hlustaðu á nýju crippled black phoenix plötuna á andfara

Já, hljómar það ekki bara ágætlega? Að skella nýju Crippled Black Phoenix á? Er nokkuð betra nú þegar veturinn er smám saman að færast yfir okkur?

Platan heitir Bronze og koma út í enda næstu viku í gegnum Season of Mist. Season of Mist, heimili íslensku hljómsveitanna Sólstafa, Kontinuum, Auðn og Zhrine.

nýtt undir nálinni 241016

Tónlistarhátíðin Vetrnætur fór fram á Gauknum núna um helgina, og fannst undirrituðum hátíðin ganga mjög vel fyrir sig. Auðvitað var eitthvað sem betur hefði mátt fara, tveir magnarar voru víst ekki uppá sitt besta þarna og orsakaði það leiðindi með hljóð hjá Abominor og Nöðru. En, að öðru leyti gekk hátíðin vel, sýndist mér, og fólk virðist hafa fylgt tilmælum um að hafa hljótt á meðan Nyiþ og Phurpa komu fram nokkuð vel. Ég tók viðtal við skosku hljómsveitina Lunar Mantra sem ég mun birta hér á næstu dögum.

Svartidauði og Sinmara komu ekki fram hátíðinni, en hljómsveitirnar áttu að koma fram á skosku djöflarokkshátíðinni Caledonian Darkness nú um helgina. Því miður áttu skipuleggjendur hátíðarinnar við mikla fjárhagserfiðleika að etja, vegna dræmrar miðasölu og annara þátta, sem orsakaði það að þeir gátu ekki greitt staðnum sem hátíðin var haldin á. Vegna þess, og vegna þess að einhver makaði blóði á veggina baksviðs, neitaði staðarhaldari tónleikahöldurum um að klára kvöldið og því fengu Svartidauði og gríska dauðarokkssveitin Dead Congregation ekki að koma fram. Frekari upplýsingar um þetta má lesa hér.

Og frá gleði þeirri sem grískt dauðarokk er förum við til Sviss, en Íslandsvinirnir í Bölzer skelltu nýju lagi á netið í dag. Níðþungt, rétt eins og settið þeirra á Eistnaflugi fyrir þremur árum eða svo, muni ég rétt. Lagið er tekið af fyrstu breiðskífu sveitarinnar, Hero, sem kemur út í enda nóvember á vegum Iron Bonehead Records.

Stundum gerist það að maður gleymir sér, líkt og gerðist hjá mér í gær þegar ég gleymdi að skella í póst fyrir aðra af plötunum sem átti að frumsýna. Dauði og djöfull! En, hvað um það… Nýjasta breiðskífa frönsku djöflarokkssveitarinnar Bahrrecht kemur út þrítugasta og fyrsta október á vegum Ketzer Records. Kannski það sé löngu gleymt en það fyrirtæki gaf út efni með Sólstöfum og Myrk fyrir löngu síðan. Í þá gömlu góðu daga þegar Addi öskraði úr sér lungun. Ef þig langar að hlusta á nýjustu plötu Bahrrecht í heild sinni geturðu gert það hér.

nýtt undir nálinni 191016

Norska þungarokkshátíðin Blastfest tilkynnti það í dag, að vegna utanaðkomandi þrýsting neyddist hún til þess að neita Peste Noire um að koma fram á hátíðinni á næsta ári. Í kjölfar þess ákvað finnska hljómsveitin Horna að hætta við að spila á hátíðinni.

Skipuleggjendur hátíðarinnar höfðu áður, meðal annars þegar hljómsveitin var tilkynnt á hátíðina, að þetta væri spurning um tónlist en ekki pólitík, en Peste Noire hefur lengi verið alræmd fyrir að pólitískar skoðanir sínar, sem margir virðast ekki sáttir við.

Samkvæmt hátíðinni var það svo að nú var spurning um líf hátíðarinnar, að annað hvort kæmi hljómsveitin ekki fram eða hátíðin gæti ekki starfað lengur í Bergen.

Á léttari nótum þá mun hin ódrepandi þrasslest frá New York, Overkill, gefa út nýja smáskífu í byrjun næsta mánaðar. Sjötomman mun koma út á vegum Nuclear Blast, án efa í öllum mögulegum litum, og hér geturðu tékkað á titillaginu! Jeij!!!

nýtt undir nálinni 181016

Það styttist óðum í Vetrnætur tónlistarhátíðina sem fram fer á Gauknum næsta föstudag og laugardag. Í fyrradag var dagskrá hátíðarinnar birt, en ef þú sást hana ekki þá getur þú séð hana hér núna.

