abbath – fenrir hunts

Ég man ennþá eftir því þegar ég heyrði fyrst “A Perfect Vision of the Rising Northland” fyrst. Ef þú þekkir ekki til þá er þetta titill síðasta lagsins á Diabolical Fullmoon Mysticism, fyrstu breiðskífu norsku djöflarokkssveitarinnar Immortal.

Ég man ennþá eftir því þegar ég sá myndbandið við “Call of the Wintermoon” fyrst. Mér fannst það meiriháttar, yfirdrifið, fyndið og hræðilegt. Góð blanda.

Ég man ennþá eftir því þegar ég sá myndaþátt enska þungarokkstímaritsins Metal Hammer þar sem Abbath og félagar rölta um götur London. Já, allt í lagi, ég sá það fyrst í gær þannig að það er ekkert ótrúlegt að það skuli vera mér ferskt í minni.

Langaði mig í raun og veru þó að sjá Abbath borða pylsu? Langaði mig að sjá King í útvíðum buxum eða Creature í síðum leðurfrakka? Nei, þannig séð langaði mig ekki til þess en ég skoðaði það þó. Það má vel vera að það hafi stytt líf mitt um nokkrar mínútur en áhættur sem þessar lætur maður sig vaða út í án þess að blikna og hugsa sig tvisvar um.

Líklega hefur þú heyrt um þrasið sem núverandi og fyrrverandi meðlimir Immortal hafa staðið í síðustu misseri. Svo virðist sem Abbath sé ekki lengur meðlimur Immortal. Abbath er víst bara frontmaður Abbath núna. Magnað það!

Látum það ekki hafa mikil áhrif á okkur og gleymum okkur í þessu myndbandi sem tekið var upp á finnsku þungarokkshátíðinni Tuska. Myndbandið er við lagið “Fenrir Hunts” sem verður á fyrstu breiðskífu þessarar miklu hljómsveitar sem kemur út fljótlega. Settu myndbandið af stað og gleymdu þér í svölum hvirfilsbylsvindum norðurmyrkurs!

Author: Andfari

Andfari