viðtal: katla

Nýverið tilkynnti hljómsveitin Katla það að hún væri nú komin á mála hjá plötufyrirtæki. Það hefur ekkert verið gefið upp um hvaða plötufyrirtæki sveitin er komin hjá en þó sagði Guðmundur Óli Pálmason það, þegar ég spurði hann að því, að það væri ekkert svo langt í að það yrði gert opinbert. En hvernig kom það til að hljómsveitin ákvað að stíga stóra skrefið og skella sér á samning og hvers vegna?

Við áttum í samræðum við þrjú fyrirtæki og þetta bauð besta dílinn, ásamt því að vera fyrirtækið sem við höfðum hvað mest á ratarnum og og þekkjum vel í gegnum vinahljómsveitir. Það ásamt því að báðir aðilar eru á sömu blaðsíðu hvað varðar hugmyndafræði, konsept og texta er ekki síður mikilvægt en tónlistin sjálf. Hvers vegna? Vegna þess að það kostar ýkt mega mikinn pening að taka upp plötu ef vel á að vera og við eigum ekki þann pening í rassvasanum.

Zhrine

Mynd: Verði ljós

Inferno Metal Festival fer fram í höfuðborg Noregs tólfta til fimmtánda apríl næstkomandi. Þar mun Zhrine koma fram ásamt Svartadauða, Auðn og Kontinuum á sérstöku kvöldi tileinkuðu íslensku djöflarokki.

Já, ég veit ekki. Kontinuum er góð hljómsveit en djöflarokk er hún ekki. En já, við skulum ekki missa okkur í blaðri um stefnur og merkimiða. Frekar skulum við vinda okkur í þetta stutta viðtal sem ég tók við Nökkva, gítarleikara Zhrine, í tilefni þess að hljómsveitin kemur fram á Inferno.

Fyrir nokkrum árum hét Zhrine Gone Postal og spilaði frekar lítið. Tveimur nöfnum síðar skilar hljómsveitin af sér einni af betri dauðarokksplötum síðasta árs og túrar Bandaríkin og Kanada. Hvað gerðist eiginlega?

Einmitt af því að við spiluðum lítið á tónleikum gátum við eytt meiri tíma í að draga fram það besta í okkar sköpunarfærni. Það skilaði tilætluðu markmiði.

Hvernig kom það annars til að þið fóruð til Season of Mist og hvernig hefur samstarfið verið hingað til? Hvernig lýst þér á að SoM sé að breytast í smá Íslendinganýlendu?

Eftir að upptökuferli plötunnar Unortheta lauk áframsendum við hana á fólk sem við héldum að hefði áhuga. Hún virðist hafa ratað í réttar hendur. Samstarfið hefur gengið vel og hnökralaust hingað til.

Mér finnst þetta allt saman jákvætt.

Við hverju mega áhorfendur ykkar á Inferno búast og við hverju býst þú við af Inferno?

Áhorfendur mega búast við því að sjá Zhrine flytja útgefið efni í spariklæðum. Ég býst við skemmtilegri helgi ef svo fer að við dveljum auka daga í Osló. Það verður áhugavert að sjá Slagmaur flytja topplögin af Shelter. Vona að við verðum hýstir á Hotel Royal Christiania aftur. Mikil fagmennska þar.

Hér fyrir neðan má svo finna lista yfir allar þær hljómsveitir sem nú hafa verið tilkynntar á Inferno, eins og sést eru íslensku hljómsveitirnar ekki í slæmum hópi.

ABBATH
Gorgoroth
Carcass
Possessed
Samael
Venom Inc
Borknagar
Primordial
Red Harvest Official
Anaal Nathrakh
Crowbar
Svartidauði
Helheim
Insidious Disease
SLAGMAUR
Furze
Azarath
Deus Mortem
Whoredom Rife
Infernal War
SARKOM
Slegest
Kontinuum
ZHRINE
Pillorian
Tangorodrim
Hail Spirit Noir
Panzerfaust
Sulphur
Auðn
Slidhr
Darvaza
Whip
Nachash
Diabolus Incarnate
Age of Woe
Befouled
Heavydeath
Netherbird

infernoiceland

urðun

Næsta laugardag verður dauðarokksveisla á Gauknum en þá mun þýska hljómsveitin Carnal Tomb koma fram ásamt Urðun, Narthraal og Grave Superior. Andfarinn tók stöðuna á Skvaðvaldi, söngvara akureysku sveitarinnar Urðunar.

