oration mmxvi, fyrri hluti

Í kvöld lítum við yfir fyrra kvöld Oration tónlistarhátíðarinnar. Azoic. Abominor. Mannveira. Wormlust. Shrine of Insanibilis. Slidhr. Svartidauði.

oration

Ég held að skipuleggjendur Oration tónlistarhátíðarinnar hafi ekki getað beðið um betra veður þessa helgi. Það var bara kalt niðrí bæ, engin slydda eða hundleiðinlegt éljaveður. Kuldi, myrkur og ískalt djöflarokk, það var varla hægt að hafa þetta betra! Kíkjum aðeins á fyrsta kvöldið nú.

Ég mætti aðeins fyrir sjö á föstudaginn og þá var strax kominn slatti af fólki á Húrra. Fyrir utan hljómsveitameðlimina sem ég sá þarna held ég að flestir hafi verið útlendingar. Það segi ég eingöngu vegna þess að ég heyrði ekki einn einasta mann þarna, fyrir utan fólkið sem var að vinna á Húrra tala íslensku þarna. Má þó vel vera að fólk hafi bara verið að æfa sig í Duolingo, ég ætla ekkert að segja um það.

Azoic var fyrst á svið. Ég held að þetta hafi verið fyrstu tónleikar sveitarinnar í einhver þrjú ár og það var á einhvern hátt frekar augljóst. Það var mikill kraftur í hljómsveitinni og Tumi brilleraði á settinu, en á einhvern veginn virkaði hljómsveitin frekar stíf og það vantaði eitthvað í militarísku grimmdina sem ég hef fundið fyrir frá hljómsveitinni hingað til.

Abominor var næst og skilaði sínu vel af sér. Ég var að dýrka það hvað trommarinn var grimmur á settið og vil ég meina að þetta hafi verið einir af betri Abominor tónleikum sem ég hef séð hingað til.

Mannveira kom á eftir og hljómaði nokkuð vel, en einhverra hluta vegna heillaði hljómsveitin mig ekki eins mikið og hún hefur oft gert áður. Kannski það hafi verið Abominor að kenna.

wormlust

Wormlust. Ég var virkilega spenntur fyrir tveimur hljómsveitum þetta kvöldið og ég varð fyrir vonbrigðum með þær báðar. Wormlust var sú fyrri sem ég var hvað spenntastur fyrir og ég var engan veginn að njóta þess sem þarna var boðið uppá. Eins mikið og ég hef gaman af þessu á skífu hafði ég ekkert gaman af þessu á tónleikum. Mér sýndist þó, og hef heyrt síðar, að ég hafi verið í miklum minnihluta þarna og að sett Wormlust hafi vakið mikla lukku hjá djöflarokksunnendum víðsvegar úr heiminum sem þarna voru saman komnir. Ég verð víst bara að bíta í það súra epli.

Shrine of Insanabilis hafði ég gaman af. Þýsk hljómsveit sem spilar gott djöflarokk af nýja skólanum og tikkar í öll boxin. Það virkaði og meðlimirnir voru, flestir, ekkert alltof uppteknir af skónum sínum, sem er alltaf gaman að sjá.

Slidhr var hin hljómsveitin sem ég var hvað spenntastur fyrir að sjá þetta kvöldið og ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum þar. Það hefur þó ekkert með hljómsveitina að gera, og því er þetta kannski afskaplega mikill tittlingaskítur hjá manni. Hljómsveitin stóð sig virkilega vel, og það má að sama skapi segja um Wormlust, en hljóðið var einhverra hluta vegna ekki að gera sig og það hafði mikil áhrif á mig. Vonandi mun ég þó hafa tækifæri til þess að sjá hljómsveitina seinna því hún stóð sig ekki illa.

Svartidauði lokaði kvöldinu og það sem ég sá af settinu var mjög gott. Líkt og hjá Slidhr var bassinn hár í byrjun og þetta nógu helvíti hátt þá en svo virðist sem einhver hafi ákveðið að skella gítarmögnurunum í gang og ég horfði á eftir heyrninni út um dyrnar á Húrra. Ég fylgdi á eftir stuttu seinna.

Í heildina var þetta kvöld mjög vel heppnað og þegar ég yfirgaf tónleikana var ég spenntur fyrir laugardagskvöldinu. Ég lærði það þó þegar ég var að fara að á tónleikum sem þessum er best að kaupa varninginn snemma ef maður ætlar sér á annað borð að kaupa eitthvað. Ef maður bíður of lengi þá grípur maður stundum í tómt og það kom einmitt fyrir mig. Erfið voru hlutskipti safnarans þá.

Author: Andfari

Andfari