narthraal henda nýrri tónlist í okkur

“Ég get allavega sagt að með tilkomu Birkis í bandið þá erum við loksins að gera það sem við vildum gera í upphafi, sem var að heiðra meira Entombed og Dismember” segir Tony Aguilar, gítarleikari Narthraal, þegar ég spyr hann hvort við megum eiga von á einhverjum breytingum hjá hljómsveitinni í kjölfar þess að það varð breyting í liðsskipan hennar fyrir nokkru.

Narthraal var að gefa út smáskífu núna fyrir helgina sem ber hinn afskaplega skemmtilega titil Chainsaw Killing Spree. Fallegt heiti sem einhver amman á eflaust eftir að bródera í púða eða tvo.

“Við vildum alltaf hafa þetta pínu meira melodic en við gerðum fyrst og erum eiginlega farnir þá leið, en samt ekki í þetta týpíska meló death heldur álíka því sem Dismember gerðu” heldur kappinn ennfremur áfram. Greinilegt að Dismember, hin yndislega sænska dauðarokkssveit sem, því miður, lagði upp laupana 2011, er í miklum metum á Narthraal heimilinu.

Einhverra hluta vegna hef ég þó alltaf tengt Narthraal meira við Bloodbath en þegar ég spyr hvora hljómsveitina hann myndi velja, Dismember eða Bloodbath, þyrfti hann þess, velur hann Dismember án þess sem svo mikið að depla auga. Hann lætur þó fylgja með að Bloodbath séu nú ágætir líka.

Já, eins og áður sagði þá var Narthraal að gefa út smáskífu nú fyrir stutta og ef þú hefur áhuga á þá geturðu skellt þér rafrænt eintak af henni með því að smella á þennan hlekk á Bandcampsíðu hljómsveitarinnar. Lögin sjálf eru hér fyrir neðan ef þig langar bara að hlusta á þau strax.

Þess má einmitt geta að á meðan ég skrifaði þetta upp var ég að hlusta á “Under a Blood Red Sky” með Dismember, og það lag er meiriháttar!

Author: Andfari

Andfari