malthusian vs. oration

malthusian

Það eru bara sjö vikur í Oration tónlistarhátíðina sem fer fram á Húrra 19. og 20. febrúar og eflaust er fleira fólk en ég alveg að gera í brækurnar hérna og búið að hlaða Fan Mode appinu niður. Disclaimer: Ekki leita að því appi því það er örugglega ekki til. Ef það er til þá er það frekar sorglegt.

Öllu gamni slepptu þá er spenna mín fyrir þessari hátíð nokkuð há þó hún sé nú ekki á hættulegum slóðum. Það er ólíklegt að þið eigið eftir að sjá mig labba um Húrra að biðja hljómsveitameðlimi um áritanir á múbbsin mín, þó maður eigi náttúrulega aldrei að segja aldrei.

Fyrst það styttist nú óðum í þessa hátíð er fínt að taka nokkra laugardaga í það að fjalla eitthvað smá um þær hljómsveitir sem þar koma fram. Heildarlistann má nálgast á Fjasbókarsíðu hátíðarinnar en Andfarinn ætlar að byrja á írsku hljómsveitinni Malthusian.

Hljómsveitin var stofnuð 2012 og inniheldur fjóra meðlimi sem hafa, meðal annars, komið við í Wreck of Hesperus, Mourning Beloveth og Abbadon Incarnate á lífsleiðinni. Eins og heyra má á myndbandinu hér að neðan er öfgarokk hennar ríkt af dauða, ringulreið og myrkri. Hljómsveitin ætti því að höfða vel til fólks sem langar að finna fyrir smá gæsahúð þegar það hlustar á sína uppáhalds tónlist.

Kíkið á lagið hérna fyrir neðan og svo á smáskífuna Below the Hengiform sem kom út í fyrra hjá Invictus Productions. Passar vel við stuttan daginn.

Author: Andfari

Andfari