í dag spjöllum við smá við hann þorstein kolbeinson, sem sér um wacken metal battle iceland, og kíkjum á hljómsveitirnar sem taka þátt í ár

Wacken Metal Battle Iceland hefur, næstum, verið fastur liður hér á hverju ári síðustu árin. Í gegnum þessa keppni hafa sveitir eins og Gone Postal (sem nú heitir Zhrine), Ophidian I og Beneath farið út til Þýskalands og spilað fyrir þúsundir hávaðaþyrsta þungarokksaðdáendur á Wacken Open Air. En, hvað er WMB og hvernig kom það til að þú, Þorsteinn K, byrjaðir í þessu?

WMB, eða W:O:A Metal Battle (eða Wacken Metal Battle) er alþjóðleg hljómsveitakeppni sem er haldin af Wacken Open Air þungarokkshátíðinni. Wacken er haldin fyrstu helgina í ágúst ár hvert í smábænum Wacken í Schlesvig Holsten fylki í Norður Þýskalandi. Keppnin hóf göngu sína 2004, þegar 6 hljómsveitir frá Þýskalandi kepptu en fyrstu 2 árin voru bara þýsk bönd í keppninni, þó að 5-6 erlendum sveitum hafi verið boðið að vera með sem gestasveitir. 2006 var keppnin svo útvíkkuð og gerð alþjóðleg fyrir alvöru og 7 þjóðir héldu undankeppnir í sínum löndum og sendu sigursveitir á Wacken. Síðan þá hefur þátttökuþjóðum fjölgað ár frá ári, þangað til að ekki var hægt að hafa fleiri þjóðir en 30 í keppninni, þ.e. einungis 30 slot á Wacken í boði. Þetta var árið 2011 og frá 2012 og síðan þá hefur bara bæst í hópinn og eru núna 42 þjóðir í “familíunni”. Það hefur aftur á móti þýtt að sumar þjóðir hafa þurft að sitja hjá, sem varð hlutskipti Íslands 2014. En, familían heldur áfram að stækka og heyrst hefur að Kúba muni senda hljómsveit á næsta ári. 🙂

Ég hef verið viðrinn Wacken lengur en lengstu menn muna… fór fyrst á hátíðina 1998 og svo aftur 2004 og þá voru svo margir íslendingar að fara að ég hóaði saman í hópferð, sem hefur svo verið farin á hverju ári síðan. Ég var farinn að taka eftir þessari Metal Battle keppni nokkuð snemma og sá hvernig hún var að stækka, og rétti bara upp hönd þarna eftir keppnina 2008 og spurði hvort að Ísland mætti vera með. Það var alveg auðsótt og 2009 var hlaðið í fyrstu keppnina hérna. Oh boy hvað það var gaman að taka þátt í þessu þarna fyrst og upplifa að íslensk hljómsveit var bókuð til þess að spila á Wacken Open Air. Holy Shit maður… Þetta var svona eiginlega fyrir eða í blábyrjun íslensku útrásarinnar í þungarokkinu og Sólstafir t.d. svona rétt að byrja að láta taka eftir sér. Þeir spiluðu þó 2010 á Wacken í fyrsta sinn, en ef frá er talinn Eiki Hauks sem kom fram með Artch á wacken í byrjun þessarar aldar, að þá var Beneath, sem vann keppnina 2009, fyrsta íslenska sveitin til að spila á hátíðinni.

Beneath kom einmitt fram núna í gær á Reykjavík Deathfest og voru það rosalegir tónleikar. Einnig var mjög gaman að sjá Gísla, fyrrum söngvara sveitarinnar, taka eitt lag þarna með henni. Menn hafa greinilega engu gleymt.
En, hverjir eru helstu kostir og gallar þess að standa í þessu?

Kostir: Að geta presenterað íslenskt þungarokk á The Cult Metal Festival heims, Wacken Open Air. Þetta er galin hátíð. Það selst alltaf upp á hátíðina daginn eftir að fyrri hátíð lýkur, og jafnvel þó að bara 5-10 sveitir séu staðfestar, og alveg án þess að þurfi risa-nöfnin í metalnum, eins og Metallica, Slipknot og það dót. Wacken er fyribæri. Wacken bærinn telur undir 2.000 íbúa og þegar 80.000 metalhausar þramma inn um bæjarmörkin á ári hverju er allur bærinn mættur út í garð, með borð og stóla, ömmur og afar í metalbolum með hornin á lofti, að hrópa WACKEN! á skrílinn keyrandi inn í bæinn með rúðurnar niðri og metalinn í botni. Að ótöldum öllum þeim bæjarbúum sem opna garðinn sinn og setja upp sinn eigin “beergarden” og matsölur við aðalgötu bæjarins. Andrúmsloftið á Wacken er engu líkt. Ég hef aldrei upplifað slagsmál á Wacken (nema einu sinni hjá fullum íslendingum í hópferðinni, haha).

Einnig er ótrúlega mikill partur af Wacken helginni orðinn að fá stóran fjölda af erlendu bransaliði til að tékka á íslensku þungarokki. Það er ekkert nema stór-ljómandi.

Gallar: Svakalega tímafrekt. Kostnaðarsamt.

