ketzer – starless

Starless er þriðja breiðskífa þýsku svartþrassarana í Ketzer, en jafnframt þeirra fyrsta undir fána Metal Blade. Hún er einnig nokkuð frábrugðin Endzeit Metropolis og Satan’s Boundaries Unchained, fyrri skífum sveitarinnar, að því leyti að hin hefðbundna þrasssverta er að mestu leyti horfin. Þess í stað er hljómsveitin á mun gotneskari slóðum, ekki ósvipuðum og hin sænska Tribulation leitaði á við gerð Children of the Night.

Hvort það sé svo auðvelt að rekja þessa stefnubreytingu Ketzer til þessarar einu plötu læt ég nú vera, en líkindin eru þokkaleg, sérstaklega á titillagi breiðskífunnar. Á öðrum stundum finnst mér þýska mulningsvélin hljóma eins og seinni tíma Watain, sem er svo sem ekkert slæmt heldur.

En hvað stendur eftir? Á hljómsveitin eftir að lifa af samanburðinn við sænsku dauðagotana í Tribulation? Já, ég held það. koppíkatt-stimpillinn eltir margar sveitirnar lengi en ég held að Ketzer þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af slíkur, ekki á meðan sveitin framleiðir slagara á borð við “Godface” og “Count to Ten”.

Ketzer
Starless
Metal Blade Records
29 janúar

 

Author: Andfari

Andfari