wormlust á inferno og ectovoid á dark abstraction

Það er annar í páskum og ég er vægast sagt saddur eftir páskakjötið og páskaeggin. Eggin. Í fleirtölu. Ég hélt að þannig vitfirringu ætti að hætta áður en maður kæmist á fullorðinsárin en það er greinilega ekkert heilagt.

Það eru allir í fríi og því lítið um að nýjar plötur séu að detta í pósthólfið þessa dagana. Það er þó ein plata sem má minnast á og það er Dark Abstraction með bandarísku dauðarokkssveitinni Ectovoid. Ég er ekki búinn að ná að renna henni almennilega í gegn en ég held ég taki mér smá tíma í það fljótlega. Ég hafði gaman af lögum hljómsveitarinnar á 4 Doors to Death safnplötunni, og þessi plata virðist nú hljóma alveg þokkalega. Blood Harvest Records gaf hana út á vínil í dag en hún kom víst út á geisladisk á síðasta ári hjá Hellthrasher Productions. Fínasta dauðarokk fyrir þá sem vilja hafa það dimmt og gruggugt.

Að lokum vil ég bara nefna Wormlust. Hljómsveitin sú kom fram á Inferno tónlistarhátíðinni í Noregi nú um helgina og eins og búast mátti við er myndband af viðburðinum komið á Alnetið. Algjör óþarfi að hafa fleiri orð um það, myndbandið er hér fyrir neðan. Njótið vel!

Author: Andfari

Andfari