ghost í amager bio

Það var fiðringur í mér þegar ég ferðaðist frá Malmö yfir til Kaupmannahafnar síðasta laugardag til þess að sjá Ghost og sá fiðringur var ekki eingöngu af góðu kominn. Daginn áður höfðu yfir hundrað manns látist á tónleikum Eagles of Death Metal í París þegar hryðjuverkamenn réðust þar inn og afdrif þeirra voru mér ofarlega í huga.

Þau voru einnig ofarlega í huga Papa Emiritus III það kvöldið þar sem hann minnti okkur áhorfendurna á mikilvægi þess að láta ekki undan óttanum sem illvirkjarnir vilja ala í okkur. Hinar nafnlausu náætur sýndu mannlega hlið sína þetta laugardagskvöld þar sem þær minntu okkur á mikilvægi samstöðu á tímum sundrungar.

Kvöldið byrjaði þó aðeins fyrr á sænsku hljómsveitinni Dead Soul, sem spilar tregafullt, þungt og frekar industrial-legt rokk. Einn söngvari, tveir gítarleikarar og fullt af aukdóti í tölvunni. Óhefðbundin liðsskipan, ef til vill, en hljómsveitin náði að koma sínu vel frá sér og áhorfendur virtust skemmta sér vel þessar fjörtíu mínútur sem hún hafði þetta kvöldið.

Hálftíma eftir að tregafullu Svíarnir höfðu lokið sér af stigu nafnlausu náæturnar á svið og byrjuðu með látum á laginu “Spirit”. Framan af klæddist Papa hinum hefðbundna páfabúning sem hann hefur verið þekktur fyrir að koma fram í en þegar á leið skipti hann yfir í mun léttari klæði, þau sem hann klæddist nýlega á órafmögnuðum túr hljómsveitarinnar um Bandaríkin. Þýðir það máski að nýr Papa verði ekki vakinn upp fyrir næstu plötu?

Ghost tók mun minna af Opus Eponymous en ég bjóst við, en þeim mun meira af Infestissumam en ég hefði búist við, og það var mjög gaman að sjá hljómsveitina spila “Year Zero” og “Ghuleh/Zombie Queen” og að heyra áhorfendurna taka vel undir í viðlögunum. Hljómsveitin tók næstum því alla Meliora, fyrir utan að hún sleppti “Deus in Absentia” þetta kvöldið. Það var lítið, ef nokkuð, hægt að setja út á sviðsframkomu hljómsveitarinnar og það var mjög gaman að sjá Papa gantast við áhorfendur á milli þess sem hann söng söngva um ill öfl og myrkar athafnir.

Í enda dags gekk ég út endurnærður á líkama og sál, og tel að ég geti sagt að þetta eru einir af þeim bestu tónleikum sem ég hef séð hingað til.

Author: Andfari

Andfari