Hvað er að frétta af Urðun? Sömu meðlimir og síðast?

Það er eitt og annað að frétta af dónasveitinni, við erum að klára að púsla saman efni til viðbótar við það nýja sem er komið.

Það er enn í raun sama lænupp en við erum með afleysingar bassafant sem var trommari Dánarbeðs frá Akureyri á meðan Putrifier fer í einhverja slökun af sökum of mikillar dauðastirðnunar og afvötnun vegna heilsuspillandi ofdrykkju líksmurningsvökva! Einhverjar breytingar gætu samt átt sér stað við seinni hluta þessa árs, en það kemur allt í ljós með tíð og tíma.

Það er nú nokkuð langt síðan að Horror & Gore, demoið ykkar, kom út. Á ekkert að skella í aðra útgáfu?

Splitútgáfa er loksins að fara að sjá dagsins ljós eftir ýmsar haftranir. Einnig erum við að vinna í nýju efni sem kemur til að vera fyrir breiðskífu, ef allt gengur eftir óskum. Hún mun bera nafnið Terror From the Technothrone og fjallar um geimveru sombíjur sem koma til jarðar í gegnum ormagöng og ætla að borða mannkynið og nota það sem eldsneyti í þeirra endalausu og tilgangslausu ferð út fyrir endamörk og endaþarm alheimsins í leit af fórnalömbum til að gjöreyða! Hvað tónlistina varðar, hugsaðu ljótt óskilgetið ástbarn Nocturnus og Autopsy með nett gullið Tampa bay deathmetal tan eins og meðlimir Death og Deicide sportuðu.

En hvað með tónleika?

Næstkomandi hljómleikar eru 4.feb á Gauknum með Carnal Tomb, Grave Superior og Narthraal. Eftir það gerist lítið fyrr en 16.mars á Húrra þar sem við hitum upp fyrir Defiled og Blood Incantation, ásamt Sinmöru og Narthraal. Einnig eru einhverjar meldingar hvað tónleika erlendis varðar við Eystrasaltslöndin, en það eru bara spegúleringar og pælingar eins og er, ekkert staðfest, krossfest né deathfest.

Að lokum, vinsælasta dauðarokkið hjá Skaðvaldi í dag?

Vinsælasta dauðarokkið hjá Skaðvaldi í dag er ítalska partísveitin Haemophagus, sænska stálið General Surgery og danska drullan þekkt sem Undergang!

Carnal Tomb

Næsta laugardag verður dauðarokksveisla á Gauknum en þá mun þýska hljómsveitin Carnal Tomb koma fram ásamt Urðun, Narthraal og Grave Superior.

Carnal Tomb er ekki gömul hljómsveit, stofnuð í Berlín fyrir næstum þremur árum. Síðan þá hafa komið út tvö demó, ein safnspóla og breiðskífa, og ég held að það sé fínt að byrja á því að spyrja Marc, söngvara og gítarleikara Carnal Tomb, að því hvernig viðtökurnar hafa verið við plötunni, Rotten Remains.

Enn sem komið er hafa viðtökurnar verið mjög góðar. Platan hefur fengið góða dóma, það hefur bæst í áhagendahópinn og fólk hefur verið duglegt að mæta á tónleika okkar og kaupa plötuna og annan varning. En, við fengum þó einn slæman dóm um daginn. Svo virðist sem viðkomandi hafi fundist demóin okkar betri. Ég skil ekki af hverju.

Svo skemmtilega vill til að nafn hljómsveitarinnar er einnig nafn á lagi með hinni goðsagnakenndu sænsku dauðarokkssveit Dismember. Hvernig kom það til að meðlimir Carnal Tomb tóku slíku ástfóstri við dauðrokk gamla góða sænska skólans fram yfir aðrar stefnur sem þekktust í gamla dauðarokkinu?

Að mínu mati þá er mun meira að finna í okkar tónlist en bara gamla góða Stokkhólmshljóðið. Augljóslega tekurðu fyrst eftir HM-2 hljóðinu en ég tel að hjá okkur sé að finna áhrif víðar að, til dæmis frá Ameríku. Það er það sem ég fýla, að bæta riffum víðsvegar að við hinn feita HM-2 hljóm til þess að skapa okkar eiginn stíl.
Við erum að vinna núna í nýju efni og ég held að það eigi eftir að sjást betur en það gerði á fyrstu breiðskífu okkar.

