rotten casket – emerged from beyond

Hollenska dauðarokkssveitin Rotten Casket hefur nú starfað í rúm tvö ár, ef mér skjátlast ekki, og samanstendur af fyrrum meðlimum hljómsveitanna Death Squad, Pulverizer, Deifecation, Bloody Remains og Caedere. Ég held að ég hafi ekki heyrt í eða af neinni þeirra sveita.

Emerged from Beyond er ekki fyrsta breiðskífa sveitarinnar sem slík, heldur safn fyrstu tveggja kassettna sveitarinnar, Simply Rotten Death og Consumed by Filth.

Í sem stystu máli er hægt að segja að hljómsveitin tilheyri gamla skóla dauðarokksins og þá meina ég þann sem útskrifaði síðustu nemendur sína 1992 eða 1993. Þetta er skólinn sem útskrifaði hljómsveitir á borð við Entombed, Dismember og Unleashed sem og minni spámenn eins og Grave, Darkified og Hetsheads. Rotten Casket tekur það sem þær hljómsveitir gerðu og skellir í hrærarann og úr verður bragðarefur sem ég á erfitt með að átta mig á hvort sé góður eða slæmur.

Þetta er fínt en ekkert sérlega eftirminnilegt og þetta segi ég eftir að hafa rennt þessari safnplötu þrisvar í gegn. Eina lagið sem ég man eitthvað smá eftir er „Morbid Transgressions“ en það er bara vegna þess að hljómsveitin fékk eitt riff og sex orð lánuð frá Unleashed á sjöttu mínútu lagsins. Það er allt sem ég man eftir af þessum fjörtíu og tveim mínútum.

Þýðir það að hljómsveitin hefur fallið? Tja, hún er örugglega mjög skemmtileg á sviði en… Er hún góð vegna þess að hún að hún gerir þetta gamla að sínu eða er hún góð vegna þess að þú hefur ekki möguleika á því að sjá þær hljómsveitir sem hún er að taka frá?

Rotten Casket
Emerged From Beyond
Underground Movement
27 júní 2016

Author: Andfari

Andfari