21. október, föstudagur „SUMARLOK“:
Opnunaratriði: Seiðkonur hjartans kl. 19:00
Örmagna kl.19:40
AMFJ kl. 20:40
Abominor kl. 21:40
Lunar Mantra kl. 22:40
Misþyrming kl. 23:40
Lluvia kl. 00:40

22. október, laugardagur „FYRSTI VETRARDAGUR“:
HÖH kl 19:00
Nornahetta kl 20:00
Naðra kl 20:50
Our Survival Depends On Us kl. 21:50
NYIÞ kl. 23:00
Phurpa kl. 00:00

Auðn og Zhrine munu koma fram á Roadburn tónlistarhátíðinni á næsta ári. Hátíðin fer fram í Hollandi, nánar tiltekið í borginni Tilburg, í apríl, og munu þær koma fram ásamt hljómsveitum eins og Inter Arma, Emptiness, Wretch, Deafheaven og Mysticum.


Að lokum er svona hérna smá viðtal sem ég tók við Aðalstein Magnússon, einn af skipuleggjendum Reykjavík Deathfest. Eins og alþjóð veit þá verður hátíðin haldið á næsta ári á Gauknum og munu Cryptopsy, Severed, Ad Nauseam og Ophidian I koma þar fram ásamt fleiri hljómsveitum. Vindum okkur bara strax í viðtalið…

Er sami hópurinn á bakvið RVKDF2 og var á bakvið þá fyrstu?
Hópurinn er í kjarnan sá sami, Ég og Ingó við tókum aðeins til og fengum þriðja megin manninn í þetta með okkur sem er Unnar (Beneath/Severed). Við þrír erum Reykjavík Deathfest.

Þið hafið verið helvíti duglegir að tilkynna hljómsveitir síðustu dagana. Er meira í bígerð eða er allt komið?
Já það er búið að vera brjálað að gera í bókunum hjá okkur bæði á erlendum böndum og innlendum, við fengum endalausar beiðnir frá hljómsveitum og þær eru enn að berast, það mætti segja að við gætum allt eins látið hátíðina bóka sig sjálfa að ári. En þetta er ekki búið enn, við eigum eftir að tilkynna tvær staðfestar hljómsveitir en ég ætla ekki að fara lofa meira upp í ermarnar á mér varðandi hvort það bætast fleiri við.

Hver er stefnan þegar að RVKDF kemur? Einhver ákveðinn rammi sem þið farið ekki út fyrir, eða er „Deathfest“ ekki bara dauðarokk, líkt og aðrar hátíðir sem bera þetta nafn?
Hvað þema hátíðarinnar varðar þá er þetta fyrst og fremst dauðarokkshátíð við vorum með Logn í fyrra sem mótvægi við Dauðann og við endurtökum leikinn í ár með því að bjóða uppá fjölbreytt úrval af extreme músík, það er í raun allt leyfilegt á Reykjavík deathfest. Það eru allir velkomnir að vera með svo lengi sem það er tenging við dauðarokk. Við viljum að allir upplifi sig velkomna hjá okkur, í þeim skilningi er ekkert dresscode.

nýtt lag með emptiness á andfara

Í dag býður Andfarinn uppá sannkallaðann hryllingsmálm! Eflaust kannast nú einhverjir við belgísku svartdauðarokkssveitina Emptiness, sem hefur gefið út fjórar breiðskífur til þessa, hver annari viðbjóðslegri í ákefð og hávaða.

Í byrjun næsta árs mun fimmta skífa sveitarinnar líta dagsins ljós í gegnum (surprise, surprise) Season of Mist. Platan mun bera nafnið Not For Music og í dag frumsýnir Andfarinn glænýtt lag af skífunni. Gjörið svo vel!

nýtt undir nálinni 161016

Það var bara tímaspursmál, býst ég við að Skuggsjá myndi breyta um nafn. Það er kannski helvíti erfitt að ætla að keppa við Skuggsjá Einars Selvik og Ivars Björnson. Hljómsveitin tilkynnti það síðasta föstudag að hún hefði breytt um nafn og kallast hún nú Nyrst. Á sama tíma og ég óska hljómsveitinni til hamingju með nafnabreytinguna óska ég ennfremur eftir því að hún klári upptökurnar sem hún byrjaði á fyrir öldum siðan, finnst manni, og gefi þær út. Veröldina vantar meira íslenskt djöflarokk.

Ég er nokkuð viss um að ég hafi minnst á Krater áður hér á Andfara, en ef ekki þá er virkilega kominn tími á það. Hljómsveitin skellti nýju myndbandi á Netið síðasta föstudag og það er, verð ég að segja, mjög gott. Bæði myndband og lag. Ég er búinn að vera með plötuna sem lagið er tekið af, Urere, í gangi í allann morgun og er ekki að fá leið á henni. Virkilega gott þýskt djöflarokk.

Næsta föstudag hefst tónlistarhátíðin Vetrnætur. Fer hún fram á Gauknum og munu þar, meðal annars, koma fram Lunar Mantra frá Skotlandi, Lluvia frá Mexíkó ásamt fleirum innlendum og erlendum listamönnum. Frekari upplýsingar um hátíðina má finna hér til hægri. Ég er spenntur og ég vona að þú sért það líka!