sé núna í gangi, og fréttir af væntanlegum útgáfum berast í sífellu.
Ein af þeim hljómsveitum sem nú eru að koma fram á sjónarsviðið er Naðra, en þrátt fyrir að vera ung að aldri þá er hún skipuð reynsluboltum sem víða hafa komið við. 

Hverjir eru í Nöðru, úr hvaða hljómsveitum (ef einhverjum) komiði og hvenær byrjaði þetta hjá ykkur?
Við erum þrír, tveir okkar skiptast á söng og strengjahljóðfærum og annar sér um slagverk. Við erum allir vanir þungarokki og höfum spilað í hljómsveitum á borð við Abacination, Dysthymia og Carpe Noctem. Grunnurinn af hljómsveitinni var lagður 2008 um það leiti sem Dysthymia var að leysast upp. Í langan tíma var hljómsveitin nafnlaus með engar áætlanir um að spila tónleika. Það var ekki fyrr en veturinn 2013 sem við höfðum aðstöðu til að æfa og taka upp og hlutirnir fóru að gerast hraðar. Við tókum upp nafn, fengum trommara til liðs við okkur og fórum að huga að útgáfu.

Hvað kom til að Naðra varð til og hverjir eru helstu áhrifavaldar ykkar?
Aðstæður þess tíma, við vildum spila hefðbundnari svartmálm sem við gátum gleymt okkur í. Við drögum áhrif frá umhverfinu í kringum okkur og upplifun okkar á heiminum. Óveðrið og jaðaraðstæðurnar sem myndast hérna, að ég tali nú ekki um ömurleikann sem fylgir því að vinna í fisk. Tónlistarlega séð væri hægt að nefna allt frá Iron Maiden yfir í Zero Kama, en sá samanburður myndi sennilega ekki gagnast neinum.

Hvað er á dagskrá hjá ykkur á næstunni?
Eitur var að koma út á kassettu út í gegnum nýtt íslenskt útgáfufyrirtæki sem ber nafnið Vánagandr og er fáanlegt frá okkur. Eftir það stefnum við að tónleikahaldi ásamt því að leggja lokahönd á plötuna okkar.

Heimasíða Nöðru

watain að eilífu eða að eilífu watain

watain

Sumir segja að heimurinn skiptist í tvær fylkingar, þá sem telja sig aðdáendur sænsku djöflarokkarana í Watain og þá sem telja sig ekki aðdáendur þeirra. Teljir þú þig til aðdáenda þeirra getur þú glaðst mikið nú því norska ofsarokksritið Imhotep hefur gefið út fimmtíu og tveggja síðan tölublað sem fjallar eingöngu um Watain á mismunandi tímum ferils hljómsveitarinnar.

Blaðið má nálgast með því að smella hlekkinn hér fyrir neðan, en auk þess að innihalda efni af vefsíðu Imhoteps og eldri tölublöðum er þarna að finna umfjöllun úr Slayer Magazine en maðurinn á bakvið það blað, Metalion, hefur verið þekktur fyrir það að kafa djúpt ofan í viðfangsefni sín. Þarna ætti því að vera nóg af góðmeti fyrir aðdáendur Watain að finna.

Watain í Imhotep

Heimasíða Watain
Heimasíða Century Media

vanhelga streyma eilífur ótti

vanhelga

Veistu ekkert hvað þú átt að gera af þér í dag? Saknar þú Lifelover og annarra þunglyndra Svía? Heppnin er með þér því norska þungarokksvefsíðan Eternal Terror er með lag í gangi í spilaranum með sænsku hljómsveitinni Vanhelga en hún inniheldur nokkra meðlimi úr Lifelover, þeirri alræmdu hljómsveit.

Stutt er í þriðja breiðskífa Vanhelga, Längtan, komi út á vegum þýsku útgáfunnar Art of Propaganda, þannig að ef þér hefur liðið eins og eitthvað hafi vantað í líf þitt síðan Lifelover hvarf af sjónarsviðinu endilega skelltu þér fyrir á Eternal Terror og hlustaðu á Vanhelga.

Upprunaleg frétt á Eternal Terror

Heimasíða Vanhelga
Heimasíða Art of Propaganda

jess and the ancient ones huga að framtíðinni

jessandtheancientones

Dulspekirokkararnir í Jess and the Ancient Ones virðast aftur vera komnir á ról því fréttir hafa borist að hljómsveitin sé byrjuð að vinna í nýrri plötu. Eftir lof það sem hljómsveitin hlaut fyrir samnefndan frumburð sinn sem kom út 2012 og svo Astral Sabbat smáskífuna sem kom út í fyrra ríkir mikil spenna fyrir nýrri útgáfu frá sveitinni.

