af ævintýrum max og iggors í ameríku…

Eins og alþjóð veit munu bræðurnir Max og Iggor Cavalera koma fram á Eistnaflugi og flytja þar lög af frægustu skífu Sepultura, sem bræðurnir stofnuðu fyrir þrjátíu og þrem árum, þá rétt skriðnir yfir fermingaraldurinn.

YouTube rásin Digital Tour Bus stundar það grimmt að heimsækja tónlistarmenn á ferðalögum um Bandaríkin og um daginn var kíkt í heimsókn til bræðranna þar sem þeir voru á túr með Íslandsvinunum í Immolation og Full of Hell.

Myndbandið hér fyrir neðan er frá því innliti. Það hefur kannski ekkert í glamúrinn sem einkennir Falleg heimili en hefur þó eitt umfram, Gatecreeper peysuna sem Max er í. Það er enginn minibíósalur í Njarðvík að fara að keppa við slíkt!

það er nóg að gerast, það er bara lítil hvíld

 

Kommentakerfin eru full af fólki sem virðist vita af hverju hlutirnir ganga svona illa. Það er út af því að unga fólkið er svo latt. En, miðað við hvað það er mikið af tónleikum þessa helgi þá virðist nú vera eitthvað af fólki sem nennir að gera hluti.

Á fimmtudaginn verða Auðn og Zhrine á Hard Rock. Báðar hljómsveitir munu spila blöndu af útgefnu og óútgefnu efni. Frekari upplýsingar um tónleikana má finna hér.

Á föstudaginn er Krossfesting III, þriðja upphitunarkvöldið fyrir Norðanpaunk. Þar koma fram Kuldaboli, World Narcosis, Andavald og Vofa. Frekari upplýsingar um tónleikana má finna hér.

Laugardagurinn þungi verður svo haldinn hátíðlegur á Gauknum en þar munu Qualia, Morpholith, Slor og CXVIII koma fram, en þess má til gamans geta að þetta eru fyrstu tónleikar draugabandsins CXVIII. Frekari upplýsingar um tónleikana má finna hér.

skurk skellir ræmu lausri

Eftir örstutta stund, klukkan 20:00, skella Skurkarar lausri heimildarmynd um gerð plötunnar Blóðbragð. Hana má finna hér fyrir neðan.

Fyrst ég hafði Skurkara á línunni spurði ég Hörð Halldórsson, gítarleikara sveitarinnar, að því af hverju þeir hefðu valið að gefa út geisladisk í stað vínils. Eru ekki allir svo æstir í vínil?

H: Tjahh. Gamaldags kannski. Í rauninni erum við miklu meira að gefa út digital. Við gerum okkur vel grein fyrir því að geisladiskamarkaðurinn er í lægð, ég á ekki einu sinni geisladiskaspilara eða DVD heima. Við erum að gefa út 3 útgáfur af digital, Blóðbragð, Blóðbragð/Final Gift og svo VIP pakka sem er nokkuð grand með allar útgáfur, VHS upptökurnog gamlar upptökur síðan 1993.
En, geisladiskurinn er líka nafnspjaldið okkar.
Við erum að vinna í vínil málum as we speak með Vinyl.is en það þarf að vera vel gert og diskurinn er mjög langur, og því þarf að skoða gatefold kostnaðinn og svoleiðis. Vonandi ef allt gengur upp og heimurinn tekur okkur vel þá höfum við möguleika á að rispa vínil.

ný tónlist: stargazer – a merging to the boundless: void of voyce

Síðan 1995 hefur StarGazer dælt út óreiðukenndu martraðarokki og A Meging to the Boundless: Void of Voyce, þriðja breiðskífa sveitarinnar, kom út fyrir þremur árum hjá Nuclear War Now! Productions.

