de mysteriis… tuttugu árum síðar, partur einn

aska

Fyrir rúmri viku átti ein sögufrægasta skífa svartrokksins tvítugsafmæli. Skífan sem um ræðir er, auðvitað, De Mysteriis Dom Sathanas, eitthvað það besta sem gerst hefur í Noregi ef frá eru talin hin mislukkuðu eldvarnanámskeið sem Varg Vikernes hélt víðsvegar í Noregi í byrjun tíunda áratugs síðustu aldar.
Það er því við hæfi að fjalla smávegis um DMDS og hlutina í kringum skífuna og fékk Andfari því nokkra aðila til þess að tjá sig um skífuna og hvaða áhrif hún hafði á þá. Fyrstu til þess að stíga á sviðið er Kristófer Páll, sem sést hér að ofan í leðurjakka, en hann hefur gert garðinn frægan í hljómsveitum á borð við Naught, ösku og Vansköpun. Það er ekki eftir neinu að bíða, gefum Kristóferi orðið!

Um miðbik níunda áratugar síðustu aldar átti töfrandi atburður sér stað í Svíþjóð, eða ekki. Árið er 1985 og The Return (of Darkness end Ívjúl) með Bathory var dregin fram í dagsljósið undan Black Mark Productions, aðeins þremur árum eftir að Venom gefa afmynduðu afkvæmi þungarokks nafn með annari breiðskífu sinni, Black Metal. Það má í raun og veru miða við The Return þegar hrokafullt graðhestarokk ummyndast yfir í kolsvart dauðarokk. Tveimur árum seinna gefa Mayhem út Deathcrush, Poison út Into the Abyss og Sarcofago gefa út I.N.R.I. svo dæmi séu tekin um framvindu dauðarokks. Fáeinum árum seinna skjóta áberandi afkastamiklar senur upp kollinum meðal annars Í Finnlandi, Póllandi, Frakklandi og Noregi og punga út útgáfum sem margar hverjar er óhætt að tala um sem sígildar í dag.

Ein af þessum plötum er De Mysteriis Dom Sathanas og ekki telst undravert að hún sé ofarlega á listanum yfir þær breiðskífur sem fólk leiðir augum að við fyrstu kynni á dauðarokki. Í mínum spilara varð hún með tíð og tíma spari, og ég efast um að slík upplifun sé óalgeng. Eftir að ég áttaði mig á inntaki plötunnar, sem og snilldarlegri samsetningu tónlistar og textagerðar, var hún spiluð oftar en góðu hófi gegnir, jafnvel daglega svo árum skipti. Mér hefur aldrei tekist að fá ógeð á henni, hún er einfaldlega of góð til þess að hlusta á hana öðruvísi en í góðu tómi til að meðtaka áhrif hennar og geðshræringu almennilega. Svo áþreifanlegur og sannfærandi fjandskapur er mjög sjaldgæfur á upptöku, enda loða uggvænir atburðir á borð við morð, sjálfsmorð og kirkjubrennur við upptökurnar, sem óþarfi er að þylja upp í smáatriðum á þessum tímum upplýsingar. Í dag er De Mysteriis talin vera tímamótaverk og hornsteinn í seinnibylgju dauðarokki. Platan er gefin út árið 1994 af Deathlike Silence Productions, sama ár og Transilvanian Hunger, Pentagram, The Shadowthrone, In the Nightside Eclipse og Hvis Lyset Tar Oss líta dagsins ljós í Noregi, og teljast þær allar til sígildra verka í dag, jafnvel til skildueignar af þeim gallhörðustu. DMDS var samin einhverjum tíma áður en upptökur hófust, sem seinkaði eðlilega út af erilganginum í þeim félögum. Til er ógrynni af ‘bootleg’ tónleikum þar sem Mayhem flytja lög af De Mysteriis með Dead í fararbroddi áður en DMDS var gefin út. Þegar ég kynntist DMDS fyrst féll hún ekki eins vel í kramið og Transilvanian Hunger og In the Nightside Eclipse því óvingjarnlegur söngurinn er erfiður viðureignar í fyrstu. Eins og algengt er með heldri tónlist, síaðist heildarmyndin ekki almennilega inn við fyrstu kynni, en áhrif söngsins færðu sig upp á skaftið með hverri hlustun og hann fór að meika meiri sens. Í dag þykir mér hann vera punkturinn yfir i-ið og platan ofarlega á listanum yfir mínar uppáhalds. Ef mér skjátlast ekki skrifaði Dead alla textana nema þann fyrir titillagið, og eru þeir eðlilega afar stór partur af heilarmyndinni. Mitt eftirlætis lag af DMDS er “Life Eternal”. Jú prei for deþ!

Þrátt fyrir að plötur á borð við The Return og DMDS séu ekki gefnar út á hverju ári eru afbærir gerningar á sveimi yfir dauðarokksandanum og erfitt er að fylgjast með öllum þeim böndum sem standa upp úr. Það eru spennandi útgáfur í umferð árlega, en sjálfur fylgist ég einna helst með því sem kemur út á vegum Terratur Possessions, Ajna, Invictus, Norma Evangelium Diaboli, Nuclear War Now, Sepulchral Voice, Ván, Iron Bonehead… Af öllu því dauðarokki sem að mínu mati ber af í dag er oft á tíðum ekki laust við auðgreinanleg áhrif frá De Mysteriis, tuttugu árum seinna, þótt það sé engin reglufesta. Það verður ekki skafað ofan af því að De Mysteriis Dom Sathanas er og verður áfram skilgreiningin á svörtu dauðarokki, sama hvort þér líki hún betur eða verr.

Author: Andfari

Andfari

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s