viðtal: headless kross

Er allir búnir að jafna sig á Metallica? Er í lagi að kíkja á eitthvað annað núna?

Skoska dómsdagsmálmshljómsveitin Headless Kross gaf út sína aðra breiðskífu síðasta föstudag. Projections I kom út á vegum At War with False Noise og áhugasamir geta verslað skífuna þar eða bara beint af býli hjá hljómsveitinni. Ég hef ekki heyrt í mörgum skoskum dómsdagsmetalhljómsveitum og sendi því örfáar spurningar á hljómsveitina.

Mig langaði til dæmis að vita af hverju það væri “K” en ekki “C” í nafni hljómsveitarinnar, hvort það væri nokkuð vísun í skosku dauðarokkssveitina Korpse, en samkvæmt hljómsveitinni var það ekki svo.

Hljómsveitin heitir Headless Kross því Roddy félagi okkar, sem spilar í hljómsveitinni Thisclose, ætlaði að stofna hljómsveit og nefna hana Born Again, eftir Black Sabbath plötunni sem Ian Gillan söng inná. Um svipað leyti ákvað gítarleikarinn okkar, Tommy, að stofna hljómsveit og ákvað að nefna hana í höfuðið á annarri Black Sabbath plötu.

Ástæða þess að við erum með “K” en ekki “C” í “Kross” er einfaldlega sú að við vildum auðvelda fólki að finna hljómsveitina ef það leitaði af henni á Alnetinu.

En hafiði engar áhyggjur af því að einhverjir dæmi ykkur sem Black Sabbath eftirhermur út af nafninu?

Nei, fyrir utan riffin hljómum við ekkert eins.

Þið notuðust við James Plotkin, sem hefur unnið með hljómsveitum eins og Electric Wizard, Cruciamentum og Jesu, þegar að því kom að mastera plötuna, hvað kom til að þið leituðuð til hans?

Við höfum leitað til hans allt frá því að við tókum upp splittið með Lazarus Blackstar. Adam Stone, maðurinn á bakvið Head of Crom Records, fékk hann til þess að sjá um lögin okkar þar og við vorum það ánægðir með útkomuna að við höfum leitað til hans alla tíð síðan.

Plotkin hefur spilað með aragrúa hljómsveita í gegnum tíðina en hver er þín uppáhalds plata af þeim sem hann hefur spilað inná?

Ætli það væri ekki fyrsta breiðskífa Old Lady Drivers sem kom út 1988. Frábær plata.

Ég er alveg sammála því, “Colostomy Grab-Bag” er einmitt eitt af mínum uppáhalds lögum.

Projections I er hérna beint fyrir neðan og áhugasamir geta kíkt á frumburð O.L.D. með því að smella á þennan hlekk.

Author: Andfari

Andfari