cough – still they pray

cough

Bandaríska dómsmálmssveitin Cough hefur látið lítið á sér bera undanfarin 3 ár, eða síðan splittið Reflection of the Negative með þeim og Windhand kom út. Nú er hins vegar að verða breyting þar á, en þann 3. júní kom út fyrsta stúdíóplata Cough síðan þeir sendu frá sér Ritual Abuse fyrir rétt tæpum 6 árum. Ber platan titilinn Still They Pray og er hún pródúseruð af Jus Oborn, aðalsprautu hinnar goðsagnakenndu sveitar Electric Wizard, og tekin upp af honum og Garret Morris, öðrum gítarleikara Windhand. Still They Pray er gefin út af Relapse.

Cough eru ekki þekktir fyrir að flækja hlutina að óþörfu og byrjar því platan á gítarfeedbacki áður en útúrfözzuð strengjahljóðfærin og dómsdagssöngur Parker Chandler hefjast. Eins og venjan er í stoner doom er það níðþungt riffið sem ræður ríkjum á Still They Pray, ásamt dáleiðandi endurtekningum og mannhatri sem lekur af hverju einasta hljóði sem Chandler lætur út úr sér.

Hljómsveitin fer út í aðeins meiri tilraunastarfsemi en hún hefur gert áður, en á plötunni er að finna tvö lög sem með elementum sem eru áður óséð hjá Cough. Annars vegar er að finna lagið “Shadow of the Torturer”, sem hefst sem hálfgert blues-lag áður en þyngslin sem Cough eru þekktir fyrir leggjast yfir allt eins og mara, og hins vegar titillag plötunnar sem best mætti lýsa sem semi-acoustic kassagítarsfolk-lagi í þunglyndari kantinum.

Still They Pray gefur fyrri plötum Cough ekkert eftir þrátt fyrir að vera öðruvísi á ýmsan hátt. Hún virkar fínpússaðri en fyrri plötur, en ekki svo pússuð að hún tapi sjarmanum sem góð, skítug og mannhatandi stoner doom plata hefur. Blues og folk lögin brjóta plötuna aðeins upp en smellpassa þó þar sem fílingurinn helst í þeim. Þessi síðasta útgáfa Cough er enn ein rós í hnappagat þeirra pilta þar sem þessi plata er ekkert minna en frábær.

Cough
Still They Pray
Relapse Records
3 júní 2016

Author: Andfari

Andfari