niðafjöll

nidafjolllogo

Fyrsta breiðskífa Misþyrmingar lenti í áttunda sæti lista Fréttatímans yfir bestu íslensku plötur ársins, Naðra stefnir á útgáfu í byrjun næsta árs og djöflarokkshátíðin Oration er handan við hornið. Íslenskt djöflarokk er svo sannarlega á góðu róli þessa dagana og alltaf heyrir maður af nýjum hljómsveitum.
Niðafjöll er ein af þeim sveitum sem eru að koma fram þessa dagana og er fyrsta plata sveitarinnar, Endir, nýlega lent á Alnetinu. Í tilefni þess hafði ég samband við Sigurboða, manninn á bakvið Niðafjöll, og spurði hann aðeins út í það hvað væri í gangi.

nidafjoll

Hvenær var Niðafjöll stofnuð og af hverju er þetta sóló prójekt?
Niðafjöll var ekki beint “stofnuð” þar sem ég er einn með þetta. Ég vann að lögunum í 7 ár og þau breyttust og þróuðust mikið.
Ég hef áður verið í hljómsveitum en hef alltaf átt erfitt með að vinna með öðrum tónlistamönnum þegar það kemur að því að semja tónlist. Ég er frekur og ákveðinn í því hvernig hlutirnir eiga að vera. Veturinn 2014 gerði ég tilraun til að stofna hljómsveit til að spila þessi lög en menn voru að mæta illa á æfingar og illa æfðir, það gengur ekki þegar maður er band nazi. Ég ákvað því að gera þetta allt sjálfur, en þegar ég segi allt þá tek ég samt fram að ég fékk einhverja aðstoð en gerði allt að mestu leiti.

Hverjir eru áhrifavaldar þínir þegar að sköpun tónlistar Niðafjalla kemur?
Stærstu áhrifavaldarnir eru melodísku og sinfonísku metalsveitirnar, Þá helst Moonsorrow, Wintersun, Fleshgod Apocalypse, Dimmu Borgir og fleira á þessum slóðum.

nidafjollcover

Og svo er það spurningin með textana. Er eitthvað sérstakt þema sem þú ert að skoða þegar að þeim kemur?
Textana samdi ég eiginlega þegar ég var byrjaður í upptökum á plötunni. Ég hafði alltaf haft einhverja hugmynd um hvað ég vildi samt. Platan er með söguþráð í gegn sem fjallar um karl og konu sem deyja í byrjun Ragnaraka. Þau verða viðskilja og hann fer að leita að henni. Á meðan er hann að fylgjast með Ragnarökum gerast í kringum sig. Hann gengur í gegnum sviðna jörð eftir her Surts og fylgist með Yggdrasil brenna. Hann endar á að fara til Heljar og biðja hana um að frelsa ástina sína en Hel neitar. Þá biður hana þess í stað að frysta hjartað í sér svo hann þurfi ekki lengur að finna fyrir sársauka og söknuði.
Voðalega tragic allt saman.

Hægt verður að versla eintak af plötunni í byrjun næsta árs, eftir því sem Sigurboði sagði, en þangað til er hægt að hlusta á plötuna í heild sinni í spilastokknum sem er hér fyrir ofan, í byrjun viðtalsins.

Author: Andfari

Andfari