Carnal Tomb er nú ekki eina hljómsveitin sem hefur skotið upp kollinum á síðustu árum og hyllt hina gömlu guði. Hverjar, af þeim sem hafa komið fram nýlega, eru í uppáhaldi hjá þér?

Mikið rétt, það er slatti af hljómsveitum núna í gangi. Ef ég þyrfti að nefna einhverjar þá myndi ég nefna Gravebomb, Witchvomit, Filthdigger og Gravestone.

Að lokum, hvernig komu tónleikarnir á Gauknum til og við hverju megum við búast við næsta laugardag?

Þorvaldur úr Urðun hafði samband við okkur og spurði okkur hvort við vildum koma fram á tónleikum sem hann var að skipuleggja. Að skipuleggja ferðina var aðeins meira mál en venjulega en þetta er allt að gerast! Við erum spenntir fyrir því að koma fram, að sjá hin böndin og að hitta íslenska dauðarokkara. Þetta verða fyrstu tónleikar okkar utan Þýskalands og í tilefni þess höfum við prentað boli sem verða til sölu þar (sjá mynd fyrir neðan).
Það má búast við hálsbrjótandi dauðarokki frá okkur!

carnaltombtshirt

viðtal: headless kross

Er allir búnir að jafna sig á Metallica? Er í lagi að kíkja á eitthvað annað núna?

Skoska dómsdagsmálmshljómsveitin Headless Kross gaf út sína aðra breiðskífu síðasta föstudag. Projections I kom út á vegum At War with False Noise og áhugasamir geta verslað skífuna þar eða bara beint af býli hjá hljómsveitinni. Ég hef ekki heyrt í mörgum skoskum dómsdagsmetalhljómsveitum og sendi því örfáar spurningar á hljómsveitina.

Mig langaði til dæmis að vita af hverju það væri “K” en ekki “C” í nafni hljómsveitarinnar, hvort það væri nokkuð vísun í skosku dauðarokkssveitina Korpse, en samkvæmt hljómsveitinni var það ekki svo.

Hljómsveitin heitir Headless Kross því Roddy félagi okkar, sem spilar í hljómsveitinni Thisclose, ætlaði að stofna hljómsveit og nefna hana Born Again, eftir Black Sabbath plötunni sem Ian Gillan söng inná. Um svipað leyti ákvað gítarleikarinn okkar, Tommy, að stofna hljómsveit og ákvað að nefna hana í höfuðið á annarri Black Sabbath plötu.

Ástæða þess að við erum með “K” en ekki “C” í “Kross” er einfaldlega sú að við vildum auðvelda fólki að finna hljómsveitina ef það leitaði af henni á Alnetinu.

En hafiði engar áhyggjur af því að einhverjir dæmi ykkur sem Black Sabbath eftirhermur út af nafninu?

Nei, fyrir utan riffin hljómum við ekkert eins.

Þið notuðust við James Plotkin, sem hefur unnið með hljómsveitum eins og Electric Wizard, Cruciamentum og Jesu, þegar að því kom að mastera plötuna, hvað kom til að þið leituðuð til hans?

Við höfum leitað til hans allt frá því að við tókum upp splittið með Lazarus Blackstar. Adam Stone, maðurinn á bakvið Head of Crom Records, fékk hann til þess að sjá um lögin okkar þar og við vorum það ánægðir með útkomuna að við höfum leitað til hans alla tíð síðan.

Plotkin hefur spilað með aragrúa hljómsveita í gegnum tíðina en hver er þín uppáhalds plata af þeim sem hann hefur spilað inná?

Ætli það væri ekki fyrsta breiðskífa Old Lady Drivers sem kom út 1988. Frábær plata.

Ég er alveg sammála því, “Colostomy Grab-Bag” er einmitt eitt af mínum uppáhalds lögum.

Projections I er hérna beint fyrir neðan og áhugasamir geta kíkt á frumburð O.L.D. með því að smella á þennan hlekk.

viðtal við bjarna úr churchhouse creepers varðandi spacefest

Næsta laugardag verður haldin tónlistarhátíð á Akureyri. Þar munu margar sveitir stíga á stokk og leika fjöruga, og dansvæna, tónlist fyrir áhugasama. Hvaða sveitir? Black Desert Sun. Churchhouse Creepers. KÁ-AKÁ. O’Bannion. Oni. Slor.

