nýtt undir nálinni 031116

Á meðan restin af Íslandi hangir á kaffihúsum í miðbænum að svampa í sig listina á Erveivs er ég heima, heima að hlusta á tónlist. Ég sörfa Netið á meðan aðrir þræða barina.

Fyrsta sörfið í dag er skoska dómsdagsrokkhljómsveitin Headless Kross. Hljómsveitin var stofnuð í Glasgow fyrir fimm árum og síðan þá hefur hljómsveitin skilið eftir sig slóð kassettna, deiliskífna og eina breiðskífu.
Átjánda nóvember kemur önnur breiðskífa sveitarinnar út. Mun hún heita Projections 1 og koma út á vegum At War With False Noise. Platan var tekin upp í 16 Ohm Studios, sem gítarleikari sveitarinnar rekur, en um masteringuna sá goðsögnin og meistarinn James Plotkin (Old Lady Drivers). Helvíti góð blanda fyrir aðdáendur Sleep, Electric Wizard og þungu hægu kaflana hjá Celtic Frost.

Ítalska eftirrokkssveitin Klimt 1918 mun gefa út tvöföldu breiðskífuna Sentimentale Jugend hjá Prophecy Productions (heimili Glerakurs) annan desember. Klimt 1918 var stofnuð á síðasta ári síðustu aldar, þegar bræðurnir Marco og Paolo langaði að prófa eitthvað nýtt eftir að hafa eytt fjórum árum í dauðarokkssveitinni Another Day. Ég hef ekki heyrt fyrra efni hljómsveitarinnar en miðað við þetta lag þá var það ágætis ákvörðun hjá þeim bræðrum.

Áströlsku öfgaþrassgrændararnir í King Parrot eru á ferðalagi um meginland Evrópu með Obituary, Exodus og Prong. Það er eflaust blautur draumur margra, að sjá þessar hljómsveitir saman, og nú er tækifærið! Nú, ef þú hefur ekki möguleika á því, kíktu þá á þetta túrvídjó sem kóngarnir voru að skella á jáskjáinn!

Það vantar smá blóð, líkmálningu og gadda í þetta og norsku djöflarokkararnir í Sarkom ætla að redda því með glænýjum smelli! Lagið heitir “Mind Abscess” og er af plötunni Anti-Cosmic Art sem kemur út í byrjun desember á vegum Dark Essence Records.

Author: Andfari

Andfari