reykjavík deathfest

deathfest

Það bætist sífellt í flóru tónlistarhátíða hér á landi sem höfða til unnenda öfgarokks af ýmsu tagi. Eistnaflug og Andkristnihátíð hafa fylgt okkur í meira en áratug og Norðanpaunk stefnir í að verða fastur punktur um verslunarmannahelgina.
Í ár má búast við, allavega, tveimur hátíðum í viðbót, því Oration verður haldin núna eftir rúma viku og Reykjavík Deathfest strax eftir páska. Mér lék forvitni á að heyra hverjir væru á bakvið hina reykvísku dauðarokkshátíð og heyrði því í Aðalsteini úr Auðn og náði smá af upplýsingum upp úr honum.

Ég og Ingólfur Ólafsson (Ingó úr Severed – Innskot A.) erum megin skipuleggjendur hátíðarinnar en það er góður hópur drengja sem einnig lögðu hönd á plóg.

Hvað kom til að þið ákváðuð að gera hátíð af þessu tagi?

Hugmyndin kviknaði hjá mér þegar Ég, Hjalti og Siggi úr Auðn endurvöktum gamalt project sem hafði blundað síðan 2007. Við fundum loks bassaleikara sem hentaði í verkið og okkur langaði að koma efninu frá okkur og halda tónleika og þar kom hugmyndin að halda almennilega deathmetal tónleika til. Þá hafði ég í huga allt það helsta á íslenska markaðnum og það var ekki fyrr en ég hafði samband við Ingó varðandi að koma hugmyndinni af stað sem við fórum að hugsa stærra. Við hittumst nokkrir og lögðum á ráðin og útkoman var þessi að fara alla leið og bóka eina af upphalds hljómsveitum okkar allra og fá merginn af íslensku dauðarokki með í för.

Má búast við því að fleiri hljómsveitir bætist við eða er hljómsveitaskipan fullmótuð nú þegar?

Þetta er full line-up þetta árið. Við stefnum á að gera þetta að árlegum viðburði sem á vonandi eftir að stækka með hverju skiptinu. Upphaflega ætluðum við að halda tvö kvöld og hafa því mun fleiri bönd en tími og fjármagn vann gegn okkur og því varð eitt kvöld fyrir valinu að þessu sinni.

Að lokum er nauðsynlegt að minnast á nafnið, því það eru nú til nokkrar “Deathfest” hátíðir út í hinum stóra heimi. Er Reykjavík Deathfest á einhvern hátt tengd útlendum tónlistarhátíðum sem bera “Deathfest” titilinn?

Hátíðin tengist þeim ekki á neinn hátt nema að nafninu til, við vorum aðeins að kynna okkur nafnið og það lýtur út fyrir að menn séu nefnandi hitt og þetta Deathfest og það krefjist engrar tengingar við hina eiginlegu “Maryland Deathfest”. Vonum bara að við fáum ekki lögfræðing á okkur hehe.

Author: Andfari

Andfari