reykjavík deathfest – the reckoning

Ef vera skildi að þú vissir ekki af því þá var Reykjavík Deathfest haldin laugardaginn annan apríl á Gauknum. Fram komu Logn, Urðun, Hubris, Severed, Beneath og Cephalic Carnage.

Ég mætti á Gaukinn korter yfir níu, og þar sem tónleikarnir byrjuðu stundvíslega klukkan níu, þýddi það að ég náði rétt svo í rassgatið á Logn. Ég heyrði kannski ekki mikið í hljómsveitinni þetta kvöldið en ég heyrði mikið af henni og greinilegt að hún hafði staðið sig vel. Reykjavík Deathfest byrjaði greinilega vel.

reykjavikdeathfest1
myndir: gerður sif ingvarsdóttir

Akureyska sveitin Urðun var önnur á svið og, ólíkt öðrum hljómsveitum sem komu fram þetta kvöld, spilar hún það sem ég myndi flokka sem old school dauðarokk. Það er hrátt, það er sloppy og það er ekkert tæknilegt við það. Ef Narthraal er hin íslenska Bloodbath þá mætti segja að Urðun sé hin íslenska Autopsy. Hún á þó smá í að ná í Mental Funeral gæði en ef hljómsveitin heldur rétt á spöðunum þá á þetta allt eftir að koma. Það voru þó einhver mistök í gangi, trommarinn missteig sig einu sinni eða tvisvar eða þrisvar á þessum tuttugu mínútum sem hljómsveitin hafði til þess að sanna sig þarna og það voru einhverjir smá hnökrar aukalega, en það var samt greinilegt að hljómsveitin var að skemmta sér, sem er alltaf gott.

Á eftir Urðun kom Hubris á svið, en sú sveit hafði aldrei spilað áður. Eftir því sem ég best veit inniheldur þessi sveit þrjá stráka úr djöflarokkssveitinni Auðn, sem vann Wacken Metal Battle Iceland síðasta föstudag, og það hefur eflaust verið ástæða þess að manni fannst eins og hljómsveitin væri reyndari á sviði en hún er. Meðlimir Hubris vissu hvað þeir voru að gera og gerðu það vel og kvöldið virtist bara vera komið nokkuð vel af stað. Munum við sjá meira af Hubris í framtíðinni? Það gæti verið skemmtilegt.

Severed var fjórða sveit á svið og þrátt fyrir að Ingó, söngvari sveitarinnar væri fótbrotinn, þá var hljómsveitin ekkert að slappa af. Hún var virkilega góð og greinilegt að “gömlu karlarnir” í dauðarokkinu kunna þetta ennþá. Fáránlega þungt og þétt.

reykjavikdeathfest2
myndir: gerður sif ingvarsdóttir

Síðasta íslenska sveitin þetta kvöldið var Beneath. Ef íslenska dauðarokkið ætti sinn skriðdreka þá væri Beneath sá skriðdreki. Líkt og hjá Severed var þetta fáránlega þung og þétt og ekki varð það nú verra þegar að Gísli Sigmundsson, fyrrum söngvari sveitarinnar, steig á svið og tók eitt lag með henni. Ágætis nostalgía þar í gangi.

Að lokum var svo komið að Cephalic Carnage, og verð ég að viðurkenna að ég hafði ekki gaman af tónleikum sveitarinnar. Ólíkt íslensku sveitunum sem á undan höfðu komið valtaði Cephalic ekki yfir neitt, og svo virðist vera sem þó nokkrir hafi verið á sömu skoðun og ég, því ég sá marga yfirgefa tónleikana löngu áður en Cephalic höfðu klárað.

En, þegar ég gekk út undir hljómum Cephalic var það efst í huga mér hversu sterka dauðarokkssenu Ísland á núna. Þarna voru fjórar mjög góðar íslenskar dauðarokkssveitir, ég tel Logn ekki dauðarokk, og auk þess erum við með hljómsveitir á borð við Angist, Grave Superior, Narthraal, Zhrine, Ophidian I og Nexion. Allt hljómsveitir sem hafa eitthvað fram að færa, og án efa er ég að gleyma einhverjum.

Það verður athyglisvert að sjá Reykjavík Deathfest á næsta ári, hvort hún verður jafngóð og hún var í ár, það er mikil eftirvænting í gangi, og hvaða hljómsveitir verða, bæði íslenskar og erlendar.

Author: Andfari

Andfari