cranium plús facebook samasem góðir tímar

Undirritaður hefur stundað spjallborð þungarokksnörda á Netinu í fjölda ára. Á þeim tíma hefur hann fengið ágætis fjölda skeyta frá erlendum þungarokkurum sem allir ganga út frá því að það sé auðveldara að nálgast helstu perlur íslensku þungarokkssögunnar en brauð með osti. Á óskalista þessara aðila hafa verið útgáfur Flames of Hell, Drýsils og svo auðvitað Sororicide. Allir þungarokkarar, sem og mæður þeirra, virðast vera að leita að upprunalegu eintaki af The Entity.

Einstaka sinnum hefur það þó komið fyrir að spurt hafi verið um aðrar goðsagnir íslensks öfgarokks. Orðstír Strigaskónna, Múspells, Forgarðs Helvítis og Cranium virðist hafa ratað út fyrir landssteinanna, og þegar ég sá að sú hljómsveit sem ég nefndi hér síðast, virtist komin á Fésbókina fannst mér við hæfi að komast að því hvort meðlimir hennar stæðu sjálfir að þessari síðu, hvers vegna hún hefði verið sett upp og hvort það væri möguleiki að í kjölfarið kæmi jafnvel til útgáfu á efni sveitarinnar, sem hefur verið ófáanlegt í lengri tíma.

Smelltu hér til þess að komast inn á Fésbókarsíðu Cranium.

Svörin sem ég fékk við spurningum mínum voru stutt og skorinort. Já, hljómsveitin stendur sjálf að síðunni og tilgangur síðunnar er sá að halda utan um efni henni tengt og hafa það sýnilegt þeim sem það vilja sjá. Við síðustu spurningunni, og eflaust þeirri mikilvægustu að margra mati, var svarið jákvætt. Samkvæmt Cranium mun Abduction vonandi verða gefin út á vínil á næsta ári.

Það er því vonandi að allt gangi eftir og að kvltsetta Cranium komi út á vínilformi á næsta ári.

Author: Andfari

Andfari