heimsfrægð blasir við vintage caravan

vintage

Já, svo virðist vera sem heimsfrægðin bíði síkadelíurokkarana í Vintage Caravan í ofvæni. Það er ekki nóg fyrir þá að þeir séu bókaðir á eina kvltuðustu tónlistarhátíð meginlandsins, Roadburn, og að Nuclear Blast, ein stærsta þungarokksútgáfa í heimi, hafi boðið þeim samning. Nei, heimsyfirráð eru þeirra plan og þú nærð því ekkert fram ef þú birtist ekki í erlendum fjölmiðlum.

Stutt viðtal við hljómsveitina er einmitt að finna í breska tónlistartímaritinu Iron Fist þar sem hún lýsir áætlunum sínum og, eins og sjá má hér að ofan, eru þetta menn með skýr markmið. Þeir eru reiðubúnir að spila fyrir fólkið, halda á sínum eigin hljóðfærum og passa upp á að engum verði kalt. Gull af mönnum greinilega. Aðalspurningin hlýtur þó auðvitað að vera: eru Vintage Caravan að segja okkur að rokkstjörnur geta ekki fengið á broddinn án þess að borga fyrir það?

Þar til það kemur allt í ljós getiði iljað ykkur við áhorf á þessu myndbandi sem hljómsveitin gerði fyrir lagið Expand Your Mind.

black oath

blackoath
myndir: fengnar af fésbókarsíðu sveitarinnar
texti: eyvindur gauti

Það hafa kannski ekki margir hér á landi heyrt af ítölsku dómsdagsrokkurnum í Black Oath en þó hafa plötur þeirra rekið á fjörur okkar öðru hverju. Valdi í Geisladiskabúð Valda hefur verið duglegur að flytja inn efni sem er aðeins út á jaðrinum og oftar en ekki rekst maður á titla hjá honum sem maður bjóst alls ekki við að sjá hérna á skerinu.
Þannig byrjuðu kynni mín af hljómsveitinni næstum því, ég hafði heyrt ábreiðu þeirra af Ave Satanas með Acheron á netinu og alltaf ætlað að tékka á sveitinni en svo gleymdist það auðvitað eins og vill gerast í netflóðinu. Það var því ekki fyrr en ég rakst á The Third Aeon hjá Valda að ég kom mér í að klára það sem ég hafði lengi ætlað að byrja á, ég keypti skífuna og í kjölfarið sendi ég örfáar spurningar á hljómsveitina og auðvitað byrjaði ég á því að spyrja út í Acheron ábreiðuna, hvernig það hefði komið til að þeir ákváðu að taka þetta lag með þessum alræmdu amerísku satanistum og gera sína eigin útgáfu.

BO: Við vildum finna eitthvað sem var ólíkt okkar stíl, við hlustum allir á allskonar tónlist, og töldum tónlist Acheron mjög frumlega og eitthvað sem gæti verið gaman að gera eitthvað með. Svo virðist sem margir séu sammála okkur, lagið kom mjög vel út og við eru mjög stoltir af því.

A: Þið virðist nú vera óhræddir við að útsetja lög annara á ykkar eigin máta en hvað kemur til að þær ábreiður sem þið hafið gert hingað til hafa eingöngu endað á vínilútgáfum ykkar?
BO: Trúðu mér, það er algjör tilviljun. Kannski það gleðji þig að heyra að við höfum nú þegar tekið upp enn eina ábreiðuna og hún verður á geisladisk sem gefinn verður út á næsta ári. Við getum nú ekki sagt meira um málið að svo stöddu annað en að lagavalið mun koma fólki mjög á óvart.

blacko

A: Nú eruði samningsbundnir tveimur fyrirtækjum, sænska útgáfan I Hate Records sér um útgáfu á geisladiskum og svo sér danska útgáfan Horror Records um vínilútgáfur. Hvað kom til að sá háttur var hafður á?
BO: Það var nú bara svo að við vorum að vinna í samningum við annað fyrirtæki þegar að Horror sendi á okkur fyrirspurn og bauð okkur að sjá um vínilútgáfur okkar. En þar sem við áttum í vandræðum með hitt útgáfufyrirtækið sendum við prómó til I Hate og þeir buðu okkur samning í kjölfarið. Okkur finnst þetta mjög þægilegt fyrirkomulag og bæði plötufyrirtækin leggja hart að sér í að koma okkur á framfæri.

A: Þið eruð ein af þeim fáu hljómsveitum sem ég veit um sem gefa ennþá út efni sitt á kassettum. Hvers vegna?
BO: Hvers vegna ekki? Við ólumst upp við að hlusta á kassettur, svo fórum við í vínilinn og geisladiskana. Okkur þykja allir miðlar (fyrir utan rafrænt niðurhal) áhugaverðir á sinn hátt og svo skipta umgjarðirnar miklu máli. Mér finnst ennþá skemmtilegt að skoða kápurnar á kassettunum, það er bara eitthvað við þær. Kannski maður sé bara svona gamall í hettunni…

A: Að lokum er kannski við hæfi að spyrja ykkur eitthvað aðeins út í áhrifavalda ykkar. Hvaðan fáiði helstu áhrif ykkar? Djöfullinn virðist ráða ríkjum hjá ykkur svo þá er nauðsynlegt að spyrja um það hversu mikið hann á við nú til dags. Er ekki hálf tilgangslaust að tilbiðja djöfullinn 2013?
BO: Áhrif okkar koma víðsvegar frá, úr tónlist, kvikmyndum, málverkum, hjátrú sem og úr öðru.
Þegar að Djöflinum kemur get ég sagt þér að þarna erum við komin inn á afskaplega skemmtilegt en einnig víðfemt umræðuefni. Djöfullinn er allstaðar, við þurfum bara að uppgvötva hans mörgu andlit.
Þegar að þessu kemur er ég þó afskaplega mótfallinn bjórmetal hljómsveitum sem syngja um Satan og blanda honum saman við bjór, partý og bræðralag Metalhausa. Það er ekkert fyndið við Djöfulinn. Njótið myrkursins og tilbiðjið mikilfengleika þess.

