spenningur í janúar – hemúllinn, dulvitund, opprobrium, lycus, bloodiest, mourning beloveth, momentum

momentum
momentum

Ég kíkti á tvenna tónleika í gær, en gleymdi þó að taka myndir á báðum. Á Dillon sá ég Hemúlinn en á Gauknum sá ég Dulvitund. Ólíkari hljómsveitir er eflaust erfitt að finna. Hemúllinn með sitt tölvuleikjapönk og Dulvitund með sína minimalísku hljómsköpun. Það var frekar troðið á báðum stöðum og gaman að sjá fólk mæta til þess að njóta grasrótarinnar.

En, kíkjum á hvað er spennandi að gerast í janúar. Í þessari viku verður Andfarinn með tvær frumsýningar á plötum sem munu svo koma út í lok vikunnar. Hvaða plötur? Að því muntu komast á morgun og hinn, svo ég ætla ekki að eyða meiri tíma í þær. Hins vegar ætla ég að tala um aðrar útgáfur sem vert er að hafa auga með í þessum mánuði.

Opprobrium þekkja eflaust einhverjir, þó margir hafi þekkt þá sem Incubus þegar þeir gáfu út kvlt-klassíkina Beyond the Unknown fyrir aldarfjórðungi síðan. Áður hafði hljómsveitin þó gefið út Serpent Temptation og verður sú skífa endurútgefin nú undir merki Opprobrium. Farið var yfir gömlu teipin og þau hljóðblönduð aftur og sá Brad Boatright, sem hefur séð um slíkt fyrir Sleep og Obituary, um það. Þar að auki verða gömul demó-lög að auki og öll umgjörðin mun veglegri en áður. Það virðist því sem þetta sé ekki ein af “græðum á þeim gömlu” útgáfum sem maður hefur oft rekist á þar sem engin pæling, önnur en sú að græða pening með sem minnstum tilkostnaði, er í gangi. Relapse Records að standa sig vel þarna.

incubrium
incubus / opprobrium

Relapse virðist vera með þétta dagskrá næstu tvær vikurnar því fjórar útgáfur, að minnsta kosti, eru áætlaðar þá. Fimmtánda janúar kemur út áðurnend Opprobrium endurútgáfa en auk þess koma plötur með Lycus og Bloodiest út. Sú fyrrnefnda er níðþung dómsdagsmálmshljómsveit sem ætti að höfða vel til fólks hvort sem það fílar Disembowelment, Thergothon, Momentum eða Svartadauða. Bloodiest eru slöddsaðri á því og samkvæmt kynningarefninu þá ættu þeir að höfða vel til fólks sem hefur gaman af Neurosis, Swans, YOB og Sólstöfum. Ég heyri lítið af Sólstöfum þarna en þeim mun meira af Neurosis, og ætla ég nú ekki að segja það slæmt.

bloodiest / lycus
bloodiest / lycus

Tuttugasta og annan þessa mánaðar kemur svo út sjötta breiðskífa írsku dómsdagsmeistaranna í Mourning Beloveth. Ótrúlega þungt og hægt og niðurdrepandi, alveg eins og það á að vera. Ég er mjög spenntur fyrir þessari plötu!

Ég byrjaði þessa upptalningu á endurútgáfu og ég ætla að enda hana á svipuðum nótum en eftir tólf daga mun Dark Essence gefa út Fixation, at Rest, fyrstu plötu íslensku framúrstefnurokkaranna í Momentum, sem kom út hjá Molestin Records fyrir næstum sex árum. Samkvæmt hljómsveitinni mun platan fyrst einungis verða aðgengileg á netinu, rétt eins núna, en koma út á geisladisk aðeins seinna á árinu.

mourning beloveth / momentum
mourning beloveth / momentum

Author: Andfari

Andfari