skálmöld – vögguvísur yggdrasils

Fjórða breiðskífa Skálmaldar, Vögguvísur Yggdrasils, mun líta dagsins ljós á morgun og því ekki seinna vænna að kíkja aðeins á gripinn áður en brjálæðið grípur þjóðina, en án efa eru einhverjir núna að tjalda fyrir framan Smekkleysu í von um að ná í fyrstu eintökin sem fara í sölu þar í fyrramálið.

Þessir aðilar munu ganga út nokkur þúsund krónum fátækari en reynslunni ríkari, með bakið hokið undan þunga rokksins. Þungarokksins. Og þegar heim er komið mun skífan verða sett á og ferðinni verður heitið til nýrra heima. Níu heima.

Eins og ætla mætti af “Niðavellir”, sem sleppt var lausu á Netinu fyrir nokkrum vikum, er Skálmöld á mjög svipuðum slóðum og hún hefur áður verið. Að mestu leyti. Með hverri plötu finnst mér áhrif klassísks þungarokks koma fram, en þó ekki svo að víkingarokkið missi sitt vægi þarna.

Því, í grunninn eru Skálmöld alltaf að bæta við fyrstu plötuna. Skálmöld er Bolt Thrower víkingarokksins, Unleashed Íslands, þar sem hver plata bætir við þá sem áður kom. Það eru engar drastískar stefnubreytingar, það eru bara bætt smá við í hvert skipti.

Og hvað endar maður þá með? Enn eina Skálmaldar plötuna sem á eftir að fá svipaðar viðtökur og þær sem áður komu. Sumir eiga eftir að elska hana og aðrir hata, og það verður eflaust vegna sömu hluta og áður því þessi plata er nefnilega afskaplega svipuð þeim sem áður komu.

Skálmöld
Napalm Records
30 september 2016

Author: Andfari

Andfari