Carnal Tomb

Næsta laugardag verður dauðarokksveisla á Gauknum en þá mun þýska hljómsveitin Carnal Tomb koma fram ásamt Urðun, Narthraal og Grave Superior.

Carnal Tomb er ekki gömul hljómsveit, stofnuð í Berlín fyrir næstum þremur árum. Síðan þá hafa komið út tvö demó, ein safnspóla og breiðskífa, og ég held að það sé fínt að byrja á því að spyrja Marc, söngvara og gítarleikara Carnal Tomb, að því hvernig viðtökurnar hafa verið við plötunni, Rotten Remains.

Enn sem komið er hafa viðtökurnar verið mjög góðar. Platan hefur fengið góða dóma, það hefur bæst í áhagendahópinn og fólk hefur verið duglegt að mæta á tónleika okkar og kaupa plötuna og annan varning. En, við fengum þó einn slæman dóm um daginn. Svo virðist sem viðkomandi hafi fundist demóin okkar betri. Ég skil ekki af hverju.

Svo skemmtilega vill til að nafn hljómsveitarinnar er einnig nafn á lagi með hinni goðsagnakenndu sænsku dauðarokkssveit Dismember. Hvernig kom það til að meðlimir Carnal Tomb tóku slíku ástfóstri við dauðrokk gamla góða sænska skólans fram yfir aðrar stefnur sem þekktust í gamla dauðarokkinu?

Að mínu mati þá er mun meira að finna í okkar tónlist en bara gamla góða Stokkhólmshljóðið. Augljóslega tekurðu fyrst eftir HM-2 hljóðinu en ég tel að hjá okkur sé að finna áhrif víðar að, til dæmis frá Ameríku. Það er það sem ég fýla, að bæta riffum víðsvegar að við hinn feita HM-2 hljóm til þess að skapa okkar eiginn stíl.
Við erum að vinna núna í nýju efni og ég held að það eigi eftir að sjást betur en það gerði á fyrstu breiðskífu okkar.

Carnal Tomb er nú ekki eina hljómsveitin sem hefur skotið upp kollinum á síðustu árum og hyllt hina gömlu guði. Hverjar, af þeim sem hafa komið fram nýlega, eru í uppáhaldi hjá þér?

Mikið rétt, það er slatti af hljómsveitum núna í gangi. Ef ég þyrfti að nefna einhverjar þá myndi ég nefna Gravebomb, Witchvomit, Filthdigger og Gravestone.

Að lokum, hvernig komu tónleikarnir á Gauknum til og við hverju megum við búast við næsta laugardag?

Þorvaldur úr Urðun hafði samband við okkur og spurði okkur hvort við vildum koma fram á tónleikum sem hann var að skipuleggja. Að skipuleggja ferðina var aðeins meira mál en venjulega en þetta er allt að gerast! Við erum spenntir fyrir því að koma fram, að sjá hin böndin og að hitta íslenska dauðarokkara. Þetta verða fyrstu tónleikar okkar utan Þýskalands og í tilefni þess höfum við prentað boli sem verða til sölu þar (sjá mynd fyrir neðan).
Það má búast við hálsbrjótandi dauðarokki frá okkur!

carnaltombtshirt

Author: Andfari

Andfari