nýtt undir nálinni 161016

Það var bara tímaspursmál, býst ég við að Skuggsjá myndi breyta um nafn. Það er kannski helvíti erfitt að ætla að keppa við Skuggsjá Einars Selvik og Ivars Björnson. Hljómsveitin tilkynnti það síðasta föstudag að hún hefði breytt um nafn og kallast hún nú Nyrst. Á sama tíma og ég óska hljómsveitinni til hamingju með nafnabreytinguna óska ég ennfremur eftir því að hún klári upptökurnar sem hún byrjaði á fyrir öldum siðan, finnst manni, og gefi þær út. Veröldina vantar meira íslenskt djöflarokk.

Ég er nokkuð viss um að ég hafi minnst á Krater áður hér á Andfara, en ef ekki þá er virkilega kominn tími á það. Hljómsveitin skellti nýju myndbandi á Netið síðasta föstudag og það er, verð ég að segja, mjög gott. Bæði myndband og lag. Ég er búinn að vera með plötuna sem lagið er tekið af, Urere, í gangi í allann morgun og er ekki að fá leið á henni. Virkilega gott þýskt djöflarokk.

Næsta föstudag hefst tónlistarhátíðin Vetrnætur. Fer hún fram á Gauknum og munu þar, meðal annars, koma fram Lunar Mantra frá Skotlandi, Lluvia frá Mexíkó ásamt fleirum innlendum og erlendum listamönnum. Frekari upplýsingar um hátíðina má finna hér til hægri. Ég er spenntur og ég vona að þú sért það líka!

Author: Andfari

Andfari