af blut aus nord, entombed, havok og master’s hammer

havok / skjámynd af heimasíðu sveitarinnar.
havok / skjámynd af heimasíðu sveitarinnar.

Það er stutt í að split frönsku framúrsverturokkaranna Blut Aus Nord með amerísku útúrkortisverturokkurnum Aevangelist komi út en Vindsval, kappinn á bakvið BAN, er ekkert á því að slappa af og er þegar með fleiri útgáfur í farveginum.

Þar á meðal verður að finna fyrstu breiðskífu Yərûšəlem, en það er nýtt verkefni sem Vindsval er að vinna að með Bjarna Einarssyni, trommara Sinmara. Má búast við þeirri afurð rétt fyrir áramótin og eigum við von á að heyra dáleiðandi og ritúelíska svertu þarna.

Entombed hefur risið úr gröf sinni virðist vera, allavega tímabundið. Síðustu misserin höfum við eingöngu fengið að njóta Entombed A.D. en þar eru L.G. og seinnitíma viðbætur. Entombed það sem risið hefur upp núna inniheldur stofnmeðlimi hljómsveitarinnar, þá Nicke, Alx og Uffe.

Sænska þungarokkstímaritið Close-Up heldur uppá tuttugu og fimm ára afmæli sitt í október með heljarinnar bátsferð. Þar koma meðal annars fram fyrrnefnd Entombed, ásamt kanónum eins og Unleashed, Grave og Merciless. En, svo virðist sem einir tónleikar séu ekki nóg fyrir hina óheilögu þrenningu því Entombed mun einnig koma fram tólfta nóvember í Malmö. Ásamt sinfó. Þar verður Clandestine tekin í heild sinni. Með sinfó.

Havok spilar á Húrra á morgun. Ég var spenntur fyrir hljómsveitinni þegar hún kom fram á Eistnaflugi fyrir tveimur árum og ég spenntur fyrir henni nú. Ég hlakka til að sjá “From the Cradle to the Grave” og “Point of No Return” sem og fleiri hittara. Þrassið, maður, þrassið. Ég á í mjög skrýtnu sambandi við það, þoli það oftast ekki, en svo eru hljómsveitir eins og Havok og Vektor sem grípa mann.

Master’s Hammer verð ég að minnast á því nýjasta afurð sveitarinnar var að lenda á Spotify. Ég missti dálítið af hljómsveitinni eftir Slagry og hef ekki gefið mér neinn tíma að ráði til þess að sökkva mér í þær skífur sem síðan þá hafa komið. En já, í dag lenti Formulæ á Spotify og ætli það sé ekki einfaldast að segja að ef þú hefur gaman af furðulegheitum The Meads of Asphodel og Sigh þá muntu hafa njóta breiðskífu þessarar. Ef þú, hins vegar, vilt þína svertu einfalda og þægilega þá er þetta ekki platan fyrir þig. Franta Storm og félagar blanda þarna saman djöflarokki, tölvuleikjatónlist og sirkúsfýling. Útkoman er eftir því, og munu sumir elska hana en aðrir fyrirlíta.

Author: Andfari

Andfari