Mun ég mæta? Munt þú mæta? Þetta eru tvær mjög mikilvægar spurningar sem þarf að svara sem fyrst. Akureyri er bara bílferð í burtu fyrir okkur sem búum í Reykjavík og það er helvíti gott tjaldstæði rétt hjá tónleikastaðnum. En, áður en við pælum í slíku þá þurfum við að komast að því hvað Spacefest er, og því bið ég Bjarna nú um að tjá okkur allt um það.

Spacefest er tónlistarhátíð, sem haldin er í samstarfi við Akureyrastofu, með engin sérstök takmörk ætlað að færa færa smá líf í tónlistina hér á Akureyri. Þetta eru bara skemmtilegheit og fjör!

En af hverju Akureyri og hvað er annars að gerast á Akureyri í rokkinu?

Akkúrat af því að það er nákvæmlega ekkert að gerast í rokkinu á Akureyri. Það er alvarlegur skortur á rokkhátíðum hérna. Akureyri Rokkar var hérna í nokkur ár en komst aldrei á almennilegt skrið, aðallega vegna þess að þeir voru að skjóta of hátt og skakkt.

Ég fékk smá styrk frá Akureyrarstofu til þess að splæsa í bensín á böndin sem koma að sunnan og austan og við eru líka búnir að ráða myndavélamann og tökum bæði hljóð og mynd upp. Með Spacefest ætla ég að reyna að gera þetta að árlegum viðburði með því að vera með raunhæf markmið.

Verða þá engar erlendar hljómsveitir eða stór nöfn í framtíðinni? Verður eingöngu einblínt á grasrótina?

Grasrótin er í fyrirrúmi en það eru engin takmörk, hvorki með stærðir eða stefnur. Ég fékk til dæmis félaga minn KÁ AKÁ til þess að slútta kvöldinu en hann spilar swagy hip hop. Ef það er hægt að dansa við það þá á það erindi á Spacefest.

Þar sem Bjarni spilar í stónerrokksveitinni Churchhouse Creepers liggur þá bein við að spyrja hvort þetta verði nokkuð Fuzz Fest 2? Það verður ekki bara einblínt á stónerrokkið er það?

Þetta er engin glimmerhátíð, rokkið verður auðvitað í aðalhlutverki. En, að vill bara svo skemmtilega til að ég er auðvitað í langmestu sambandi við hin stónerböndin.

Ég hafði samband við hljómsveitir sem tilheyra ekki þessari stefnu en því miður komust þær ekki. Á næsta ári verður hátíðin bæði stærri og fjölbreyttari. Í ár verður hátíðin nefnilega haldin í nettasta venúi landsins, Kaktus, sem er listagallerý sem er rekið af ungu fólki og alltaf eitthvað ógeðslega nett í gangi þar. Sem tónleikastaður er þetta sveittur kjallari þar sem það þarf ekkert rosalega marga til þess að mynda góðan stemmara og ekki skemmir fyrir að þar er alltaf frítt inn og það má koma með sitt eigið áfengi.

í dag spjöllum við smá við hann þorstein kolbeinson, sem sér um wacken metal battle iceland, og kíkjum á hljómsveitirnar sem taka þátt í ár

Wacken Metal Battle Iceland hefur, næstum, verið fastur liður hér á hverju ári síðustu árin. Í gegnum þessa keppni hafa sveitir eins og Gone Postal (sem nú heitir Zhrine), Ophidian I og Beneath farið út til Þýskalands og spilað fyrir þúsundir hávaðaþyrsta þungarokksaðdáendur á Wacken Open Air. En, hvað er WMB og hvernig kom það til að þú, Þorsteinn K, byrjaðir í þessu?

WMB, eða W:O:A Metal Battle (eða Wacken Metal Battle) er alþjóðleg hljómsveitakeppni sem er haldin af Wacken Open Air þungarokkshátíðinni. Wacken er haldin fyrstu helgina í ágúst ár hvert í smábænum Wacken í Schlesvig Holsten fylki í Norður Þýskalandi. Keppnin hóf göngu sína 2004, þegar 6 hljómsveitir frá Þýskalandi kepptu en fyrstu 2 árin voru bara þýsk bönd í keppninni, þó að 5-6 erlendum sveitum hafi verið boðið að vera með sem gestasveitir. 2006 var keppnin svo útvíkkuð og gerð alþjóðleg fyrir alvöru og 7 þjóðir héldu undankeppnir í sínum löndum og sendu sigursveitir á Wacken. Síðan þá hefur þátttökuþjóðum fjölgað ár frá ári, þangað til að ekki var hægt að hafa fleiri þjóðir en 30 í keppninni, þ.e. einungis 30 slot á Wacken í boði. Þetta var árið 2011 og frá 2012 og síðan þá hefur bara bæst í hópinn og eru núna 42 þjóðir í “familíunni”. Það hefur aftur á móti þýtt að sumar þjóðir hafa þurft að sitja hjá, sem varð hlutskipti Íslands 2014. En, familían heldur áfram að stækka og heyrst hefur að Kúba muni senda hljómsveit á næsta ári. 🙂

