devildriver – trust no one

Það er laugardagur, Undraveröld Gúnda er nýbúin og hvað er þá annað í stöðunni en að kíkja á nýjustu skífu amerísku grúvmetalsveitarinnar DevilDriver?

Ef þú þekkir ekki til DevilDriver þá er þetta hljómsveitin sem Des Fafara, sem áður frontaði númetalsveitina Coal Chamber, stofnaði eftir að sú drapst. CC var ein af þessum hljómsveitum sem hafði allt sem þurfti til að komast á forsíður þungarokkstímarita; skrýtna hárgreiðslu, furðulegt fataval, húðflúr og þennan eina smell sem sumar hljómsveitir ná og komast aldrei frá. Það dugði þeim í smá tíma þar til allir hljómsveitarmeðlimirnir fengu ógeð á hinum í hljómsveitinni og fóru sína leið.

Spólum áfram til ársins í ár og þá er DevilDriver á sinni sjöundu plötu sem ber þann skemmtilega titil Trust No One. Það á kannski nokkuð vel við hérna því á tímabili var ég sannfærður um að þetta væri ekki bara arfaslappur númetall að fela sig í grúvþungu dietdauðarokki. Þegar “Testimony of Truth” og “Bad Deeds” runnu í gegn þá var ég nokkuð ánægður en svo hélt maður áfram og öll mistök æskunnar blöstu við manni. Víðar buxur sem náðu varla uppyfir rassgatið, boxer nærbuxur sem voru þá í raun utanyfirflík og Dani Filth að taka rapptakta á þetta. Viðbjóðslegt allt saman!

Trust No One fór því fljótt úr því að vera ágætis afþreying, heilalaus að vísu, yfir í það að verða ein af þessum plötum sem maður óskar þess að klárist bara sem fyrst. Hún er ekki illa gerð en hún er eintaklega bitlaus út í gegn. Hún glefsar aðeins í þig en hún sleppir þér alltaf alltof fljót. Þetta er krúttlegt púðlurokk fyrir fólk sem vill meina að það hlusti á þungarokk.

DevilDriver
Trust No One
Napalm Records
13 maí 2016

Author: Andfari

Andfari