frumsýning: ulsect – our trivial toil

Í dag frumsýnir Andfarinn lag með hollensku djöflarokkssveitinni Ulsect en nýjasta breiðskífa hennar, sem er samnefnd sveitinni, kemur út hjá Season of Mist tólfta maí næstkomandi.

Dauðarokksskriðdrekinn hollenski inniheldur gítarleikarann Joris Bonis og trommarann Jasper Barendregt úr Dodecahedron, Dennis Aarts, fyrrum bassaleikara Textures, og að lokum Dennis Maas á röddum og Arno Frericks á gítar.

Samkvæmt hljómsveitinni býður „Our Trivial Toil“ okkur uppá algjört tilgangsleysi og leið mannsins að óumflýjanlegum endalokum.

Hljómar eins og gott dauðarokk.

ný tónlist: skelethal, taphos nomos og urðun

Tuttugasta og þriðja júní næstkomandi stefnir Hells Headbangers á útgáfu fyrstu breiðskífu frönsku dauðarokkssvínanna í Skelethal.

Ef ég man rétt þá var ég ekkert yfir mig hrifinn af fyrra efni hljómsveitarinnar, en það er einhver Krabathor fílingur í „Chaotic Deviance“ sem ég hef mjög gaman af.

En ef við lítum okkur nær núna, þá mun Caligari Records gefa út splitt teip með hinni amerísku Taphos Namos og strákunum okkar í Urðun. Er Urðun skemmtilegasta dauðarokksband norðan heiða? Á Dalvíkurblackmetalmafían einhvern séns í þetta?

frumsýning: beyond creation – coexistence

Í dag frumsýnir Andfarinn myndband með kanadísku tæknidauðasveitinni Beyond Creation en síðasta breiðskífa hennar, Earthborn Evolution, kom út hjá Season of Mist 2014.

Þetta er tónlist fyrir fólk sem elskar Gorguts, Obscura og aðrar, álíka, sveitir. Þetta er myndband fyrir fólk sem elskar að sjá elgtanað tæknirúnk þar sem hljómsveitarmeðlimir líta ekki út eins og spítukallar á sviðinu.

frumsýning: dodecahedron – kwintessens

Mynd: Arno Frericks

Í dag frumsýnir Andfarinn heila plötu með hollensku tæknisvertusveitinni Dodecahedron en nýjasta breiðskífa hennar, Kwintessens, kemur út hjá Season of Mist á morgun.

Hljómsveitin segist vera mjög ánægð með að geta fært okkur hið mikla meistaraverk sem Kwintessens er. Samkvæmt meðlimum Dodecahedron er þetta plata saga upplýsingar, mikilmennskubrjálæðis og það hvernig hlutir fara úr böndunum.

frumsýning: carach angren – song for the dead

Í dag frumsýnir Andfarinn lag með hollensku hryllingsrokksveitinni Carach Angren en nýjasta breiðskífa hennar, Dance and Laugh amongst the Rotten, kemur út hjá Season of Mist sextánda júní næstkomandi.

Lagið nefnist „Song for the Dead“ og er fyrsta lagið sem fer í spilun af fimmtu plötu sveitarinnar.

Eins og áður má fólk búast við skelfingarrokki sem hefur sínar rætur í djöflarokki, en í þessu lagi finnst mér heyrast meiri áhrif frá Devil Doll, til dæmis, en heyrst hefur áður.

Hvort öll skífan verður eitt stórt verk til heiðurs Mr. Doctor kemur í ljós eftir því sem fleiri lög fara í loftið, en það væri ekki slæmt ef svo yrði.

frumsýning: replacire – do not deviate

Í dag frumsýnir Andfarinn heila plötu með amerísku tæknidauðarokkssveitinni Replacire en nýjasta breiðskífa hennar, Foreword, kemur út hjá Season of Mist næsta föstudag.

Eric Alper, gítarleikari sveitarinnar, stofnaði Replacire 2010 og tveimur árum seinna kom frumburður hennar út. Síðan þá hefur hljómsveitin farið í gegnum hinar ýmsu breytingar á meðlimaskipan og nú eru Zach Baskin og Evan Berry í Replacire ásamt fyrrnefndum Eric. Að auki eru Poh Hock og Kendal Divoll með þegar sveitin stígur á svið.

Eins og áður sagði er hér um tæknidauða að ræða og ætti þetta því að höfða vel til fylgjenda seinna tímabils Death, þess sem Cynic gerði á Focus, jafnvel að fólk sem fílar Hate Eternal og Artificial Brain finni þarna eitthvað við sitt hæfi. Kannski.

frumsýning: merrimack – apophatic weaponry

Mynd: Alizee Adamek

Í dag frumsýnir Andfarinn lag með frönsku djöflarokksveitinni Merrimack en nýjasta breiðskífa hennar, Omegaphilia, kemur út hjá Season of Mist níunda júní næstkomandi.

Perversifier, gítarleikari hljómsveitarinnar, stofnaði Merrimack 1994, rétt eftir að black metal sprengjan reið yfir heimsbyggðina. Síðan þá hefur hljómsveitin gefið út ógrynni af kassettum, vínil og geisladiskum og farið í gegnum slatta af breytingum á meðlimaskipan.

En þrátt fyrir breytingar á liðsskipan keyrir hljómsveitin ennþá sitt klassíska franska djöflarokk af fullum krafti og stefnir ekki á neinar breytingar þar.