Það kostar allt pening, Þorsteinn, sem maður vill gera vel. Talandi um það, eru WMB keppnirnar venjulega haldnar á þeim skala sem er í gangi hér á landi? Harpan í fyrra, Hlégarður í ár. Einhvern veginn hefði maður haldið að þetta væri frekar haldið á Ellefunni eða Gauknum.

Ég hef ekkert rosalega gott yfirlit yfir umfang keppnanna úti. Ég veit þó að Færeyingar halda keppnina sína í ca 200 manna leikhúsi. Danska úrslitakeppnin í fyrra var á 400 manna flottum spilastað í Álaborg (studenterhuset), þar sem Aalborg Metal Festival fer fram. Keppnin í Hollandi fór fram á 600 manna stað. Þetta er samt svolítið rokkandi. Í mörgum löndum fer þetta einmitt fram á stöðum eins og Gaukurinn, svona þetta 100-200 manna stöðum.

Það hefur verið venjan, eftir því sem ég best veit, að fá erlenda dómara hingað til lands á WMBI. Hér fyrir neðan má sjá lista yfir þá sem dæma í ár, bæði innlenda og erlenda aðila.

Arnar Eggert (Útvarpsmaður, blaðamaður og tónlistarfræðingur)
Arto Mäenpää (Kaaoszine)
Árni Mattíasson (Morgunblaðið)
Birkir Fjalar Viðarsson (Halifax Collect)
Bogi Bjarnason (Black Ice Express)
Dayal Patterson (Metal Hammer UK)
Dieter Bossaerts (Soundguy.be)
Evelyn R. Bär (Metal Battle South Africa)
Eyvindur Gauti (Andfari)
Gunnar Sauermann (Metal Hammer Þýskaland)
Louise Brown (Iron Fist)
Luca Pessina (Metal Italia)
Jochen Lumej (Metal Battle Holland)
Sigvaldi Jónsson (Dordingull)
Stefán Magnússon (Eistnaflug)
Stephen Lockhart (Studio Emissary)
Søren Weiss Kristiansen (BleastBeast DK)
Yngve Christiansen (BlastFest)

Að lokum kíkjum við svo á hljómsveitirnar sem taka þátt í ár. Eins og kom fram í viðtalinu við Þorsteinn verður keppnin haldin í Hlégarði, Mosfellsbæ. Munu sex hljómsveitir keppa um þann heiður að fá að keppa fyrir Íslands hönd á Wacken Open Air tónlistarhátíðinni gegn hljómsveitum víðsvegar úr heiminum. Auk hljómsveitanna sex sem keppa munu sigurvegarar síðasta árs, In the Company of Men, koma fram, sem og Dimma, sem allir Íslendingar ættu nú að þekkja. En, hvaða hljómsveitir eru það sem koma þarna fram?

Aeterna segist vera tilbúin til þess að sparka í rassa og tyggja jórturleður! Þessi öfgarokksveit hefur starfað í rúm fimm ár núna og gaf út breiðskífuna Eschaton á þarsíðasta ári. Eftir endalaust tónleikahald í tilefni þess hefur hljómsveitin eytt síðustu mánuðum í að semja og taka upp nýtt demo og munu áhorfendur án efa fá að heyra glænýtt efni á WMBI.

Auðn var stofnuð 2010 og, ólíkt meirihluta djöflarokkshljómsveita Íslands núna, siglir hún sjó melódísks ofsarokks sem var vinsælt í Noregi um miðbik tíunda áratugarins.

Churchhouse Creepers ættu aðdáendur íslensks stónerrokks að þekkja vel. Bæði Auðn og Creepers tóku þátt í Wacken Metal Battle á síðasta ári, og ég er frekar spenntur á því að sjá hver munurinn er á sveitunum nú að ári liðnu. Svo má nú ekki gleyma því að hljómsveitin gaf út breiðskífuna From Party to Apocalypse sem, eftir því sem ég best veit, hefur verið að fara ágætlega ofan í landann.

Grave Superior er frekar ung hljómsveit, ég held að hún hafi verið stofnuð 2014, en dauðarokk hennar er sterkt og þungt. Ég sá hljómsveitina á Bar11 síðasta föstudag og var hún helvíti sterk þarna, og ef ekki væri fyrir einhver vandræði með hljóð, hefði hún skilað fullkomnu setti af sér.

Lightspeed Legend er kannski ung en hún er skipuð reynsluboltum sem meðal annars spila, eða hafa spilað með, Ophidian I, Ask the Slave, Endless Dark og Future Future. Tónlistina mætti kalla nútímavætt glamrokk, það er svo sannarlega hægt að finna þarna kafla sem minna mann á lög frá þeim tíma, en þetta er ekkert koppípeist dæmi.

While My City Burns. Ef fólk var að hafa áhyggjur af því að WMB yrði harðkjarnalaust í ár þá þarf það ekki að hafa neinar áhyggjur því WMCB mun sjá um að rípresenta þann geira í ár. Sigurvegarar síðasta árs var einmitt harðkjarnasveitin In the Company of Men, svo það verður athyglisvert að sjá hvort Ísland muni senda harðkjarnasveit tvö ár í röð á Wacken Open Air.

Author: Andfari

Andfari