upptaka frá tónleikum mayhem í osló

Síðasta laugardag kom hin goðsagnakennda djöflarokkssveit Mayhem fram í Osló og tók hina goðsagnakenndu plötu De Mysteriis Dom Sathanas í öllu sínu goðsagnakennda veldi!

YouTube notandinn Mr. Deathfather hefur verið duglegur að taka upp tónleika í Osló síðustu misseri og var hann á staðnum með sína traustu myndavél. Því miður voru aðstæður ekki sem bestar en þó ættu aðdáendur hljómsveitarinnar að hafa gaman af þessu myndbandi.

sibiir – beat them to death (nýtt myndband)

Fyrr í dag frumsýndum við myndband með Jagged Vision, eins og þú ættir nú að hafa tekið eftir. En það sem við, ég og Andfarinn, vissum ekki var að önnur hljómsveit á Fysisk Format (leibelinu þeirra) skellti líka vídjó á Netið í dag. Sibiir heitir hljómsveitin og mun gefa út sína fyrstu skífu núna níunda desember. Hljómsveitin segist spila Post metallic blackened hardcore, sem ég býst við að þýði að hún hljómi eins og blanda af Grit Teeth, Mercy Buckets og Misþyrmingu.

nýtt myndband með vreid á andfara

Í upphafi var orðið og orðið var Windir. En Windir féll og upp úr ösku þess reis Vreid.

Eftir fráfall Terje Bakken, stofnanda Windir, tóku þrír af fjórum eftirlifandi meðlimum hljómsveitarinnar sig til og stofnuðu hljómsveitina Vreid. Hvort hljómsveitin sé beint framhald af því sem meðlimirnir gerðu í fyrri sveit verður hver að leggja sitt mat á, en ég er alltaf ánægður þegar að kúabjallan fær að njóta sín í djöflarokkinu. Alltaf.

“Når Byane Brenn” er tekið af nýjustu breiðskífu Vreid, Sólverv, sem kom út í fyrra á vegum Indie Recordings. Hljómsveitin er á leið á túr um meginland Evrópu í lok næstu næstu viku með Kampfar og Dreamarcher, áhugasamir geta séð frekari upplýsingar um túrinn hér fyrir neðan.

KAMPFAR & VREID + DREAMARCHER
14.10 – NO, Bergen – Hulen
15.10 – NO, Haugesund – Flytten
17.10 – DE, Berlin – Club Nuke
18.10 – DE, München – Backstage
19.10 – CH, Zürich – Werk 21
20.10 – FRA, Paris – Backstage By The Mill
21.10 – DE, Frankfurt – Nachtleben
22.10 – AT, Wien – Escape Metalcorner
23.10 – DE, Erfurt – From Hell
24.10 – BE, Antwerpen – Kavka
25.10 – UK, London – The Underworld
26.10 – NL, Eindhoven – Dynamo
27.10 – DEN, Copenhagen – Beta
28.10 – NO, Oslo – John Dee

evergrey klára íslandstrílógíu sína

Í sumar kíkti Tom Englund, söngvari sænsku hljómsveitarinnar Evergrey, til landsins og skoðaði sig um. Með honum í för var kvikmyndagerðamaðurinn Patric Ullaeus, og tóku þeir félagar upp efni víðsvegar um landið fyrir þrjú lög af nýjustu plötu hljómsveitarinnar, The Storm Within. Sú plata kom út í byrjun þessa mánaðar hjá AFM Records.

Á síðustu vikum hefur hljómsveitin birt myndböndin á YouTube og í dag birti hún síðasta myndbandið, við lagið “The Impossible”. Eins og sjá má í myndböndum sveitarinnar hér fyrir neðan, eru það ekki bara Justin Bieber og félagar sem hafa gaman að því að labba um landið.