blood incantation kíkir á landann í mars, spilar á húrra

Já, ég held að ég geti ekki verið annað en ánægður með þær fréttir að ameríska dauðarokkssveitin Blood Incantation mun heimsækja okkur í mars á næsta ári. Sveitin mun koma fram, ásamt Sinmara og Urðun, á öðru fjáröflunarkvöldi Reykjavík Deathfest sem fram fer á Húrra sextánda mars.

Ef þú þekkir ekki Blood Incantation ýttu á þá á play á spilastokknum hér fyrir neðan. Hljómsveitin gaf nýlega út sína fyrstu breiðskífu, Starspawn, og er ég á því að sú skífa eigi eftir að enda á mörgum topp tíu listum þessa árs hjá öfgarokksspekingum.

upptaka frá tónleikum mayhem í osló

Síðasta laugardag kom hin goðsagnakennda djöflarokkssveit Mayhem fram í Osló og tók hina goðsagnakenndu plötu De Mysteriis Dom Sathanas í öllu sínu goðsagnakennda veldi!

YouTube notandinn Mr. Deathfather hefur verið duglegur að taka upp tónleika í Osló síðustu misseri og var hann á staðnum með sína traustu myndavél. Því miður voru aðstæður ekki sem bestar en þó ættu aðdáendur hljómsveitarinnar að hafa gaman af þessu myndbandi.

ný stuttskífa væntanleg frá endalokum

Afskræming holds og sálar mun skífan sú kallast og koma út á vegum Signal Rex. Um svipað leyti mun portúgalska útgáfan gefa út fyrstu breiðskífu Draugsólar.

Afskræming holds og sálar verður gefin út á tólf tommu vínil, stuttskífan verður á framhliðinni og demo sveitarinnar, sem Signal Rex gaf út fyrr á þessu ári, verður á bakhliðinni.