Hljómsveitin stefnir á að taka upp plötuna í haust og þó nákvæm tímasetning sé ekki komin á útgáfudaginn þá er stefnan sett á útgáfu í byrjun næsta árs. Hafir þú ekki áhuga á að bíða þangað til, eða langi að sjá Jess og félaga á sviði, þá er hljómsveitin að spila á Beyond the Gates í Bergen ásamt Sinmara, Sonne Adam, Primordial og fjölda annarra hljómsveita.

Heimasíða Jess and the Ancient Ones
Heimasíða Svart

angist

mynd: jose carlos santos, fengin af fésbókarsíðu sveitarinnar
mynd: jose carlos santos, fengin af fésbókarsíðu sveitarinnar

Dauðarokkið hefur fylgt okkur Íslendingum í næstum aldarfjórðung og til þess að halda upp á það ætlar Andfari, á næstu vikum, að spjalla við nokkrar af þeim íslensku dauðarokkssveitum sem nú eru í gangi.
Angist hefur verið mikið í sviðsljósinu síðustu misseri en hljómsveitin hefur verið dugleg að koma tónlist sinni á framfæri á sem flestum stöðum. Það er eitthvað sem fleiri íslenskar hljómsveitir mættu gera meira af, of mikið af íslenskri tónlist sem nær ekki eyrum fjöldans.
Gyða Hrund Þorvaldsdóttir, gítarleikari Angistar, varð fyrir svörum og sagði okkur hvað væri að gerast í herbúðum sveitarinnar þessa dagana.

Hvað er að frétta úr herbúðum Angistar þessa dagana? Hvenær er platan ykkar væntanleg?
Við erum bara rosa hress. Við erum á leiðinni til Portúgal í lok mánaðarins að spila á SWR Barroselas hátíðinni þar sem Gorguts, Misery Index, Bölzer og fleiri koma fram svo við erum mjög spennt fyrir því.
Þegar við komum heim munum við leggjast í það að klára plötuna okkar og mun hún koma út á þessu ári.
Svo er gaman að segja frá því að Hammerheart Records mun gefa út EP-ið okkar, Circle of Suffering, á vínyl núna í júní og erum við mjög spennt fyrir því.

“Cirle Of Suffering” contains five killer tunes together with “Promo 2010” to expand this into a full length LP. This vinyl co-operation might be the start of a longer co-operation.
– tekið af heimasíðu Hammerheart Records

Nú er stutt í að hljómsveitin leggi land undir fót og komi fram á tónleikahátíð í Portúgal. Hvernig kom það til að ykkur var boðið á hátíðina og hvernig leggst þetta í ykkur?
Já þetta leggst mjög vel í okkur og er alltaf gaman að fara út að spila. Beneath spilaði þarna árið 2013 og er það blaðamaðurinn José Carlos Santos sem er með tengsl við þessa hátíð og hefur verið að benda skipuleggjendum hátíðarinnar á íslensk bönd. Það er mjög gaman að vera boðið að spila á svona stórri hátíð.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem að Angist kíkir út fyrir landssteinanna og hljómsveitin var ekki gömul þegar hún kíkti fyrst út. Hvaðan kemur þessi þörf ykkar að sigra heiminn og er meira af slíku á döfinni hjá ykkur?
Já við fórum á túr um Frakkland haustið 2011, spiluðum á Desertfest í London í fyrravor og fórum svo á Ferðin til Heljar túrinn í sumar.
Okkur finnst bara virkilega gaman að komast út og spila fyrir nýjan hóp og koma tónlistinni okkar til fleiri áheyrenda. Við höfum verið mjög heppin með að fá mikið af skemmtilegum tilboðum og við reynum að grípa þau sem flest.

