sólstafir á leið í evróputúr í júní

Fyrir nokkru síðan tóku Sólstafir upp sína fyrstu plötu án Guðmundar Óla Pálmasonar, en eins og flestir ættu nú að þekkja var hann rekinn úr hljómsveitinni í ársbyrjun tvöþúsund og fimmtán.

Fyrir viku síðan gaf hljómsveitin út sinn fyrsta síngul, „Ísafold“, af væntanlegri breiðskífu, Berdreyminn, sem kemur út tuttugasta og sjötta maí næstkomandi á vegum Season of Mist. Á meðan fólk hefur rifist um það hvort hljómsveitin sé betri eða verri án Gumma þá klýfur myndbandið áhorfsfjallið og nú er svo komið að, þegar þetta er ritað, myndbandinu hefur verið streymt fimmtíuogsexþúsund sinnum. Ekki slæmt það.

Hljómsveitin ætlar að skella sér á Evróputúr í júní og sjá frekari upplýsingar um þann túr á auglýsingunni hér fyrir neðan.

ný breiðskífa væntanleg frá ulver

Sjöunda apríl næstkomandi kemur þrettánda breiðskífa norsku framúrstefnurokkarana í Ulver út. Platan nefnist The Assassination of Julius Caesar og mun House of Mythology sjá um útgáfu hennar.

Upptökuferlið var að mestu í höndum hljómsveitarinnar sjálfrar en þegar að hljóðblöndun kom þá fékk hún Martin „Youth“ Glover og Michael Rendall í lið með sér.

Eins og áður býst ég við að það megi búast við hverju sem er frá hljómsveitinni, langt er síðan hún yfirgaf sýnar afskaplega fallegu djöflarokksrætur og hélt út í einskismannslandið til þess að skapa sinn eigin stíl.

Hljómsveitin mun koma fram á nokkrum tónleikum í tilefni útgáfunnar, þar á meðal á hinni víðfrægu Roadburn tónlistarhátíð, en strákarnir okkar í Auðn, Nöðru og Zhrine munu einnig koma þar fram.

blood incantation kíkir á landann í mars, spilar á húrra

Já, ég held að ég geti ekki verið annað en ánægður með þær fréttir að ameríska dauðarokkssveitin Blood Incantation mun heimsækja okkur í mars á næsta ári. Sveitin mun koma fram, ásamt Sinmara og Urðun, á öðru fjáröflunarkvöldi Reykjavík Deathfest sem fram fer á Húrra sextánda mars.

Ef þú þekkir ekki Blood Incantation ýttu á þá á play á spilastokknum hér fyrir neðan. Hljómsveitin gaf nýlega út sína fyrstu breiðskífu, Starspawn, og er ég á því að sú skífa eigi eftir að enda á mörgum topp tíu listum þessa árs hjá öfgarokksspekingum.

ný stuttskífa væntanleg frá endalokum

Afskræming holds og sálar mun skífan sú kallast og koma út á vegum Signal Rex. Um svipað leyti mun portúgalska útgáfan gefa út fyrstu breiðskífu Draugsólar.

Afskræming holds og sálar verður gefin út á tólf tommu vínil, stuttskífan verður á framhliðinni og demo sveitarinnar, sem Signal Rex gaf út fyrr á þessu ári, verður á bakhliðinni.

viðtal: headless kross

Er allir búnir að jafna sig á Metallica? Er í lagi að kíkja á eitthvað annað núna?

Skoska dómsdagsmálmshljómsveitin Headless Kross gaf út sína aðra breiðskífu síðasta föstudag. Projections I kom út á vegum At War with False Noise og áhugasamir geta verslað skífuna þar eða bara beint af býli hjá hljómsveitinni. Ég hef ekki heyrt í mörgum skoskum dómsdagsmetalhljómsveitum og sendi því örfáar spurningar á hljómsveitina.

Mig langaði til dæmis að vita af hverju það væri „K“ en ekki „C“ í nafni hljómsveitarinnar, hvort það væri nokkuð vísun í skosku dauðarokkssveitina Korpse, en samkvæmt hljómsveitinni var það ekki svo.

Hljómsveitin heitir Headless Kross því Roddy félagi okkar, sem spilar í hljómsveitinni Thisclose, ætlaði að stofna hljómsveit og nefna hana Born Again, eftir Black Sabbath plötunni sem Ian Gillan söng inná. Um svipað leyti ákvað gítarleikarinn okkar, Tommy, að stofna hljómsveit og ákvað að nefna hana í höfuðið á annarri Black Sabbath plötu.

Ástæða þess að við erum með „K“ en ekki „C“ í „Kross“ er einfaldlega sú að við vildum auðvelda fólki að finna hljómsveitina ef það leitaði af henni á Alnetinu.

En hafiði engar áhyggjur af því að einhverjir dæmi ykkur sem Black Sabbath eftirhermur út af nafninu?

Nei, fyrir utan riffin hljómum við ekkert eins.

Þið notuðust við James Plotkin, sem hefur unnið með hljómsveitum eins og Electric Wizard, Cruciamentum og Jesu, þegar að því kom að mastera plötuna, hvað kom til að þið leituðuð til hans?

Við höfum leitað til hans allt frá því að við tókum upp splittið með Lazarus Blackstar. Adam Stone, maðurinn á bakvið Head of Crom Records, fékk hann til þess að sjá um lögin okkar þar og við vorum það ánægðir með útkomuna að við höfum leitað til hans alla tíð síðan.

Plotkin hefur spilað með aragrúa hljómsveita í gegnum tíðina en hver er þín uppáhalds plata af þeim sem hann hefur spilað inná?

Ætli það væri ekki fyrsta breiðskífa Old Lady Drivers sem kom út 1988. Frábær plata.

Ég er alveg sammála því, „Colostomy Grab-Bag“ er einmitt eitt af mínum uppáhalds lögum.

Projections I er hérna beint fyrir neðan og áhugasamir geta kíkt á frumburð O.L.D. með því að smella á þennan hlekk.