crippled black phoenix – spider island

Þessi frumsýning hér hlýtur að vera himnasending fyrir ákveðinn Akureyring með massíft blæti fyrir Pete Steele og félögum hans í Type O Negative. Það er þó ekki svo að Stálmaðurinn sé risinn upp úr gröf sinni, heldur er hér um að ræða Crippled Black Phoenix, sem Justin Greaves stofnaði fyrir ellefu árum síðan. Justin þessi var áður liðsmaður Electric Wizard og Iron Monkey, en aðdáendur drullugs dómsdagsrokks ættu að þekkja vel til þeirra sveita. Þegar hann hafði sagt skilið við þær sveitir stofnaði hann Crippled Black Phoenix sem sækir innblástur til hljómsveita á borð við Type O og Pink Floyd.

Síðan hljómsveitin var stofnuð hefur hún gefið út fimm hljóðversplötur og er sú sjötta væntanleg fljótlega í gegnum frönsku plötuútgáfuna Season of Mist, en það verður fyrsta breiðskífa sveitarinnar þar.

Lagið sem við fáum að heyra hér, “Spider Island”, er fyrsta lagið á væntanlegri smáskífu sveitarinnar en sú ber heitið New Dark Age Tour EP 2015 A.D.
Ótrúlegt en satt þá er sú smáskífa gefin út í tilefni þess að hljómsveitin er á leiðinni á smá ferðalag um Evrópu svo ef þú átt leið yfir á meginlandið á næstunni er aldrei að vita nema þú getir kíkt á tónleika með sveitinni.


Crippled_Black_Phoenix-admat-EU-2015

Author: Andfari

Andfari