Þið spiluðuð á síðasta Eistnaflugi og verðið líka nú í ár. Ég tók eftir því að þið voruð mjög dugleg við að kynna hljómsveitina fyrir erlendu blaðamönnunum sem heimsóttu hátíðina sem og að segja þeim frá senunni hérna. Hversu mikilvægt finnst þér þessi kynning vera fyrir hljómsveitina og finnst þér íslenskar hljómsveitir vera nógu duglegar að koma sér á framfæri við þá erlendu fjölmiðla sem heimsækja hátíðina?
Eistnaflug er eitt besta tækifæri sem íslenskar hljómsveitir fá til þess að kynna sig fyrir erlendum blaðamönnum og koma sér á framfæri. Stebbi og Guðný eru frábær að standa í þessu og eigum við í Angist Eistnaflugi mikið að þakka og við erum ótrúlega spennt fyrir því að koma fram á Eistnaflugi í sumar!!
Við höfum alltaf lagt mikið uppúr því að vera með góðan promo pakka enda myndi maður telja að það sýni að hljómsveitin hafi metnað fyrir því sem það er að gera. Svo hafa blaðamenn verið duglegir að hafa samband við okkur fyrirfram og biðja um viðtöl sem er bara mjög gaman og þá auðvitað nýtir maður tækifærið og kemur senunni á framfæri eftir bestu getu.

Í framhaldi af því langar mig að spyrja út í möguleg áhrif sem samvinna Eddu með Skálmöld hefur haft á viðtökur fólks á Angist. Hefur nafn hljómsveitarinnar borist víðar og þá ef til vill á staði þar sem dauðarokkið væri án efa sjaldséður gestur?
Við höfum án efa fengið tækifæri til að spila fyrir fjölbreyttari hóp en við gerum vanalega með því að spila með Skálmöld og eftir tónleika með þeim hefur fólk komið til okkar og verið forvitið um þessa tegund tónlistar. Svo fór myndbandið með Skálmöld og Sinfó ansi víða og vakti Edda auðvitað mikla athygli þar.

Hvernig lýst þér á dauðarokkssenuna sem er núna í gangi? Eða er kannski engin sena?
Dauðarokkssenan erlendis er að verða stærri aftur en kannski ekki alveg eins dauðarokk og í gamla daga en það er bara gaman að fá fjölbreytileikann. Þróunin núna er að fólk er að blanda saman allskonar stílum og er það mjög áhugavert að fylgjast með því. Svo eru gömlu böndin mörg með comeback núna og svona. Það er allt að gerast og pláss fyrir alla, er það ekki?
Hérna á Íslandi eru alltaf einhver dauðarokksbönd og núna eru til dæmis Severed Crotch að vakna aftur til lífsins.
Það væri gaman að fá meira af ungum krökkum á tónleika og fleiri staði jafnvel sem væru til í að hafa dauðarokkstónleika og eru með almennilegar græjur. Við eru einmitt að fara að spila á föstudaginn á fjáröflunartónleikum á Gauknum til þess að gera staðinn að betri tónleikastað, frábært framtak og við hvetjum alla til að mæta!

Að lokum langar mig að spyrja að því hvaða dauðarokksplata það er sem mest áhrif hefur haft á þig og hvers vegna?
Oh þetta er alltaf svo erfið spurning… Það eru tvær dauðarokksplötur sem ég hef hlustað alveg ótrúlega mikið á í gegnum tíðina og er það Human með Death og Despise the Sun með Suffocation. Þær eru alltaf klassískar. Og svo Decapitated líka.. já ok það er ekkert hægt að segja bara eina plötu en Death á alltaf sérstakan stað.

Heimasíða Angistar
Heimasíða Hammerheart

dark buddha rising flytja inná neurot recordings

mynd: maija lahtinen, fengin af fésbókarsíðu sveitarinnar
mynd: maija lahtinen, fengin af fésbókarsíðu sveitarinnar

Finnsku dómsdagsrokkararnir í Dark Buddha Rising virðast hafa yfirgefið gjöfular lendur Svart Records og samið við Neurot Recordings, en það fyrirtæki þekkja eflaust einhverjir í gegnum útgáfur þeirra með listamönnum á borð við Steve Von Till, Scott Kelly og Amber Asylum.

Aðspurðir segjast meðlimir sveitarinnar vera mjög ánægðir með samninginn og í svipaðan streng tekur fyrirtækið sem segist hlakka til þess að starfa með hljómsveitinni og koma list hinnar dökku síkadelíu til sem flestra.

Áhugasömum gefst tækifæri að sjá þá á meginlandinu á komandi vikum en því miður hefur ekkert heyrst af mögulegum tónleikum þeirra hér á landi.

Heimasíða Dark Buddha Rising
Heimasíða Neurot Recordings