2016.4 – black tusk, conan, ketzer, master, mourning beloveth, spektr, xantam

Áður en við byrjum að skoða athyglisverða titla sem koma út í þessari viku verð ég að minnast á nýjustu breiðskífu Mourning Beloveth, Rust & Bones, sem kom út í fyrradag hjá Ván Records. Þessir írsku spámenn dómsdagsmálms eru að gera virkilega góða hluti á þessari plötu, sem er svo þung að vínillinn þarf án efa að vera 180 grömm til þess að halda þessum rosalegheitum!

Black Tusk. Amerískt fenjarokk. Pillars of Ash kemur út á föstudaginn hjá Relapse Records. Fjórða plata sveitarinnar, en jafnframt sú síðasta sem Jonathan Athon, sem lést 2014 í kjölfar umferðarslyss, spilaði inn á. Fínasta fenjarokk fyrir þá sem hafa áhuga á.

Conan. Enskur dómsdagsmálmur. Revengeance kemur út á föstudaginn hjá Napalm Records. Ein af þeim sveitum sem komu mér þokkalega á óvart á síðasta Eistnaflugi var einmitt þessi sveit. Fyrir hátíðina hafði ég eitthvað kíkt á efni með hljómsveitinni en var ekkert rosalega sannfærður en eftir tónleikana var ég breyttur maður. I like it a lot!

Ketzer. Þýsk þrasssverta. Starless kemur út á föstudaginn hjá Metal Blade. Smá breyting í gangi hjá Ketzer, virðist vera. Á síðustu plötum hafa þeir átt meira en lítið sameiginlegt með Destroyer 666, en nú heyrast áhrif Tribulation skýrt. Tilviljun eða álíka þankagangur?

Master. Amerískt dauðarokk. Þessi hljómsveit hefur starfað, næstum, sleitulaust síðan 1983. Það mætti því segja að hún verði 33 ára á þessu ári, sem er nú frekar vel af sér vikið fyrir dauðarokkshljómsveit. Á þessum tíma hefur hún gefið út tólf breiðskífur og verður þetta því hennar þrettánda skífa. Er hún ennþá jafn grimm? Tja, hvað finnst þér?

Primal Fear. Þýskt Power Metal. Rulebreaker kemur út á föstudaginn í gegnum Frontiers Music. Ég man eftir því þegar Nuclear Blast virtist ekki gera neitt annað en að auglýsa þessa hljómsveit. Í þá gömlu góðu daga þegar þýskt ostarokk var í algleymingi og Hammerfall, sú sæta sænska kjötbolla, var heitasta bandið í bænum. Ég vil helst samt gleyma þeim tímum. Jafnvel þó þeir hafi verið athyglisverðir.

Spektr. Franskt Industrial Black Metal. Kemur út á vegum Agonia Records á föstudaginn. Fínasta skífa út í gegn en ef þú ert að leita að einhverju sem hljómar eins hrátt og Mysticum gætirðu orðið fyrir smá vonbrigðum. Meiri DHG og Blacklodge fýlingur í þessu.

Xantam. Amerískt dauðarokk sem Blood Harvest gefur út á morgun. Hérna er reyndar um að ræða endurútgáfu á Lifedeathbeyond, demoi sem Xantam the Beholder, heilinn á bakvið sveitina og reyndar hennar eini meðlimur, gaf sjálfur út í fyrra. Framúrstefnulegt dauðarokk sem á eftir að höfða til þeirra sem vilja dauðarokkið sitt aðeins öðruvísi. Einmitt í augnablikinu er ég á báðum áttum.

Author: Andfari

Andfari