Ég hef verið viðrinn Wacken lengur en lengstu menn muna… fór fyrst á hátíðina 1998 og svo aftur 2004 og þá voru svo margir íslendingar að fara að ég hóaði saman í hópferð, sem hefur svo verið farin á hverju ári síðan. Ég var farinn að taka eftir þessari Metal Battle keppni nokkuð snemma og sá hvernig hún var að stækka, og rétti bara upp hönd þarna eftir keppnina 2008 og spurði hvort að Ísland mætti vera með. Það var alveg auðsótt og 2009 var hlaðið í fyrstu keppnina hérna. Oh boy hvað það var gaman að taka þátt í þessu þarna fyrst og upplifa að íslensk hljómsveit var bókuð til þess að spila á Wacken Open Air. Holy Shit maður… Þetta var svona eiginlega fyrir eða í blábyrjun íslensku útrásarinnar í þungarokkinu og Sólstafir t.d. svona rétt að byrja að láta taka eftir sér. Þeir spiluðu þó 2010 á Wacken í fyrsta sinn, en ef frá er talinn Eiki Hauks sem kom fram með Artch á wacken í byrjun þessarar aldar, að þá var Beneath, sem vann keppnina 2009, fyrsta íslenska sveitin til að spila á hátíðinni.

Beneath kom einmitt fram núna í gær á Reykjavík Deathfest og voru það rosalegir tónleikar. Einnig var mjög gaman að sjá Gísla, fyrrum söngvara sveitarinnar, taka eitt lag þarna með henni. Menn hafa greinilega engu gleymt.
En, hverjir eru helstu kostir og gallar þess að standa í þessu?

Kostir: Að geta presenterað íslenskt þungarokk á The Cult Metal Festival heims, Wacken Open Air. Þetta er galin hátíð. Það selst alltaf upp á hátíðina daginn eftir að fyrri hátíð lýkur, og jafnvel þó að bara 5-10 sveitir séu staðfestar, og alveg án þess að þurfi risa-nöfnin í metalnum, eins og Metallica, Slipknot og það dót. Wacken er fyribæri. Wacken bærinn telur undir 2.000 íbúa og þegar 80.000 metalhausar þramma inn um bæjarmörkin á ári hverju er allur bærinn mættur út í garð, með borð og stóla, ömmur og afar í metalbolum með hornin á lofti, að hrópa WACKEN! á skrílinn keyrandi inn í bæinn með rúðurnar niðri og metalinn í botni. Að ótöldum öllum þeim bæjarbúum sem opna garðinn sinn og setja upp sinn eigin “beergarden” og matsölur við aðalgötu bæjarins. Andrúmsloftið á Wacken er engu líkt. Ég hef aldrei upplifað slagsmál á Wacken (nema einu sinni hjá fullum íslendingum í hópferðinni, haha).

Einnig er ótrúlega mikill partur af Wacken helginni orðinn að fá stóran fjölda af erlendu bransaliði til að tékka á íslensku þungarokki. Það er ekkert nema stór-ljómandi.

Gallar: Svakalega tímafrekt. Kostnaðarsamt.

Það kostar allt pening, Þorsteinn, sem maður vill gera vel. Talandi um það, eru WMB keppnirnar venjulega haldnar á þeim skala sem er í gangi hér á landi? Harpan í fyrra, Hlégarður í ár. Einhvern veginn hefði maður haldið að þetta væri frekar haldið á Ellefunni eða Gauknum.

Ég hef ekkert rosalega gott yfirlit yfir umfang keppnanna úti. Ég veit þó að Færeyingar halda keppnina sína í ca 200 manna leikhúsi. Danska úrslitakeppnin í fyrra var á 400 manna flottum spilastað í Álaborg (studenterhuset), þar sem Aalborg Metal Festival fer fram. Keppnin í Hollandi fór fram á 600 manna stað. Þetta er samt svolítið rokkandi. Í mörgum löndum fer þetta einmitt fram á stöðum eins og Gaukurinn, svona þetta 100-200 manna stöðum.

