svo mikið dauðarokk: the end, terrorizer, morthus, obscure evil og samot

Já, það er fáránlega mikið dauðarokk í gangi núna og nauðsynlegt að kíkja á smá af því.

Fyrst á ferð er ameríska dauðarokkssveitin The End sem inniheldur tvo fyrrum meðlimi hinnar goðsagnakenndu Massacre. Það höfðu nú ekki allir gott að segja um þá sveit þegar fyrsta dauðarokkssprengjan kom en From Beyond er ein af þessum plötum sem allir hafa gott af því að heyra. Oftar en einu sinni jafnvel. Allavega, það er útgáfa væntanleg fljótlega í gegnum FDA Rekotz!

Ég varð mjög glaður þegar ég sá að gamla dauðarokksstríðsvélin Terrorizer mun spila World Downfall í heild sinni á Netherlands Deathfest í Hollandi á næsta ári. Sú gleði var fljót að hverfa þegar ég mundi eftir síðustu tónleikaupptökum sem ég tékkaði á með hljómsveitinni. ÚFF! Þeir dauðu þurfa ekki alltaf að rísa upp úr gröfum sínum!

Morthus. Pólsk dauðasverta þar sem Watain stuttermabolir og þröngar gallabuxur ráða ríkjum. Gott dauðarokk engu að síður. Samt verður það að segjast að ef fataval hefði einhver áhrif á tónlistarsköpun þá hefði dauðarokkið liðið virkilega fyrir stuttbuxurnar og Howard the Duck bolina. Allavega, fyrsta breiðskífa sveitarinnar, Over the Dying Stars, kemur út á vegum Witching Hour Productions þriðja júní.

Tökum eina tvennu frá Unspeakable Axe Records í endann! Um er að ræða hljómsveitirnar Obscure Evil frá Perú og Samot frá Chile. Báðar hljómsveitir hljóma eins og þær hafi gleymst í tímavél og lógóin líta út eins og þau hafi verið rifin beint úr þungarokkstímaritum níunda áratugarins! Þetta er yndislegt á svo marga vegu! Unspeakable Axe mun semsagt gefa út tvö demó sveitanna tuttugasta maí næstkomandi þannig að þá geturðu kíkt á Bandcampsíðu útgáfunnar og hlustað á þetta í eðal hljómgæðum. Án efa er þó hægt að finna þetta nú þegar á einhverri rússneskri rippsíðu ef þú getur ekki beðið.

Author: Andfari

Andfari