Svona fyrir áhugasama þá sá ég glitta í eintak af nýjustu skífu Black Oath hjá Valda síðast þegar ég lagði leið mína þangað. Það er því aldrei að vita nema það bíði þarna ennþá eftir þér.

Heimasíða hljómsveitarinnar

sögufræg smáskífa mare endurútgefin

mare

Smáskífa norsku svartrokkssveitarinnar Mare, Spheres Like Death, sem upprunalega kom út í lok árs 2010, hefur nú verið endurútgefin af norsku útgáfunni Terratur Possessions á vínil. Þessu útgáfa er auk þess með Throne of the Thirteenth Witch en sú smáskífa, sem kom út 2007, seldist upp fljótlega eftir útgáfu og var afskaplega erfitt að nálgast hana þar til fyrr á þessu ári þegar hún var endurútgefin á geisladisk af sama fyrirtæki. Hljóðdæmi má nálgast hér.

Annað hljóð, önnur uppsetning, þar er býst ég við ekki hægt að ætlast til þess að allt sé eins og áður var. Í stað þess er um að gera að láta eftir vínilblæti sínu þarna og ef til vill ögn meira því svo virðist sem Terratur hafi einnig endurútgefið fjórða demo norsku hljómsveitarinnar Knokkelklang á vínil, en kassettan kom út fyrr á þessu ári. Hljóðdæmi má nálgast hér.

styttist óðum í nýja hamferð

mynd: jan egil kristiansen - tekin af fésbókarsíðu hljómsveitarinnar
mynd: jan egil kristiansen – tekin af fésbókarsíðu hljómsveitarinnar

Óðum styttist nú í að Evst, fyrsta plötu færeysku sveitarinnar Hamferð, rati út fyrir eyjarnar. Smáskífan Vilst er síðsta fet kom út fyrir þremur árum og fólk því orðið óþolinmótt eftir nýju efni. 15 október kemur platan út á heimsvísu en til þess að kæla fólk niður skellti Plátufélagið Tutl Deyðir varðar á netið í gær, áður hafði hún sett titillagið á netið og má það nálgast hér.

witchtrap fastir í tímavél

witchtrap

Í byrjun næsta árs kemur út skífa þar sem hljómsveitirnar Witchtrap og Nunslaughter skipta sitthvorri hliðinni á milli sín. Eins og langflest annað sem Nunslaughter kemur nálægt þessa dagana er þetta á vegum Hells Headbangers útgáfunnar amerísku. Witchtrap liðar hafa því ákveðið að gefa okkur smá forsmekk af því sem koma skal og kunnum við aðdáendur klassísks þrassarokks þeim miklar þakkir fyrir. Það má svo sem deila um textasmíðar þeirra en húmorinn virðast þeir hafa í lagi.

þrjúbíó með kimi kärki

kimi karki - photo small

Í dag tilkynnti finnska útgáfan Svart Records að fimmta desember kæmi út fyrsta útgáfa Kimi Kärki þar sem hann er að mestu einn á báti. Áður hefur hann gefið út efni í slagtogi með öðrum í hljómsveitum eins og Reverend Bizarre og Lord Vicar. Á „The Bone of My Bones“ er ekki þá dómsdagstóna að finna sem Reverend Bizarre voru til dæmis þekktir fyrir heldur er um að ræða þjóðlagaskotna tónlist í anda Johnny Cash, Leonard Cohen og Neil Young.
Þrátt fyrir að vera að mestu einn síns liðs fær Kärki nokkra gesti til sín, þar á meðal Mat McNerney sem er þekktur fyrir verk sín í Hexvessel og fleiri góðum hljómsveitum.

Í tilefni þessa merka áfanga hefur Svart opinberað eitt lag af plötunni og er hægt að hlýða á það hér fyrir neðan.

rising streyma abominor

rising

Nei, hér er ekki um að ræða hina íslensku svartmálmssveit Abominor, sem afskaplega lítið hefur heyrst af síðustu misseri? Eigum við að gera ráð fyrir því að sú sveit sé undir græna torfuna komin? Nei, hér er um að ræða dönsku sveitina Rising sem í dag gaf út plötuna „Abominor“ undir merkjum plötufyrirtækisins Indisciplinarian í dag, en meðlimir sveitarinnar standa sjálfir á bakvið þá útgáfu. Plata sú er sögð innihalda hátt í fjörtíu mínútur af eðal rokki í anda hljómsveita á borð við Torche og Mastodon. Í tilefni þess ákváðu kapparnir að leyfa henni að rúlla í heilu lagi á vefsíðu The Obelisk en hægt er að kíkja á plötunni með því að ýta á þennan hlekk hér.

Fyrir áhugamenn um vínil má nefna það að „Abominor“ er fáanleg á hágæða hundrað og áttatíu gramma vínil en þó í takmörkuðu upplagi. Einungis þrjú hundruð eintök voru prentuð svo það er um að gera fyrir fólk að flýta sér ef það vill ekki missa af þessum gæðagrip.