urðun

Næsta laugardag verður dauðarokksveisla á Gauknum en þá mun þýska hljómsveitin Carnal Tomb koma fram ásamt Urðun, Narthraal og Grave Superior. Andfarinn tók stöðuna á Skvaðvaldi, söngvara akureysku sveitarinnar Urðunar.

Hvað er að frétta af Urðun? Sömu meðlimir og síðast?

Það er eitt og annað að frétta af dónasveitinni, við erum að klára að púsla saman efni til viðbótar við það nýja sem er komið.

Það er enn í raun sama lænupp en við erum með afleysingar bassafant sem var trommari Dánarbeðs frá Akureyri á meðan Putrifier fer í einhverja slökun af sökum of mikillar dauðastirðnunar og afvötnun vegna heilsuspillandi ofdrykkju líksmurningsvökva! Einhverjar breytingar gætu samt átt sér stað við seinni hluta þessa árs, en það kemur allt í ljós með tíð og tíma.

Það er nú nokkuð langt síðan að Horror & Gore, demoið ykkar, kom út. Á ekkert að skella í aðra útgáfu?

Splitútgáfa er loksins að fara að sjá dagsins ljós eftir ýmsar haftranir. Einnig erum við að vinna í nýju efni sem kemur til að vera fyrir breiðskífu, ef allt gengur eftir óskum. Hún mun bera nafnið Terror From the Technothrone og fjallar um geimveru sombíjur sem koma til jarðar í gegnum ormagöng og ætla að borða mannkynið og nota það sem eldsneyti í þeirra endalausu og tilgangslausu ferð út fyrir endamörk og endaþarm alheimsins í leit af fórnalömbum til að gjöreyða! Hvað tónlistina varðar, hugsaðu ljótt óskilgetið ástbarn Nocturnus og Autopsy með nett gullið Tampa bay deathmetal tan eins og meðlimir Death og Deicide sportuðu.

En hvað með tónleika?

Næstkomandi hljómleikar eru 4.feb á Gauknum með Carnal Tomb, Grave Superior og Narthraal. Eftir það gerist lítið fyrr en 16.mars á Húrra þar sem við hitum upp fyrir Defiled og Blood Incantation, ásamt Sinmöru og Narthraal. Einnig eru einhverjar meldingar hvað tónleika erlendis varðar við Eystrasaltslöndin, en það eru bara spegúleringar og pælingar eins og er, ekkert staðfest, krossfest né deathfest.

Að lokum, vinsælasta dauðarokkið hjá Skaðvaldi í dag?

Vinsælasta dauðarokkið hjá Skaðvaldi í dag er ítalska partísveitin Haemophagus, sænska stálið General Surgery og danska drullan þekkt sem Undergang!

Author: Andfari

Andfari