nýtt undir nálinni 241016

Tónlistarhátíðin Vetrnætur fór fram á Gauknum núna um helgina, og fannst undirrituðum hátíðin ganga mjög vel fyrir sig. Auðvitað var eitthvað sem betur hefði mátt fara, tveir magnarar voru víst ekki uppá sitt besta þarna og orsakaði það leiðindi með hljóð hjá Abominor og Nöðru. En, að öðru leyti gekk hátíðin vel, sýndist mér, og fólk virðist hafa fylgt tilmælum um að hafa hljótt á meðan Nyiþ og Phurpa komu fram nokkuð vel. Ég tók viðtal við skosku hljómsveitina Lunar Mantra sem ég mun birta hér á næstu dögum.

Svartidauði og Sinmara komu ekki fram hátíðinni, en hljómsveitirnar áttu að koma fram á skosku djöflarokkshátíðinni Caledonian Darkness nú um helgina. Því miður áttu skipuleggjendur hátíðarinnar við mikla fjárhagserfiðleika að etja, vegna dræmrar miðasölu og annara þátta, sem orsakaði það að þeir gátu ekki greitt staðnum sem hátíðin var haldin á. Vegna þess, og vegna þess að einhver makaði blóði á veggina baksviðs, neitaði staðarhaldari tónleikahöldurum um að klára kvöldið og því fengu Svartidauði og gríska dauðarokkssveitin Dead Congregation ekki að koma fram. Frekari upplýsingar um þetta má lesa hér.

Og frá gleði þeirri sem grískt dauðarokk er förum við til Sviss, en Íslandsvinirnir í Bölzer skelltu nýju lagi á netið í dag. Níðþungt, rétt eins og settið þeirra á Eistnaflugi fyrir þremur árum eða svo, muni ég rétt. Lagið er tekið af fyrstu breiðskífu sveitarinnar, Hero, sem kemur út í enda nóvember á vegum Iron Bonehead Records.

Stundum gerist það að maður gleymir sér, líkt og gerðist hjá mér í gær þegar ég gleymdi að skella í póst fyrir aðra af plötunum sem átti að frumsýna. Dauði og djöfull! En, hvað um það… Nýjasta breiðskífa frönsku djöflarokkssveitarinnar Bahrrecht kemur út þrítugasta og fyrsta október á vegum Ketzer Records. Kannski það sé löngu gleymt en það fyrirtæki gaf út efni með Sólstöfum og Myrk fyrir löngu síðan. Í þá gömlu góðu daga þegar Addi öskraði úr sér lungun. Ef þig langar að hlusta á nýjustu plötu Bahrrecht í heild sinni geturðu gert það hér.

Author: Andfari

Andfari