Það hefur verið venjan, eftir því sem ég best veit, að fá erlenda dómara hingað til lands á WMBI. Hér fyrir neðan má sjá lista yfir þá sem dæma í ár, bæði innlenda og erlenda aðila.

Arnar Eggert (Útvarpsmaður, blaðamaður og tónlistarfræðingur)
Arto Mäenpää (Kaaoszine)
Árni Mattíasson (Morgunblaðið)
Birkir Fjalar Viðarsson (Halifax Collect)
Bogi Bjarnason (Black Ice Express)
Dayal Patterson (Metal Hammer UK)
Dieter Bossaerts (Soundguy.be)
Evelyn R. Bär (Metal Battle South Africa)
Eyvindur Gauti (Andfari)
Gunnar Sauermann (Metal Hammer Þýskaland)
Louise Brown (Iron Fist)
Luca Pessina (Metal Italia)
Jochen Lumej (Metal Battle Holland)
Sigvaldi Jónsson (Dordingull)
Stefán Magnússon (Eistnaflug)
Stephen Lockhart (Studio Emissary)
Søren Weiss Kristiansen (BleastBeast DK)
Yngve Christiansen (BlastFest)

Að lokum kíkjum við svo á hljómsveitirnar sem taka þátt í ár. Eins og kom fram í viðtalinu við Þorsteinn verður keppnin haldin í Hlégarði, Mosfellsbæ. Munu sex hljómsveitir keppa um þann heiður að fá að keppa fyrir Íslands hönd á Wacken Open Air tónlistarhátíðinni gegn hljómsveitum víðsvegar úr heiminum. Auk hljómsveitanna sex sem keppa munu sigurvegarar síðasta árs, In the Company of Men, koma fram, sem og Dimma, sem allir Íslendingar ættu nú að þekkja. En, hvaða hljómsveitir eru það sem koma þarna fram?

Aeterna segist vera tilbúin til þess að sparka í rassa og tyggja jórturleður! Þessi öfgarokksveit hefur starfað í rúm fimm ár núna og gaf út breiðskífuna Eschaton á þarsíðasta ári. Eftir endalaust tónleikahald í tilefni þess hefur hljómsveitin eytt síðustu mánuðum í að semja og taka upp nýtt demo og munu áhorfendur án efa fá að heyra glænýtt efni á WMBI.

Auðn var stofnuð 2010 og, ólíkt meirihluta djöflarokkshljómsveita Íslands núna, siglir hún sjó melódísks ofsarokks sem var vinsælt í Noregi um miðbik tíunda áratugarins.

Churchhouse Creepers ættu aðdáendur íslensks stónerrokks að þekkja vel. Bæði Auðn og Creepers tóku þátt í Wacken Metal Battle á síðasta ári, og ég er frekar spenntur á því að sjá hver munurinn er á sveitunum nú að ári liðnu. Svo má nú ekki gleyma því að hljómsveitin gaf út breiðskífuna From Party to Apocalypse sem, eftir því sem ég best veit, hefur verið að fara ágætlega ofan í landann.

Grave Superior er frekar ung hljómsveit, ég held að hún hafi verið stofnuð 2014, en dauðarokk hennar er sterkt og þungt. Ég sá hljómsveitina á Bar11 síðasta föstudag og var hún helvíti sterk þarna, og ef ekki væri fyrir einhver vandræði með hljóð, hefði hún skilað fullkomnu setti af sér.

Lightspeed Legend er kannski ung en hún er skipuð reynsluboltum sem meðal annars spila, eða hafa spilað með, Ophidian I, Ask the Slave, Endless Dark og Future Future. Tónlistina mætti kalla nútímavætt glamrokk, það er svo sannarlega hægt að finna þarna kafla sem minna mann á lög frá þeim tíma, en þetta er ekkert koppípeist dæmi.

While My City Burns. Ef fólk var að hafa áhyggjur af því að WMB yrði harðkjarnalaust í ár þá þarf það ekki að hafa neinar áhyggjur því WMCB mun sjá um að rípresenta þann geira í ár. Sigurvegarar síðasta árs var einmitt harðkjarnasveitin In the Company of Men, svo það verður athyglisvert að sjá hvort Ísland muni senda harðkjarnasveit tvö ár í röð á Wacken Open Air.