narthraal – chainsaw killing spree (dómur)

Narthraal elskar hið klassíska sænska dauðarokkssánd, það er eitt sem víst er.

Hið guðdómalega hljóð sem hljómsveitir eins og Entombed og Dismember gerðu frægt eru gerð góð skil hér, enda stærir hin íslenska dauðarokksmaskína sig af því að vera eina hljómsveitin hér á landi sem notar alveg eins distorjon petala og gömlu meistararnir.

Chainsaw Killing Spree er óður til gullára sænsks dauðarokks og sem slík fínn gripur. En, það sem Narthraal vantar, sem margar þeirra fjölmörgu hljómsveita sem sækja í þennan brunn hafa, er eitthvað sem grípur.

Þessi smáskífa er varla tíu mínútur, en þegar ég hlusta á hana finnst mér hún of löng. Hvernig er það hægt? Kannski vegna þess að ég skil ekki síðustu nítíu sekúndurnar eða svo í “Million Graves to Fill”. Hvert er allt þetta sóló að fara?

Þessi stafræna útgáfa á vegum finnsku útgáfunnar Inverse Records er undanfari breiðskífu sveitarinnar sem mun koma út á næsta ári. Áður en það gerist, strákar mínir, er komið að smá naflaskoðun. Þið eruð á réttri leið, en það þarf að skera smá fitu af spikinu.

Narthraal
Inverse Records
7 október 2016

Author: Andfari

Andfari