úrhrak, mannvirki, naðra og misþyrming á gauknum

texti: eyvindur gauti
naðra – mynd & texti: eyvindur gauti

Staðalímyndir eru meiriháttar. Ætli það sé ennþá svo að þegar fólk hugsar um þungarokkara þá hugsi það um unga menn sem líta út eins og Jed og Dave úr Hale & Pace? Ætli það telji að það sé skylda að vera með sítt hár og baðferðir séu einungis stundaðar á tyllidögum? Því hefði þá brugðið í brún hefði það vafrað inn á Gaukinn síðasta föstudag, þegar útgáfan Vánagandr stóð þar fyrir tónleikum. Þar komu fram hljómsveitirnar Úrhrak, Mannvirki, Naðra og Misþyrming, sem allar spila þungarokk í harðasta kantinum.

Þarna voru svo sannarlega síðhærðir karlmenn, í galla- eða leðurjökkum með ásaumuðum hljómsveitamerkjum. En þarna var einnig að finna stutthærða karlmenn og karlmenn í jakkafötum og síðast en ekki síst konur!

Af hverju upphrópunarmerki? Vegna þess að lengi hefur ríkt sú mýta að konur sem hlusti á þungarokk séu ekkert annað en fylgihlutir sem hlusti bara á það sem kærastar þeirra hlusta á. Vel má vera að slíkt eigi við um einhverjar en það átti ekki við um stúlkurnar sem stóðu við hliðina á mér upp við sviðið og hreyfðu sig í takt við tónlistina.

En að tónlistinni! Líkt og Íslendingum er tamt þá mætti ég aðeins seinna en sagt var að tónleikarnir ættu að byrja. Reynslan hefur kennt mér að tónleikar hér byrja sjaldan á auglýstum tíma og því var ég ekkert að stressa mig um of þó klukkan væri að skríða í ellefu þegar ég rölti inn á Gaukinn. Úrhrak var þegar byrjuð og tók því hrár, kaldur og klassískur svartmetall á móti mér þegar á efri hæðina var komið. Ég hafði ekkert heyrt um þessa hljómsveit fyrir tónleikana en eftir því sem ég best gat séð deilir hljómsveitin allavega einum meðlim með Nöðru.

Næstir á svið voru Mannvirki en hljómsveitin var sú eina þetta kvöldið sem ekki tilheyrði svartmetalnum. Hvað ætti maður að kalla þetta? Harðkjarnarokk? Tuddarokk? Svo-þungt-að-þig-langar-að-hoppa-á-vegg-rokk? Þetta var allavega níþungt og virkilega gaman að sjá. Mannvirki var einnig, sýndist mér, eina hljómsveitin sem deildi ekki meðlimum með öðrum hljómsveitum sem voru að spila þetta kvöld. Endilega leiðréttið mig ef ég fer með rangt mál hérna.

Á eftir Mannvirki kom Naðra á svið með sinn hráa en á sama tíma sólódýrkandi svartmetal. Síðast þegar ég sá Nöðru hafði söngvarinn einnig séð um bassaleik en nú hafði breyting orðið á og nýr meðlimur gengið til liðs við sveitina. Hljómsveitin skilaði sínu vel af sér en ef maður þyrfti að setja út á eitthvað þá var það hversu lágt heyrðist í söngvaranum á stundum. Hvað orsakaði það veit ég ekki. Þeir enduðu á ábreiðu, gömlum svartmetalsslagara sem ég get ekki munað hvað heitir núna, sem fór vel í fólk.

Síðastir á svið voru Misþyrming. Meðlimir þeirrar sveitar koma víða að, úr Carpe Noctem, Nöðru, Abacination og Logni, ef mér skjátlast ekki. Ólíkt þeim svartmetalhljómsveitum sem spilað höfðu fyrr um kvöldið virðast áhrifavaldar Misþyrmingar vera margir af samtímamönnum okkar. Ekki virðist litið eins mikið til eldri tíma svartmetalsins og jafnvel hleypt inn einhverju af seinnitíma dauðarokki. Það er ekki slæmt og á eflaust eitthvað í kraftinum sem er í tónlist Misþyrmingar.

Á heildina litið voru tónleikarnir góðir. Hljómsveitirnar stóðu sig mjög vel, Gaukurinn var ágætlega pakkaður og það voru engin vandræði á fólki eftir því sem ég best veit, það er svona sem maður vill að þungarokkstónleikar gangi fyrir sig.

vánagandr
misþyrming
naðra
mannvirki
úrhrak

Author: Andfari

Andfari

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s