Fyrsta júní næstkomandi er von á nýrri útgáfu plötunnar, í breyttri mynd þó, þar sem um instrúmental útgáfu er að ræða. Hægt er að hlusta á gripinn hér fyrir neðan og enn lengra fyrir neðan er svo hægt að hlusta á upprunalega útgáfu „Black Gammon“, fyrsta lagsins á plötunni.

sólstafir á leið í evróputúr í júní

Fyrir nokkru síðan tóku Sólstafir upp sína fyrstu plötu án Guðmundar Óla Pálmasonar, en eins og flestir ættu nú að þekkja var hann rekinn úr hljómsveitinni í ársbyrjun tvöþúsund og fimmtán.

Fyrir viku síðan gaf hljómsveitin út sinn fyrsta síngul, „Ísafold“, af væntanlegri breiðskífu, Berdreyminn, sem kemur út tuttugasta og sjötta maí næstkomandi á vegum Season of Mist. Á meðan fólk hefur rifist um það hvort hljómsveitin sé betri eða verri án Gumma þá klýfur myndbandið áhorfsfjallið og nú er svo komið að, þegar þetta er ritað, myndbandinu hefur verið streymt fimmtíuogsexþúsund sinnum. Ekki slæmt það.

Hljómsveitin ætlar að skella sér á Evróputúr í júní og sjá frekari upplýsingar um þann túr á auglýsingunni hér fyrir neðan.

ný breiðskífa væntanleg frá ulver

Sjöunda apríl næstkomandi kemur þrettánda breiðskífa norsku framúrstefnurokkarana í Ulver út. Platan nefnist The Assassination of Julius Caesar og mun House of Mythology sjá um útgáfu hennar.

Upptökuferlið var að mestu í höndum hljómsveitarinnar sjálfrar en þegar að hljóðblöndun kom þá fékk hún Martin „Youth“ Glover og Michael Rendall í lið með sér.

Eins og áður býst ég við að það megi búast við hverju sem er frá hljómsveitinni, langt er síðan hún yfirgaf sýnar afskaplega fallegu djöflarokksrætur og hélt út í einskismannslandið til þess að skapa sinn eigin stíl.

Hljómsveitin mun koma fram á nokkrum tónleikum í tilefni útgáfunnar, þar á meðal á hinni víðfrægu Roadburn tónlistarhátíð, en strákarnir okkar í Auðn, Nöðru og Zhrine munu einnig koma þar fram.

falk kvöld í kvöld, reykjavík mun nötra

Í kvöld mun Reykjavík nötra. FALK mun þá standa fyrir tónleikum á Gauknum. Þar kemur fram danski raftónlistardúettinn Damien Dubrovnik og þeim til halds og trausts verða AMFJ og HATARI.

Herlegheitin byrja klukkan 22 og það mun kosta 2000 krónur inn. Ég vona að HATARI verði með boli til sölu.blood incantation kíkir á landann í mars, spilar á húrra

Já, ég held að ég geti ekki verið annað en ánægður með þær fréttir að ameríska dauðarokkssveitin Blood Incantation mun heimsækja okkur í mars á næsta ári. Sveitin mun koma fram, ásamt Sinmara og Urðun, á öðru fjáröflunarkvöldi Reykjavík Deathfest sem fram fer á Húrra sextánda mars.

Ef þú þekkir ekki Blood Incantation ýttu á þá á play á spilastokknum hér fyrir neðan. Hljómsveitin gaf nýlega út sína fyrstu breiðskífu, Starspawn, og er ég á því að sú skífa eigi eftir að enda á mörgum topp tíu listum þessa árs hjá öfgarokksspekingum.

ný stuttskífa væntanleg frá endalokum

Afskræming holds og sálar mun skífan sú kallast og koma út á vegum Signal Rex. Um svipað leyti mun portúgalska útgáfan gefa út fyrstu breiðskífu Draugsólar.

Afskræming holds og sálar verður gefin út á tólf tommu vínil, stuttskífan verður á framhliðinni og demo sveitarinnar, sem Signal Rex gaf út fyrr á þessu ári, verður á bakhliðinni.